Rúllutertubrauð með pepperóni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum


IMG_0148Núna fer sumarfríinu senn að ljúka en þetta sumar er búið að vera einstaklega ljúft. Þar stendur upp úr frábær Ítalíuferð og vikuferð á Vestfirði með stórfjölskyldunni en mér finnst Vestfirðirnir fegurstir allra staða á Íslandi. Auk þess er veðrið búið að vera frábært sem hefur boðið upp á allskonar notalegheit hér í bænum, veitinga- og kaffihúsaferðir, hjólaferðir, gönguferðir, grillveislur og allskonar skemmtilegt. Þar að auki tók ég upp á nýrri iðju, sjósundi, sem mér finnst æðislegt og stefni á að halda áfram með í vetur.

Uppskriftin sem ég ætla að setja hér inn í dag er að rúllutertubrauði. Mér finnst alltaf sérstaklega skemmtilegt að búa til eitthvað úr því sem ég á í ísskápnum, tilfinningin er svo góð þegar manni tekst að vera nýtinn. Að þessu sinni nýtti ég nokkra sólþurrkaða tómata sem ég átti í krús, afgang af fetaostkubbi og fleira og úr varð ákaflega gott rúllutertubrauð sem ég bauð upp á í fjölskyldukaffi sem er við höfum flest alla sunnudaga.

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 bréf pepperóní (ca 150 g)
  • 1 pepperóníostur(150 g), sneiddur mjög smátt eða rifinn
  • 1/2 fetaostkubbur (ca 125 g), mulinn niður
  • 1 dl rjómi
  • 1 dl svartar ólífur, saxaðar
  • 8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • salt, pipar og gott krydd (ég notaði Pasta Rossa frá Santa Maria)
  • rifinn ostur
IMG_0144
Sveppir steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu. þegar þeir byrja að taka lit er púrrlauk og pepperóní bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund. Því næst er pepperóníosti, fetaosti, rjóma, ólífum og sólþurrkuðum tómötum bætt á pönnuna og látið malla þar til osturinn er bráðnaður. Kryddað eftir smekk. Hellið blöndunni yfir rúllutertubrauðið, rúllið upp og dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í um 20 mín. eða þar til osturinn hefur fengið góðan lit.
IMG_0146

Rúllutertubrauð með pestó og mozzarella


Rúllutertubrauð með pestói og mozzarellaÞegar ég var með afmæli um daginn langaði mig að breyta út af venjunni og hafa öðruvísi rúllutertubrauð. Ég var ekkert viss um að þetta yrði gott en svo fór að þessi rúllutertubrauð kláruðust fyrst af öllum réttunum. Mér finnst galdurinn liggja í að búa til sitt eigið pestó, það er svo ákaflega gott! En auðvitað er líka hægt að kaupa tilbúið pestó og nota það í staðinn. Eins og stundum þegar ég prófa einhvern nýjan rétt í veislum þá eru engin góð tækifæri til þess mynda afraksturinn en ég náði þó að smella einni mynd af sneið áður en allt kláraðist.

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 140 g skinka (ég notaði reykta skinku frá Ali), skorin í bita
  • ca. 15 svartar ólífur, saxaðar gróft
  • 2 msk smátt saxaðaðir sólþurrkaðir tómatar (gott að nota dálítið af olíunni með)
  • 1 mozzarella ((kúlan í bláu pokunum, 120 g), skorin í bita
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • salt og pipar
  • rifinn ostur og/eða parmesan ostur ofan á brauðið
  • ca. 2 dl pestó – tilbúið eða heimagert.
  • Heimagert pestó:
  • 30 g fersk basilika
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 70 g kasjúhnetur (eða furuhnetur)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • ca. 1.5-2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.pestó

Ofn hitaður í 180 gráður. Pestóinu er blandað saman við skinku, ólífur, sólþurrkaða tómata, mozzarella ost og rifinn parmesan ost. Smakkað til með salti og pipar. Rúllutertubrauðið er lagt á bökunarpappír. Blöndunni er því næst smurt á rúllutertubrauðið og því rúllað varlega upp með hjálp bökunarpappírsins, samskeytin látin snúa niður. Rúllan er þá færð á bökunarpappírnum yfir á ofnplötu. Rifnum osti og/eða rifnum parmesan osti dreift yfir rúlluna (ég notaði líka nokkrar sneiðar af mozzarella osti) og hún hituð í ofni í ca. 15 mínútur við 180 gráður eða þar til að rúllan er orðin heit í gegn og osturinn farinn að bráðna.