Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238

33 hugrenningar um “Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu

  1. Takk fyrir frábæra síðu ég er búin að fá margar hugmyndir að kvöld mat hjá þér og bloggin þín frábær og girnileg,hægeldaða lærið þitt var eldað í Noregi um Páskana og höfðum við heimagerða Bernessósu með namm.

  2. Hae Dröfn.. Eg bara hreinlega man ekki hvernig eg komst ad Eldhussögunum tinum en held ad tad hafi verid hun Aslaug sem sagdi mer fra tessu.. Eg get bara sagt alveg sannleikann og tad er nu einu sinni tannig ad eftir ad tid Svava komud med eldhussögur og ljufmeti ta höfum vid sarasjaldan opnad matreidslubok. I vikunni eldudum vid 3 retti fra ykkur. a morgun aetla eg ad profa anansasalsa sem tu ert nybuin ad setja a bloggid.. eldudum um helgina svinalund med sveppum,tomötum og rjomasosu og var otrulega gott. eg er odugleg ad skrifa inna bloggin tessa dagana en hef nu sent sms i stadinn ! halla

    • Takk fyrir kveðjuna Halla mín! Þú hefur nú verið voða dugleg að senda mér allskonar kveðjur, takk fyrir það! 🙂 Gaman að þið getið notað bloggin okkar Svövu, kram & knús til Bjarna og Brynju!

  3. Segi eins og síðasti ræðumaður, man það ekki svo glöggt hvernig ég rakst hingað inn. Þó held ég að ég hafi rekist á tengil hingað inn af FB. Lítur vel út kjúklingurinn hjá þér 🙂

  4. Ekkert man ég hvar ég rakst á síðuna en er nú mjög trúfastur lesandi 😉

    Spennandi þessi, en að lengja tímann ef notaðar eru bringur? Meinarðu þá ef bringurnar eru í heilu lagi og semsagt mikið stærri bitar en lærin? Yfirleitt þola jú læri meiri eldun en bringur.

    Úrbeinuð læri eru annars uppáhaldskjúklingabitarnir mínir. Hef ekki rekist á svoleiðis í búð lengi, verst það er svolítil vinna að gera það sjálfur.

    • Sæl Hildigunnur og takk fyrir að skilja eftir kveðju! 🙂

      Já, það er rétt, lærin eru minna viðkvæm fyrir langri eldun en bringur en þar sem mig langaði að hafa þennan rétt eins fljótlegan og hægt væri, þá hafði ég þau í ofninum í 15 mínútur sem dugði alveg (enda forsteiktar). Ef notaðar eru heilar bringur þá þurfa þær meiri tíma en 15 mínútur í ofni samkvæmt minni reynslu allavega.
      Ég var einmitt voða glöð að sjá úrbeinuð kjúklingalæri í Krónunni, ég nenni nú ekki að standa í að úrbeina þau sjálf! 🙂

  5. Takk fyrir frábæra síðu.. Datt bara inná hana fyrir nokkru 🙂 ég er búin að prófa margar uppskriftir hver af annari betri. Takk aftur og ég held áfram að fylgjast með, ásamt stórum hópi vina. Kveðja að austan.

  6. Sæl er búin að nota uppskriftir af þessari síðu í smá tíma og allar alveg frábærar prófaði þennan kjúllarétt á sunnudag og var hann alveg geggjaður einnig pistasíu þoskinn á mánudag jumí jummm…… fer reglulega hérna inn, finn alltaf eithvað girnilegt.
    Takk fyrir frábært blogg.

  7. Ég held ég hafi séð link á facebook og síðan þá fylgist ég alltaf með þegar þú setur inn nýja uppskrift á síðuna:)

    Á eftir að prófa svo margar og get ekki beðið eftir því 🙂

    Frábært blogg hjá þér 😉

  8. Sæl,
    Ég datt inn á bloggið þitt fyrir löngu og hef lesið mér til skemmtunar síðan, sem og prófað ýmislegt. Allt hefur slegið í gegn!
    Það er samt tvennt sem mig langar til að benda á, annars vegar eru ekki oft fiskréttir og hins vegar oft notaður mikill rjómi. Mér finnst því uppskriftirnar frekar vera til spari.
    Bestu kveðjur,
    Þorbjörg Gunn.

    • Gaman að heyra Þorbjörg að þú hafir getað notað uppskriftirnar héðan með góðum árangri! 🙂

      Varðandi fiskinn þá er það rétt, það eru ekkert mjög margir fiskréttir á síðunni. Það stafar annars vegar af því að yngstu börnunum mínum finnst fiskur afar vondur en þau fá hann tvisvar í viku í skólanum. Þess vegna hef ég bara fisk einu sinni í viku. Þeirra vegna geri ég einnig mikið færri tilraunir með fiskiuppskriftir en ég myndi vilja gera, það er nefnilega svo leiðinlegt að elda mat sem krakkarnir vilja ekki borða! Svo er það nú líka þannig að þegar ég set inn fiskrétti hér á síðuna þá eru þær færslur mikið minna lesnar en aðrar færslur – það virðist þvi vera eins og fleiri deili skoðun barna minna á fiski! 🙂

      Varðandi rjómann þá lít ég ekki á hann sem sparihráefni. Ég var einmitt að setja inn færslu með uppskrift af brokkolí- og blómklálsgratíni þar sem ég minnist á LKL mataræðið. Það mataræði er orðið afar vinsælt hérlendis og erlendis, fólk bæði grennist á því og líður afar vel. Þar er lögð mikil áhersla á hreina og góða fitu úr t.d. smjöri og rjóma. Í uppskriftunum mínum geri ég kannski matrétt fyrir 6 manns og í henni er 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi, það er ekki mikið magn á mann. Mér finnst ekkert óhollt eða spari við það! 🙂 En fólk er með mismunandi áherslur í mataræðinu og það er allavega gott að þú getur notað uppskriftirnar mínar spari! 🙂

  9. Góðar ELHÚSSÖGUR!
    Um daginn komu þau í heimsókn, sonur okkar og tengdadóttir akkurat um kvöldmatarleytið. Við hjónin vorum bara með einfaldar kjötbollur og kartöflumús og alls ekki nóg handa okkur fjórum. Svo ég ákvað að búa til (Bara handa mér) einhverskonar plokkfisk úr fiskafgöngum frá deginum áður. En ég hef aldrei búið til plokkfisk… en fór samt af stað. Mér var alveg sama hvernig hann yrði, því þetta átti bara að vera handa mér. Ég sem sagt eftirlét hinum að borða kjötbollurnar. Svo þegar allir voru búnir að borða bollurnar vildi tengdadóttirin fá að smakka plokkfiskinn minn. (Sko, hún er dönsk!). Hún sagði að svoleiðis matur væri í uppáhaldi hjá sér! (Mamma hennar er íslensk…)
    Mér leyst nú ekki á blikuna því ég setti ekki lauk, ekki karrý, sinnep eða smjör út í mixið mitt og ekki gratineraði ég þetta heldur. (Sá þetta í uppskriftinni þinni). Kartöflurnar stappaði ég bara saman í mjólk og setti „soldinn“ sykur með (gat ekki búið til mús úr þeim, þær voru kaldar… þetta urðu bara torkennilegir kögglar) ég ætlaði nefnilega bara að hella öllu saman í pott og hita þetta upp og gæða mér á því og það gerði ég. Þetta voru jú íslenskar kartöflur og úrvals-ýsa!
    Svo að ég geri langa sögu stutta; þá fannst henni þetta bara gott (ég setti mikinn pipar og svolítið salt út í). Kjötbollurnar og „PLOKKFISKURINN“ kláraðist, því allir urðu að smakka. Svo… löngu seinna GOOGLAÐI ég „plokkfisk“ og datt inn á ELDHÚSSÖGUR og nú ætla ég að prófa beikonvöfðu kjúklngalærin á morgun og svo… ætla ég að búa til ALMENNILEGAN plokkfisk og stiðjast við uppskriftina þína (Með rúgbrauði… mmmm :o)) Og… já, ég er búinn að „BOOKMARKA síðuna þína. Takk fyrir þitt uppskrifta-utanumhald! Frábært!

    • Haha … þetta fannst mér frábær kveðja! 🙂 Takk fyrir Gunnar, vonandi féll kjúklingarétturinn þér vel í geð og ég er spennt að vita hvernig plokkfiskurinn fellur í kramið! 🙂

      • Sæl
        Sko, plokkfiskurinn gerði þvílíka lukku. Mér var sagt að svipurinn á mér, þegar ég tók hann út úr ofninum hefði verið alveg óborganlegur. Hann kom bara svo FLOTTUR út úr ofninum að eg varð alveg undrandi! Hann kláraðist.
        Kjúklinginn er ég búinn að hafa tvisvar (keypti allt of mikið). Það sem mér finnst skemmtilegast við matinn þinn er að hann klárast í hvert skipti! (Segir sína sögu).
        TAKK ENN og aftur fyrir þitt framlag. Ég mun ÖRUGGLEGA nota fleiri uppskriftir frá þér, bæði í mat og…. já, svo langar mig að baka köku. Hef aldrei gert það áður.
        Ég vel mér einhverja einfalda skúffuköku og læt þig svo heyra hvernig fer….

  10. Ég spurði vini mína á facebook einn daginn hvaða matarblogg þau lásu, og þar komu hin ýmsu svör, og þar á meðal þitt. Ég elska svona velútfærð matarblogg! Myndirnar eru góðar og maturinn girnilegur, og ekki skemmir fyrir að innihaldið sé persónulegt 🙂 Ég mun halda áfram að fylgjast með.
    Kveðja frá Fjóni í Danmörku

  11. Þessi er rosalega góður ! Sló í gegn, m.a.s. hjá krökkunum 🙂
    Takk fyrir að deila uppskriftum með okkur sem erum alveg hugmyndasnauð þegar kemur að matargerð.
    Kveðja frá Englandi

      • Vantar svo eitthvað sem ég á til í ísskápnum þar sem ég kemst ekki í búð… Er ekki hægt að nota einhvers konar sinnep, sætt sinnep eða Dijon sinnep eða eitthvað álíka o.O


  12. Mér var bent á Eldhússögur af vin. Hef um langt skeið langað að stíga út fyrir
    „matar ramma“ þann sem við búum í en aldreig fundið neitt spennandi.
    Eldhússögur er lifandi, frábærlega vel sett og girnileg síða.
    Ætla að prufa fyrsta réttinn í dag 🙂
    Takk fyrir afnotið af þessari frábæru síðu 🙂
    Þórður

  13. Hæ hæ, var að vafra um á Pintrest að skoða uppskriftir eins og svo oft áður og rakst á þína, mig langar rosalega að prófa þennan rétt en ég bý í Englandi og er með eina örugglega mjög fáránlega spurningu, þessi kjúklingakraftur, er það bara teningur mulinn eða leystur uppí vatni? Vil ekki skemma matinn með því að setja vatn í hann svo hann verði rosalega þunnur, stundum eru vörurnar svo öðruvísi eftir löndum. Með fyrirfram þökk, Rakel.

    • Já það er bara teningur, ekki vatn. 🙂 Ég nota yfirleitt kjúklingakraft í lausu formi en ekkert mál að mylja bara tening. Gangi þér vel! 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.