Kjúklingapasta með pestó, sólþurrkuðum tómötum og basiliku


IMG_1150
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂

Uppskrift:

 • 300 g tagliatelle
 • 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
 • 150 g sveppir, sneiddir
 • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
 • 2 msk rautt pestó
 • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
 • 3 hvítlauksrif, pressuð
 • 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
 • 30 g fersk basilika, söxuð
 • 1 msk þurrkað oregano
 • salt og pipar
 • 4-5 dl matreiðslurjómi

Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.

IMG_1138

IMG_1146

Pepperóni pasta


Ein af ástæðunum fyrir því að ég opnaði þetta matarblogg var sú að ég vildi safna uppskriftunum mínum á einn aðgengilegan stað. Alexander ætlar að flytja að heiman á næsta ári og hann hefur oft talað um að þá þurfi hann að fá uppskriftir af hinum og þessum réttum sem ég geri. Núna þarf hann ekkert nema nettengingu til þess að ná í þessar uppskriftir! 🙂 Þessi uppskrift er sérstaklega sett inn fyrir hann en þessi réttur hefur verið hans uppáhalds síðan hann var lítill. Öllum hinum í fjölskyldunni finnst þessi pastaréttur afar góður líka og yngri börnin borða alltaf vel af þessum rétti.

Uppskrift f. 4-5

 • 500 gr pasta, soðið eftir leiðbeiningum
 • 1 ½ áleggsbréf af pepperóní
 • 250 gr sveppir
 • 2 dósir niðursoðnir hakkaðir tómatar, gott að nota þessa bragðbættu, t.d. með basiliku.
 • 2 msk tómatpúrra
 • 2 msk tómatsósa
 • 1 peli rjómi
 • 2 dl mjólk
 • 2 tsk basilika
 • 1 tsk kjötkraftur
 • salt og pipar
 • ólifuolía til steikingar

Aðferð:

Sveppir sneiddir frekar gróft og steiktir á pönnu ásamt kjötkrafti. Pepperóni skorið í bita og bætt út í. Niðursoðnum tómötum ásamt tómatpúrru og tómatsósu bætt við og kryddað með oregano, basiliku, salti og pipar. Að lokum er rjóma og mjólk bætt við. Sósunni leyft að malla í dálitla stund, því lengur sem hún fær að malla því betri verður hún en fyrir þá sem eru í tímaþröng þá duga 10 mínútur, á meðan er pasta soðið. Ef sósan verður of þykk þá er hægt að þynna hana með meiri mjólk. Sósan er svo smökkuð til og krydduð meira við þörfum, því næst blandað saman við pastað. Borið fram með salati og góðu brauði.

Pasta með ricotta- og spínatsósu


Ég er mjög hrifin af ítölskum mat og matarmenningu. Á ferðalögum erlendis heimsækjum við alltaf allavega einn ítalskan veitingastað. Mig dreymir um að fara í menningar-, matar-, og vínferð til Ítalíu en þangað hef ég enn ekki komið. Þar til sá draumur rætist æfi ég mig í eldhúsinu og reyni við ítölsku stemmninguna! 🙂 Hér er einn góður pastaréttur:

Spínat- og ricotta sósa

 • 2 msk smjör
 • ca 300 gr spínat
 • 200 gr ricotta ostur
 • 2 dl rjómi
 • 1 tsk múskat
 • 12 koteiltómatar, skornir í tvennt.
 • 200 gr sveppir, sneiddir
 • salt og pipar

Pasta og með því

 •  pasta, soðið eftir leiðbeiningum (ég notaði ferskt pasta)
 • parmaskinka eða önnur góð skinka
 • ferskur parmesan, rifinn
 • nýmalaður svartur pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum. Hreinsið spínatið og hristið af vatnið. Steikið sveppi í smjöri, kryddið með salti og pipar, takið sveppina til hliðar. Grófsaxið spínatið og snöggsteikið í djúpri pönnu eða potti . Hrærið saman ricotta og rjóma og blandið út í spínatið. Látið sósuna malla í nokkrar mínútur og bætið við tómötum og sveppunum. Kryddið með múskati, salti og pipar.

Blandið sósunni saman við pastað og berið fram með skinkunni og rifnum parmesan. Bætið við ferskmöluðum pipar eftir smekk. Berið fram með góðu brauði.