Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini


IMG_8722

Þetta er uppskrift sem ég vil klárlega eiga hér í uppskriftasafninu mínu. Þessi súpa finnst mér dásamlega einföld og góð. Ég elska uppskriftir sem eru svona fljótlegar, öllu hent í einn pott og útkoman ljúffeng – allt á örstuttum tíma. Ég nota oftast ferskt tortellini, það munar ekki svo miklu í verði en mér finnst það svo mikið betra. Að þessu sinni keypti ég ferskt tortellini í Bónus fyllt með ricotta og basiliku og mér fannst það gefa súpunni afar gott bragð.

  • 700 g kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 stór paprika skornar í bita
  • 1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
  • 1 msk ólífuolía
  • 1,5 l vatn
  • 3 teningar kjúklingakraftur
  • 2 msk tómatpúrra
  • salt & pipar
  • ítalskt pasta krydd (Santa Maria) og ítölskhvítlauksblanda (Pottagaldrar) eða önnur góð krydd
  • 250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku)
  • 4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • rifinn parmesan ostur (hægt að sleppa)

IMG_8724

Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddunum. Suðan látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í ca. 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddunum við þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

IMG_8720