Ég var fyrir löngu búin að lofa því að sýna myndir af nýja eldhúsinu mínu. Þann 1. desember síðastliðinn fengum við húsið okkar afhent og þá tók við krefjandi tímabil því við tókum allt húsið í gegn, allt frá nýjum vatnslögnum upp í ný gólfefni, innréttingar, hurðar ásamt því að endurnýja baðherbergin og rafmagn. Þann 1. mars fluttum við inn en þá var húsið ekki alveg tilbúið en mjög langt komið. Núna líður okkur eins og að loksins séu síðustu bitarnir í púslinu að komast á sinn stað. Í síðustu viku útskrifaðist Alexander úr læknisfræði og við náðum því markmiði að vera eiginlega búin að öllu fyrir útskriftarveisluna. Við erum vægast sagt afar ánægð með útkomuna á húsinu og líður ákaflega vel í því.
Ég er einstaklega ánægð með eldhúsið. Þegar við settum upp nýtt eldhús í gamla húsinu okkar fyrir átta árum og þá völdum við innréttingar með hvítum fulningahurðum (hurðar sem eru ekki sléttar heldur með listum). Við vorum mjög ánægð með það eldhús. Mér finnst sá stíll afar klassískur og það er sama hvað ég skoða margar eldhúsinnréttingar, mér finnst þær alltaf langfallegastar og hvítt fer aldrei úr tísku líkt og allskonar viðarlitir gera.
Við vorum því ákveðin í því að fá okkur svipaðar innréttingar í nýja húsið. Við skoðuðum innréttingar hjá öllum sem selja eldhúsinnréttingar en það eru þó ekki allir með fulninga-innréttingar. Þar sem að ég vildi meðal annars sérstakan tækjaskáp sem myndi passa á ákveðinn vegg þá vildi ég helst sérsmíðaðar innréttingar. Tækjaskápurinn sést hér að neðan og er algjör snilld.
Ekker af þeim fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu sem ég kannaði sérsmíðar fulninga-innréttingar í þeim stíl sem við vildum nema Björninn. Við enduðum því á að að velja það fyrirtæki, innréttingarnar frá þeim eru með fallegum fulningum (þær eru nefnilega misfallegar) og þeir eru snillingar í að hanna og smíða nákvæmlega það sem maður þarf. Ekki var verra að tilboðið frá þeim var einna lægst af öllum tilboðunum sem við fengum og þó voru það flest hin tilboðin frá fyrirtækjum með tilbúnum einingum, ekki sérsmíðuðum – þar af var eitt tilboð sem var rúmlega tvöfalt hærra en frá Birninum! Við teiknuðum upp innréttinguna í samvinnu við Pál hjá Birninum sem reyndist okkur rosalega vel. Innréttingin kom út jafnvel enn betur en við bjuggumst við. Ég get því virkilega mælt með Birninum, algjörlega frábærar innréttingar en ekki síst góð þjónusta en hún er svo mikilvæg í svona ferli.
Við ákváðum að fá okkur granítborðplötur. Ég er þó ekki hrifin af háglans granítplötum. Við völdum okkur leður-granít en þá er platan mött og mjög hlýleg, það glamrar líka mjög lítið á henni og óhreinindi sjást lítið á henni en oft sést mikið á glansandi graníti. Við keyptum hana hjá Granítsteinum í Hafnarfirði og ég gæti ekki verið ánægðri með borðplötuna, hún er algjört æði! Ég mæli virkilega með þessari leður-áferð og granítið er auðvitað snilldarefni.
Þessar myndir hér að neðan eru teknar af eldhúsinu frá stofunni sem er hálfri hæð ofar. Áður var engin opnun út í garð úr stofu eða eldhúsi/borðstofu. Við tókum því gluggann þarna vinstra meginn á myndinni, opnuðum vegginn og settum rennihurð þannig að það er hægt að ganga út í garð.
Borðstofuhornið var lítið og þar var gluggi og litlar svalir sem voru einungis rúmur meter á breidd og þær nýttust því ekkert. Við ákváðum að taka vegginn og setja glerskála yfir svalirnar í staðinn. Þannig myndum við fá miklu meiri birtu, losna við svalir sem voru bara snjókista en síðast en ekki síst fá stærri borðstofu. Við vissum ekki beint hvar við áttum að byrja, að þurfti að jú að kanna hvort þetta væri framkvæmanlegt, finna skála sem passaði, fá fólk í framkvæmdirnar, verkfræðing til að kanna burðarþol og meira. Við snérumst dálítið í hringi með þetta þar til að okkur var bent á að tala við Sigurð Hafsteinsson hjá Vektor. Hann var algjör bjargvættur í þessu máli, teiknaði þetta upp ásamt hitalögnum í gólfi og sótti um byggingarleyfi. Hann hjálpaði okkur líka að velja skála en við keyptum hann frá PGV en þar fengum við frábæra þjónstu, mæli með þeim.
Hér sést sár eftir vegg í eldhúsinu sem við tókum niður og það opnaði eldhúsið mikið.
Auk þess sem við endurnýjuðum neyslulagnir þá endurnýjuðum við rafmagnið sem gaf okkur og kost á góðri lýsingu í eldhúsið. Meðal annars með því að setja rafmagn í kassann fyrir ofan eyjuna.
Það voru snillingar frá Rafvolt sem sáu um rafmagnið hjá okkur, ég mæli með þeim!
Þeir settu líka lýsingu inn í tækjaskápinn sem er með skynjara og í glerskápana og þeir unnu þetta í góðri samvinnu við Björninn.
Ég leitaði með logandi ljósi af fallegum höldum og endaði á að finna þessar í Brynju. Ég vildi fá dálítið gamaldags útlit og fannst fallegt hvernig liturinn á þessum tónuðu við borðpötuna og parketið.
Ég lét Pál fyrst teikna eyjuna upp með bara helming þessara glerskápa og þá væri hægt að sitja með barstólum við hinn endann. Eftir miklar vangaveltur hætti ég við það. Mig langaði að hafa fleiri glerskápa og svo fannst mér það stílhreinast að hafa ekki barstóla við eyjuna.
Rafvirkjarnir voru líka svo sniðugir að setja svona tengla í eyjuna þannig að hægt sé að stinga tækjum þar í samband.
Birtan í skálanum er dásamleg. Núna er allt fallega grænt fyrir utan en á veturna er skálinn eins og rammi utan um málverk.
Fleiri myndir.
Ég er lítið fyrir gráu tónana sem eru vinsælir núna og við völdum þennan ljósbláa lit á veggina í eldhúsið en okkur fannst hann svo fallega sænskur. 🙂
Stofan er hálfri hæð ofar en elhúsið og það er gat á milli sem hefur aldrei verið neitt fyrir frá því húsið var byggt fyrir 35 árum. Við settum glervegg fyrir gatið og erum mjög ánægð með útkomuna.
Í stofunni valdi ég bleikan lit sem fer út í beislit, jafnvel gráan. Hann er mjög breytilegur eftir birtu og ég er rosalega ánægð með hann. Við settum hátalara og bassabox í loftið á stofunni – mjög góð lausn fyrir manneskjur eins og mig sem þoli illa snúrur! 😉
Ótrúlega fallegt hjá ykkur og skálinn kemur vel út og kemur með meiri birtu inn í rýmið 🙂
Við gerðum eldhúsið okkar árið 2001 og það er einmitt með hvítum fulningarhurðum eins og ykkar. Við keyptum okkar innréttingu einmitt í Birninum en þar sem við vorum ung og áttum ekkert mikinn pening þá keyptum við furu fulningarinnréttingu sem við máluðum sjálf inní bílskúr 🙂 Ég segi oft að þessi innrétting eldist mjög vel því ef ég væri að velja með innréttingu í dag þá myndi ég fá mér nákvæmlega eins 🙂
Enn og aftur til lukku með þetta
kv
Kristín Vald
Takk fyrir það! 🙂
Já, þessar innréttingar eru svo hlýlegar og fallegar. Það eru ekki margar innréttingar þannig að maður myndi velja alveg eins 15 árum seinna, sýnir bara hvað þetta er mikil klassík! 🙂
Fallegt ❤
Takk fyrir! 🙂
Vá hvað útkoman er meiriháttar flott. Rosalega fallegt og virkilega hlýlegt og kósí. Ég er alveg að elska glerskálann!
Hlakka til að koma í heimsókn og sjá 😊👍
Takk elsku Brynja, já og komdu í heimsókn! 🙂
Mjög flott eldhús hjá ykkur en má ég spyrja hvaða ofn þú fékkst þér
Ég fékk mér tvo eins ofna. Ég leitaði mjög lengi að bakarofn. Málið er að ég vildi ekki alveg digtal ofn, þe. þar sem væru bara snertitakkar, margir eru orðnir alltof tæknilegir með prógrömmum sem maður notar aldrei og bara flóknir. Hins vegar fannst mér mjög mikilvægt að það væri Pyro sjálfhreinsikerfi. Ég endaði á að kaupa Siemenz (HB74AR554E), þennan hér: http://www.elko.is/elko/is/vorur/Veggofnar/Siemens_veggofn_Stal_HB74AR554E.ecp
Mikið lítur þetta vel út.
Kærar þakkir Linda! 🙂
Glæsilegt í alla staði algjört drauma eldhús 😃
Takk fyrir það Anna, mér finnst það líka! 🙂
Mjög fallegt og eins og þú segir klassískt líka.
Það væri gaman að vita til hvaða fyrirtækja þú hefur leitað
Ég hefði haldið að þú hefðir getað fengið svona fræstar hurðir á fleiri stöðu en hjá Birninum.
Já, það eru margir með svona fulninga-hurðir, t.d. HTH, Fríform, Kvik, Alno og fleiri en það eru allt tilbúnar einingar, ekki sérsmíðaðar. Ég leitaði þá til fyrirtækja eins og SBS innréttingar, Trésmiðju GKS og fleiri en enginn þeirra gerir svona fulningahurðir. Þeir gátu mögulega gert bara einfaldan ramma utan um hurðina en það var ekki útlitið sem ég var að leita að.
Ofsalega fallegt hjá ykkur!! Hlýtur að vera dásamlegt að mynda mat í þessari gullfallegu birtu 😊 Til hamingju með þetta allt saman!
Takk! 🙂 Jú það er æðislegt að mynda í skálanum! 🙂
Vá þvílík breyting 🙂 Og nýja eldhúsið dásamlega fallegt. Gólfefnin eru líka að heilla mig…má ég forvitnast hvaðan þau eru og hvaða týpa?
Takk! 🙂 Þetta gólfefni … það er æðislegt!! Ég gæti ekki verið ánægðari með það. Þetta er harðparket úr Birgisson, KronoSwiss og heitir Oak Lion. Ofboðslega fallegir litir í því, smá rustic áferð. Það sést ekkert á því, æðislegt að þrífa það og það þolir allt, vatn, högg og slíkt. Svo eru plankarnir mjög breiðir og alveg 2.80 m. á lengd.
Svakaleg flott hjá ykkur og vel heppnaðar breytingarnar. Fallegt heimilið ykkar 🙂
Kærar þakkir! 🙂
Vá hvað þetta er bjart og fallegt hjá ykkur. Og að geta gengið út í garð úr eldhúsinu finnst mér algjör snilld. Takk fyrir að sýna okkur. Og takk fyrir bloggið þitt, ég elska uppskriftirnar þínar.
Takk fyrir góða kveðju! 🙂
Innilega til hamingju með fallega húsið þitt og þetta meiriháttar eldhús
Takk fyrir Berglind! 🙂
Innilega til hamingju með fallega eldhúsið og skálann, sérlega skmekklegt og ég tala nú ekki um þessa dásamlegu birtu sem umlykur ykkur þarna.
Ætla í leiðinni að þakka þér fyrir allar yndislegu uppskriftirnar sem ég hef nýtt mér mikið. Byrja alltaf að leita hjá þér, og finn þá það sem mig langar að gera.
Kær kv. 🍍 🍓 🍇 🍒
Vá vá eldhúsið er geggjað og sólskálinn og hurðin út í garð setja alveg punktinn yfir i ið takk fyrir að leyfa okkur að sjá. Hlakka til að fylgjast áfram með uppskriftunum þínum sem eru æði búin að nota margar Takk fyrir mig.
Rosalega er þetta fallegt eldhús, hlýtur að vera yndislegt að elda þarna alveg frábært. Til hamingju með húsið þitt, hlakka til næstu uppskrifta 🙂
Takk fyrir fallega kveðju Halla! 🙂 Fullt af uppskriftum sem ég er á leiðinni að fara blogga um. Það er bara búið að vera svo mikið að gera í endurbótum á húsinu en sem betur fer er því lokið núna.
daglegur gestur í uppskriftunum þínum og varð bara að kommenta á breytingarnar 🙂 þetta er alveg ótrúlega fallegt og það hlýtur að vera gott að vinna þarna í eldhúsinu, til hamingju með glæsilegar breytingar og húsið,
Kærar þakkir fyrir fallega kveðju Hadda! 🙂
Gaman að sjá gamla heimilið mitt .Pabbi byggði þetta hús á sínum tíma þannig að þetta hús er með góðar minningar .En svakalega flottar breytingar á húsinu og til hamingju með það😊
Gaman að heyra þetta Hrafnhildur! 🙂 Húsið er einstaklega vel byggt og góður andi í því! 🙂 Mér skilst að öspin fyrir aftan hús hafi verið kölluð í höfuðið á pabba þínum? Hún er orðin afar stór núna en flott og við tímum ekki að taka hana. 🙂
OH, þetta er drauma eldhús! Hjartanlega til hamingju og takk fyrir að deila þessu dásemdar eldhúsi sem og uppskriftunum sem ég elda oft eftir 😉 .
Kærar þakkir fyrir góða kveðju! 🙂
Sæl, flottar breytingar! Er einmitt í endurgerð á eldhúsi og mig langaði till að forvitnast út í hvar þið fenguð svona netta hurð út í garð? Hef bara séð þær frekar stórar. Bestu þakkir, Anna
Takk fyrir það! 🙂 Hurðin er frá fyrirtækinu Faris og heitir Velfac.
Takk kærlega fyrir svarsendinguna! Skoða þetta 🙂
Dásamlega fallegt heimili, eiginlega bara 100% fullkomið eins og maður hugsar sér himnaríki. Svo er það flotti Tiffany’s blu liturinn á veggjunum. Spurning samt með neðri glerskápa þegar barnabörnin koma í heimsókn, en den tid den sorg:-) Mann langar bara í heimsókn, þó maður þekki þig ekki neitt, djók! Til hamingu og njótið í botn, vona að þið þurfið ALDREI að flytja.
Sæl, glæsilegt eldhús hjá ykkur, ertu með viftu uppí loftinu ? Er að fara í breytingar og ætla að hafa viftu helst innfelda í loftið, ertu með svoleiðis ?
Takk! 🙂 Nei ég er ekki með neinn háf eða viftu. Það er rennihurð við hliðina á eldhúsinu þannig að það er auðvelt að lofta. Ég ákvað að prófa að hafa engan háf og það hefur ekki verið neitt vandamál.