Rúllutertubrauð með pepperóni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum


IMG_0148Núna fer sumarfríinu senn að ljúka en þetta sumar er búið að vera einstaklega ljúft. Þar stendur upp úr frábær Ítalíuferð og vikuferð á Vestfirði með stórfjölskyldunni en mér finnst Vestfirðirnir fegurstir allra staða á Íslandi. Auk þess er veðrið búið að vera frábært sem hefur boðið upp á allskonar notalegheit hér í bænum, veitinga- og kaffihúsaferðir, hjólaferðir, gönguferðir, grillveislur og allskonar skemmtilegt. Þar að auki tók ég upp á nýrri iðju, sjósundi, sem mér finnst æðislegt og stefni á að halda áfram með í vetur.

Uppskriftin sem ég ætla að setja hér inn í dag er að rúllutertubrauði. Mér finnst alltaf sérstaklega skemmtilegt að búa til eitthvað úr því sem ég á í ísskápnum, tilfinningin er svo góð þegar manni tekst að vera nýtinn. Að þessu sinni nýtti ég nokkra sólþurrkaða tómata sem ég átti í krús, afgang af fetaostkubbi og fleira og úr varð ákaflega gott rúllutertubrauð sem ég bauð upp á í fjölskyldukaffi sem er við höfum flest alla sunnudaga.

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 bréf pepperóní (ca 150 g)
  • 1 pepperóníostur(150 g), sneiddur mjög smátt eða rifinn
  • 1/2 fetaostkubbur (ca 125 g), mulinn niður
  • 1 dl rjómi
  • 1 dl svartar ólífur, saxaðar
  • 8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • salt, pipar og gott krydd (ég notaði Pasta Rossa frá Santa Maria)
  • rifinn ostur
IMG_0144
Sveppir steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu. þegar þeir byrja að taka lit er púrrlauk og pepperóní bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund. Því næst er pepperóníosti, fetaosti, rjóma, ólífum og sólþurrkuðum tómötum bætt á pönnuna og látið malla þar til osturinn er bráðnaður. Kryddað eftir smekk. Hellið blöndunni yfir rúllutertubrauðið, rúllið upp og dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í um 20 mín. eða þar til osturinn hefur fengið góðan lit.
IMG_0146

Brauðréttur og rúllutertubrauð


Hér á Íslandi er varla haldin afmælisveisla án þess að bjóða upp á góðan brauðrétt eða tvo. Fyrir afmælisveislur geri ég vanalega venjulegan brauðrétt í eldföstu móti, rúllutertubrauð og svo einn annan brauðkynsrétt, til dæmis tortillur, ostasalat, skonsutertu eða annað slíkt. Ég er alltaf á höttunum eftir góðum uppskriftum af brauðréttum. Í framhaldi af því er ég búin að þróa mína eigin uppskrift af brauðrétti í eldföstu móti sem ég er ánægð með.

Brauðréttur í eldföstu móti:

  • 250 gr. sveppir
  • 1 búnt ferskt brokkolí
  • 1 stk. stór rauð paprika
  • 1 blaðlaukur
  • ca 200 gr skinka, skorin í stimla
  • 1 piparostur, skorin í litla bita
  • 1 brieostur eða camembert, rifinn niður
  • 1-2 pelar rjóma
  • smjör
  • grænmetiskraftur, 1-2 teningar
  • kryddblanda, t.d. Best á allt eða Töfrakryddið frá Pottagöldrum
  • brauð, ca. 2/3 af heimilisbrauði
  • hunangs dijon sinnep
  • rifinn ostur

Búið til samlokur úr brauðinu, smurðar með dijon snnepi, gætið þess að nota ekki of mikið af sinnepinu. Skerið skorpuna af (má halda henni) og rífið samlokurnar eða skerið í litla ferninga. Setjið brauðið í botninn á eldföstu smurðu móti. Skerið sveppi, papriku, brokkolí og púrrlauk í litla bita og steikið ásamt skinkunni í smjöri á pönnu. Bætið piparostinum, brieostinum og grænmetiskraftinum útí, kryddið og látið ostin bráðna. Rjóminn er settur út í að síðustu og athugið að sósan á að vera þunn. Hellið sósunni yfir brauðið og stráið rifnum osti yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn. Þessi uppskrift passar í mjög stórt eldfast form eða tvö minni.

Uppskriftina af rúllutertubrauðinu sem ég geri hér kemur, að mig minnir, upphaflega úr brauðréttabók Hagkaup en ég gerði smá breytingar á henni. En í brauðréttabókinni eru margar góðar uppskriftir. Þar er til dæmis líka uppskrift af rúllutertubrauði með pepperóní sem er líka mjög góð.

Rúllutertubrauð

  • 1 stk. rúllutertubrauð
  • 1 stk. beikon smurostur
  • 2 msk. rjómi
  • 4 msk. majónes
  • 250 g beikon skinka
  • 4-6 lúxus beikonsneiðar
  • 1/2 dós grænn aspas
  • 100 gr sveppir skornir smátt
 Steikið beikonið og þerrið. Steikið sveppina í smjöri. Lækkið hitann og setjið smurostinn með smá aspassafa út á pönnuna og hrærið í þar til osturinn er orðinn mjúkur. Bætið rjómanum og majónesinu út í og blandið vel saman. Skerið beikonið og skinkuna í bita og blandið saman við ásamt aspasnum. Hellið blöndunni yfir rúllutertubrauðið og rúllið upp. Smyrjið rúllutertubrauðið með majonesi og dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í um 20 mín. eða þar til osturinn hefur fengið góðan lit.