Hægeldaður kjúklingur


IMG_1024Það er með ólíkindum hversu mjúkt og safaríkt kjöt verður þegar það er hægeldað. Um helgar finnst mér fátt betra en að hægelda lambalæri eða lambahrygg. Ef ég elda nautakjöt þá elda ég það „sous vide“. Reyndar þá á ég ekki sérstakar græjur til þess en ég hef notað skothelda aðferð frá Lækninum í eldhúsinu, ég vef nautalundinni inn í plastfilmu og hægelda í ofni við 60 gráður í nokkra tíma og steiki það svo snöggt á öllum hliðum, þannig verður kjötið lungamjúkt og dásamlega gott.

Um síðastliðna helgi var ég með heilan kjúkling í matinn og fór að hugleiða hvort ég gæti ekki hægeldað hann. Ég keypti heilan frosin kjúkling frá Rose (fékk hann í Fjarðarkaup – hef líka séð hann í Hagkaup), mér hann svo mjúkur og góður en ekki síst er frábært hversu stór hann er, 1600 gr, þá þarf ég ekki að elda tvo heila kjúklinga. Ég tók kjúklinginn úr frystinum á laugardegi og setti hann inn í ísskáp. Á sunnudeginum hægeldaði ég kjúklinginn og mikið óskaplega varð hann ljúffengur! Það var dálítið fyndið að fylgjast með viðbrögðum fjölskyldunnar sem settust öll við borðið á mismunandi tíma. Þau brugðust öll nákvæmlega eins við, „ummmm“ heyrðist í þeim eftir fyrsta bita og svo spurðu þau hissa, „hvernig kjúklingur er þetta?!“ Ég mæli því óhikað með þessari eldunaraðferð ef þið viljið fá dásamlega safaríkan kjúkling. Með honum hafði ég allskonar grænmeti, meðal annars fenniku sem mér finnst svo góð með sínum milda anískeimi en það er hægt að notað hvaða rótargrænmeti sem er í þessa uppskrift.

Uppskrift:

  • 1 heill kjúklingur, ca. 1600 g (ég notaði frá Rose)
  • Kalkúnakrydd
  • 50 g smjör
  • 1/2 dl sojasósa
  • 1 appelsína, skorin í báta
  • 1 heill hvítlaukur, afhýddur
  • 1 sæt kartafla, skorin í bita
  • 8 meðalstórar kartöflur
  • 1 fennika, skorin í bita
  • 1 lítil sellerírót, skorin í bita
  • ca. 2 msk hveiti
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • rifsberjahlaup
  • salt og pipar

IMG_1016

Bakarofn hitaður í 110 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingur er afþýddur, skolaður og þerraður. Þá er hann fylltur með appelsínubátum og hvítlauksrifum. Kjúklingurinn er settur í ofnpott. Smjör og sojasósa er brætt saman í potti og hellt yfir kjúklinginn og hann nuddaður vel á öllum hliðum upp úr smjörbráðinni og því næst kryddaður vel. Þá er grænmeti raðað þétt í kringum kjúklinginn. Lokið er sett yfir ofnpottinn og hann settur inn í ofn við 110 gráður í um það bil 3 klukkustundir, +/- hálftíma, fer eftir stærð kjúklingsins. Gott er að nota kjöthitamæli og stinga honum djúpt milli bringu og læris, þar eldast fuglinn seinast. Þegar hitinn er kominn í ca. 70 gráður er lokið tekið af pottinum og hitinn hækkaður í 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur tekið fallegan lit. Þá er ofnpotturinn tekinn úr ofninum og kjúklingurin færður á disk undir álpappír. Grænmetið er veitt upp úr pottinum og vökvanum hellt í pott í gegnum sigti. Vökvinn er látinn standa í pottinum um stund þar til fitan flýtur upp á yfirborðið. Þá er hún veidd af og pískuð saman við hveiti þar til blandan verður þykk. Suðan er látin koma upp á soðinu og hveitibollan pískuð saman við á meðan. Þá er rjómanum bætt út í og sósan látin malla þar til hún hefur þykknað passlega (við þörfum er hægt að nota sósujafnara og sósulit). Gott er að smakka sósuna til með rifsberjahlaupi og salti & pipar.

diablo

Sævar Már vínþjónn mælir með því að njóta kjúklingsins með silkimjúka hvítvíninu Casillero del Diablo Chardonnay. Það er ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, hunangsmelóna,eik.

IMG_1023IMG_1033IMG_1042

Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini


IMG_8722

Þetta er uppskrift sem ég vil klárlega eiga hér í uppskriftasafninu mínu. Þessi súpa finnst mér dásamlega einföld og góð. Ég elska uppskriftir sem eru svona fljótlegar, öllu hent í einn pott og útkoman ljúffeng – allt á örstuttum tíma. Ég nota oftast ferskt tortellini, það munar ekki svo miklu í verði en mér finnst það svo mikið betra. Að þessu sinni keypti ég ferskt tortellini í Bónus fyllt með ricotta og basiliku og mér fannst það gefa súpunni afar gott bragð.

  • 700 g kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 stór paprika skornar í bita
  • 1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
  • 1 msk ólífuolía
  • 1,5 l vatn
  • 3 teningar kjúklingakraftur
  • 2 msk tómatpúrra
  • salt & pipar
  • ítalskt pasta krydd (Santa Maria) og ítölskhvítlauksblanda (Pottagaldrar) eða önnur góð krydd
  • 250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku)
  • 4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • rifinn parmesan ostur (hægt að sleppa)

IMG_8724

Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddunum. Suðan látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í ca. 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddunum við þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

IMG_8720

Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090