Um helgina kom umfjöllun á mbl.is varðandi markaðssetningu á lambakjöti og þar var sérstaklega tekið fyrir hversu hrifnir matarbloggarar virðast vera af kjúklingi á kostnað lambakjöts. Málinu til stuðnings voru uppskriftir taldar á matarbloggum og þar kom í ljós að lambakjötsuppskriftir voru býsna fáar miðað við kjúklingauppskriftir. Ég er einn þeirra matarbloggara sem er „sek“ um að vera með fáar lambakjötsuppskriftir á síðunni minni. Í kjölfarið fór ég að hugleiða hvers vegna svo væri.
Ég er eiginlega handviss um að sú staðreynd, að hér á blogginu mínu séu kjúklingauppskriftir í meirihluta en fáar lambakjötsuppskriftir, endurspegli hversdagslegan raunveruleika margra barnafjölskyldna hér á landi. Gott lambakjöt er dýrt, kostar ca. 3-5 þúsund krónur kílóið (læri, prime, file og slíkt) – fyrir mér eru þetta kjöt sparimatur, eiginlega í flokki með nautakjöti. Aðrir ódýrar bitar sem boðið er upp á er t.d. súpukjöt og oftast annað lambaköt á beini. Mér finnst grillað eða hægeldað lambakjöt best, það er tímafrekt og tilheyrir frekar helgarmatargerðinni á mínu heimili. Þegar keypt er lambakjöt á beini þá þarf líka oft að vinna það meira (skera frá beini) eða elda það lengur, hvort tveggja er tímafrekt og tímafrek eldamennska virkar engan veginn í miðri viku fyrir venjulegar barnafjölskyldur. Stór þáttur í lambakjötsmálinu er einnig að yngstu börnunum mínum finnst lambakjöt alls ekki gott. Það er mjög algengt að börnum finnst lambakjötið of fitumikið og bragðsterkt en sem betur fer lagast þetta oftast með aldrinum. Annar stór þáttur í þessu er að í hefðbundnum matvöruverslunum er lítið úrval af góðu lambakjöti. Til þess að kaupa gott lambakjöt þarf helst að fara í kjötverslun eða matvöruverslun með kjötborði, það krefst tíma og fyrirhafnar sem fæstar fjölskyldur hafa í miðri viku.
Að þessu öllu sögðu þá býð ég að sjálfsögðu upp á gómsæta lambakjötsuppskrift í dag!
Minnug þess, í öllum þessum lambakjötspælingum, að stundum hef ég getað keypt ferskt lambahakk í Þinni verslun (sem ég er svo heppin að hafa í hverfinu og þar er gott kjötborð), kom ég þar við í dag. Lánið lék við mig og ég fékk gott lambahakk úr kjötborðinu (einungis 990 kr kílóið!) og gat því búið til lambaborgarana sem eg hef hugsað um lengi. Ég notaði hamborgarapressu sem gefur 200 gramma borgara, ég mæli með slíkri græju. Þó svo að yngsta barnið hafi ekki látið plata sig til þess að borða lambakjöt þótt það hafi verið dulbúið sem hamborgrari þá ætla ég sannarlega að vera duglegri að nota lambahakkið, það er æðislega gott og ekki spillir hversu ódýrt það er. Þessir borgarar sem sagt slóu í gegn hjá öllum í fjölskyldunni nema þessari yngstu! 🙂
Uppskrift (5 x 200 gramma borgarar):
- 1 kíló lambahakk
- 120 g fetaostur (ekki í olíu heldur kubbur)
- ca. 30 g kóríander og/eða flatblaða steinselja, saxað.
- 1 sítróna – hýðið fínrifið
- 2 msk ólífuolía
- 4 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð fínt
- gott salt og ferskmalaður svartur pipar
Fetaostur mulinn í skál. Kryddjurtum, rifnu sítrónuhýði, ólífuolíu og hvítlauki blandað saman við og kryddað með salti og pipar. Látið standa í nokkrar mínútur. Þá er blöndunni blandað saman við lambahakkið og hamborgarar mótaðir. Gott er að nota hamborgarapressu. Grillað eða steikt á pönnu við meðalhita þar til borgararnir eru hæfilega steiktir. Borið fram með salatblöðum, tómötum, rauðlauk ásamt fetaostasósu með avókadó
Fetaostasósa með avókadó:
- 1 dós sýrður rjómi (180 g)
- 130 fetaostur (kubbur, ekki í olíu)
- 1 þroskað avókadó
- 1 msk sítrónusafi
- 1 hvítlauksrif
- salt og pipar
Frábært að sjá hvar sé hægt að fá lambahakk, búin að vera að leita af því
Girnilegt, en hvar er best að ná sér í hamborgarapressu ?
Sæll Þorgeir. Þessi sem ég nota er keypt í Duka. 🙂
Þessir er girnilegur. Er einmitt mjög hrifin af lambakjöti en nota það alltof lítið. Og talandi um lambakjöt þá hefur fengist stórgott lambagúllas víða í haust, m.a. í Bónus. Hef talsvert notað það og lítið mál að skella því í hakk ef maður finnur ekki hakkið. Áfram lambakjöt 😉