Ég má til með að deila einni snilld með ykkur. Fyrir nokkru síðan fór ég í Nettó og þar var verið að kynna svo góðar baunaspírur. Ég hef alltaf verið sérstaklega hrifin af alfalfaspírum og nota þær mikið ofan á brauð og í salöt. Þessar spírur fannst mér einstaklega ferskar og góðar, ég skrifaði einmitt um það í þessari bloggfærslu. Framleiðandinn er Ecospira í Hafnarfirði og ég var yfir mig spennt um daginn þegar ég sá að þeir eru farnir að selja spírurnar í áskrift.
Núna er ég sem sagt orðin áskrifandi af brakandi ferskum baunaspírum sem ég fæ einu sinni í viku. Í pakkanum er 200 gröm af blönduðum spírum, til dæmis brokkolíspírur, alfalfaspírur og radísuspírur. Allar þessar spírur er víst ofurhollar og stútfullar af vítamínum og andoxnarefnum. Núna langar mig að finna fleiri notkunarmöguleika á spírunum. Ef þið lumið á góðum uppskriftum þar sem allskonar baunaspírur eru notaðar þá endilega deilið þeim með mér! 🙂
Hér er blandan sem ég fékk í þessari viku.
- Radísuspírur, grænar með rauðum stilk, dálítið beittar.
- Blaðlauksspírur, grænar, langar og mjóar með svörtu á endunum.
- Alfalfaspírur, ljósgrænar með ljósbrúnu hismi á, smágerðar og mildar.
- Brokkólí- & smáraspírur, grænar smágerðar, milt grænmetisbragð og örlítið stökkar.
- Blanda dagsins, blanda af mungbaunum, kjúklingabaunum, rauðum linsum og grænum ertum.
Þessi blanda kostar bara 1000 krónur sem mér finnst mjög gott verð. Ég hef líka séð að spírurnar eru til í flestum matvöruverslunum.
Í dag fékk ég mér nýbakað og gómsætt gróft brauð. Ég setti fyrst á brauðið hreinan Philadelphia ost, þá alfalfaspírur og svo tómat-avokado salsa. Ég dreifi síðan yfir þetta allt örlítið af grófmöluðum svörtum pipar og smá maldon salti – ljúffengt!
Núna ætla ég að einbeita mér af því að verða frísk fyrir morgundaginn en ég er að fara til Boston með saumaklúbbnum mínum, ferð sem við höfum safnað fyrir og skipulagt í nokkur ár! Það má því með sanni segja að spennan sé í hámarki núna í kvöld! 🙂 Ég nældi mér hins vegar í kvef og ljótan hósta, alveg hreint óþolandi tímasetning á veikindum. Það er ekki í boði að taka með þessi veikindi til Boston og ég ætla því að borða mikið af þessum hollu baunaspírum í kvöld og skola þeim niður með tei! 😉
Það mun væntanlega ekki gerast mikið á blogginu á næstu dögum þegar ég verð erlendis. En í næstu viku kem ég endunærð heim úr þessari menningarferð (*hóst*) og þá fer bloggið aftur á fullt, meðal annars með skemmtilegum leik þar sem þessi spennandi verðlaun munu koma við sögu.