Á milli jóla og nýárs voru tveir virkir dagar og ég var með matarboð báða dagana! Ég er búin að hlakka svo til að losna við ritgerðina af bakinu, geta átt eitthvað félagslíf aftur og boðið fólki í mat! Annað kvöldið komu bræður mínir tveir og mágkonur í mat og við spiluðum fram eftir nóttu. Ég ákvað að hafa fiskisúpu eftir þungar máltíðir jólanna. Þó ég sé ekki súpumanneskja þá var ég svo hrifin af fiskisúpunni að vestan að ég ákvað að reyna að útfæra einhverja svipaða uppskrift. Ég keypti inn hráefni sem ég taldi að pössuðu vel saman og mallaði svo súpuna. Mér fannst súpan verða rosalega góð og það hljómaði á gestunum að þeir væru sammála mér. 🙂 Ég hripaði niður það sem ég gerði, ég vona að ég geti komið því sæmilega skýru frá mér þannig að hægt sé að endurtaka leikinn. Ég notaði skötusel og lúðu en það er hægt að nota hvaða fisk sem er, helst þó fisk sem er þéttur í sér.
Talandi um fiskisúpuna að vestan þá átti ég leið framhjá veitingastað um daginn sem selur súpu og brauð í hádeginu. Í glugganum á veitingastaðnum blasti við mér þetta stóra plakat með svona líka girnilegri súpu og brauði!
Veitingastaðurinn hefur greinilega ákveðið að fá myndina mína ,,lánaða“ og prenta hana á auglýsingaspjald á þess að spyrja kóng, prest né mig! Ég átta mig á að þegar myndir eru settar á netið getur hver sem er notað þær og ég hef ekkert á móti því að fólk nýti sér myndir frá síðunni minni til persónulegra nota í tengslum við uppskriftirnar. Hins vegar dreg ég mörkin við að myndirnar séu notaðar í auglýsingagerð án þess að ég sé spurð leyfis. Mér finnst slík notkun vera lélegir viðskiptahættir. Ef fyrirtæki nota ekki eigin myndir við auglýsingagerð þá er venjan að þau nýti sér myndabanka og greiði fyrir notkun mynda þaðan. Ég reikna allavega fastlega með að ég fái vel matreidda fiskusúpa að vestan á þessum veitingastað endurgjaldslaust hvenær sem er! 🙂
Uppskrift f. 8
- 600 g skötuselur, skorin í munnbita
- 600 g lúða, skorin í munnbita
- 500 g rækjur
- 1 líter fiskisoð (fiskikraftur og sjóðandi vatn)
- 2 dl hvítvín (eða Mysa)
- 3-5 dl rjómi
- 3 stórir skarlottulaukar, skornir fremur fínt
- 3 hvítlauksgeirar, saxaðir fremur fínt
- smjör til steikingar
- 1 púrrlaukur, saxaður meðalgróft
- 1 paprika, skorin í bita
- 3-4 gulrætur, skorin í bita
- 1 fennika, skorin í bita
- 3 tsk madraskarrí (eða venjulegt karrí)
- 2 msk tómatmauk
- fersk basilika, söxuð meðalgróft
- ferskur graslaukur, saxaður fínt
- ferskt kóríander, saxað gróft
- 2 dósir kókósmjólk
- Salt og pipar
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera boðið í báðar þessar súpur og get vottað að þær eru báðar meiriháttar góðar.
Ótrúlegt að fyrirtæki skuli stunda svona auglýsingamennsku! Spurning hvort þeir hafi stolið uppskriftinni líka…
Gott að heyra að þér líkaði súpurnar Guðjón! 🙂
Já, þetta er ófagmannlegt af þessu fyrirtæki!
Þessi var á borðum í gær ásamt gulrótarbrauðbollunum þínum. Mjög góð súpa, setti hálfa krukku af sambal oelek í hana þar sem við vildum hana smá sterka (tvöföld uppskrift). Gaf góðan kikk. Takk fyrir okkur!
Gaman að heyra það Ragnhildur, takk fyrir kveðjuna! 🙂 Góð hugmynd að nota Sambal oelek!
Æðisleg súpa! Takk!
Frábært að heyra Gréta Ósk! 🙂 Takk fyrir að láta mig vita!
Talaðirðu við þau á veitingastaðnum? Það nær ekki nokkurri átt að gera svona! (og bjánalegt að nota mynd frá íslenskri síðu – mun ólíklegra að einhver random Flickr notandi með matarmyndir rekist á plakatið…)
Já, þetta er eiginlega svo kjánalegt að ég held að viðkomandi aðilar hljóti að hafa gert þetta í algjöru þekkingarleysi á höfundarrétti ljósmynda. Hef ekki nennt að setja mig í samband við þessa aðila enn vegna anna.
Gerdi tetta i kvöld og var vodalega god supa. Vid settum lika eins og ein her ad ofan sambal oelek a bordid svo allir gaetu haft hana haefilega sterka ad vild. Hvitlauksbraud Inu var vodalega gott med. Madur a bara ekki ad vera husum haefur utaf hvitlaukslykt a morgun. Maeli med tessari supu
Takk fyrir kveðjuna Halla mín! Fékkstu sem sagt góðan fisk í Stokkhólmi??
Delicious! Tasted like the soup we had in the Westfjords. Thanks for the recipe and thanks to google translate for allowing me to read it in English!
Jen
Michigan USA
Wow! I find it amazing that you are actually cooking from my little Icelandic blog Jen! 🙂 Thanks for your kind words and I hope you will try some more recipes from my blog. Don’t hesitate to leave a comment if Google translate fails you! 🙂