Núna fer sumarfríinu senn að ljúka en þetta sumar er búið að vera einstaklega ljúft. Þar stendur upp úr frábær Ítalíuferð og vikuferð á Vestfirði með stórfjölskyldunni en mér finnst Vestfirðirnir fegurstir allra staða á Íslandi. Auk þess er veðrið búið að vera frábært sem hefur boðið upp á allskonar notalegheit hér í bænum, veitinga- og kaffihúsaferðir, hjólaferðir, gönguferðir, grillveislur og allskonar skemmtilegt. Þar að auki tók ég upp á nýrri iðju, sjósundi, sem mér finnst æðislegt og stefni á að halda áfram með í vetur.
Uppskriftin sem ég ætla að setja hér inn í dag er að rúllutertubrauði. Mér finnst alltaf sérstaklega skemmtilegt að búa til eitthvað úr því sem ég á í ísskápnum, tilfinningin er svo góð þegar manni tekst að vera nýtinn. Að þessu sinni nýtti ég nokkra sólþurrkaða tómata sem ég átti í krús, afgang af fetaostkubbi og fleira og úr varð ákaflega gott rúllutertubrauð sem ég bauð upp á í fjölskyldukaffi sem er við höfum flest alla sunnudaga.
Uppskrift:
- 1 rúllutertubrauð
- smjör og/eða olía til steikingar
- 250 g sveppir, skornir í sneiðar
- 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
- 1 bréf pepperóní (ca 150 g)
- 1 pepperóníostur(150 g), sneiddur mjög smátt eða rifinn
- 1/2 fetaostkubbur (ca 125 g), mulinn niður
- 1 dl rjómi
- 1 dl svartar ólífur, saxaðar
- 8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
- salt, pipar og gott krydd (ég notaði Pasta Rossa frá Santa Maria)
- rifinn ostur