Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að fara út að borða og hér í Reykjavík eru ákaflega margir góðir veitingastaðir – gæðin eru í raun ótrúleg miðað við okkar litla land. Það hefur komið fyrir að mér hafi verið boðið að borða á veitingastöðum gegn því að ég fjalli um það hér á síðunni, en þeim boðum hef ég alltaf hafnað. Ég vil ekki mæla með neinu nema það komi beint frá mínu eigin hjarta. Að því sögðu þá langar mig að mæla með nýjum veitingastað sem við hjónin fórum á með vinahjónum okkar um daginn. Þetta er veitingastaðurinn Restó á Rauðarárstíg (þar sem Madonna var áður). Við snæddum þar fimm rétta dásamlega góða máltíð á sanngjörnu verði. Í eftirrétt var svokölluð „ananassúpa með kókos og myntu“. Þetta er eftirréttur sem mér hefði líklega aldrei dottið í hug að panta mér að fyrra bragði en maður minn hvað hann var góður! Svo var hægt að fá vínflöskur á eðlilegu verði (á sumum veitingastöðum eru vínflöskur á fáránlega uppsprengdu verði finnst mér), staðurinn er mjög hlýlegur og kósý og síðast en ekki síst góð þjónusta. Ég er alltaf á höttunum eftir því að heyra um góða veitingastaði og langaði því einfaldlega að deila þessu með ykkur! 🙂
Þó það sé langt síðan ég setti inn uppskrift hingað á síðuna hef ég síður en svo verið löt í eldhúsinu. Ég tók að mér það verkefni að búa til nokkrar uppskriftir með Dumle karamellum. Það var sko ekki leiðinlegt verkefni og fjölskylda mín, sem fórnaði sér í smökkunina af lífi og sál, var heldur ekkert ósátt! 🙂 Það er býsna skemmtilegt að lauma inn mjúkri súkkulaðihúðaðri karamellu inn í eftirrétti og kökur. Eftir að ofninn hafði verið stöðugt í gangi tvær helgar í röð þá varð þetta niðurstaðan.
Ég verð að segja að ég var býsna ánægð með allar þessar uppskriftir og hlakka til að deila þeim öllum með ykkur. Þó það sé nú bara mánudagur get ég ekki staðist að setja inn eina af uppskriftunum í dag! 🙂 Sú fyrsta eru súpereinfaldar og æðislegar góðar bananamuffins með Dumle. Ég prófaði bæði með venjulegu Dumle og dökku. Flestum í dómnefndinni minni fannst ljósu karamellurnar tóna betur með bananabragðinu en þær dökku fengu líka atkvæði, þær eru líka mjög góðar – með sterkara súkkulaðibragði.
Bananamuffins með Dumle karamellum (15 stk)
- 130 g smjör
- 2 egg
- 150 g sykur
- 1 tsk vanillusykur
- 200 g hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk kanill
- 3 þroskaðir bananar, stappaðir
- 1 poki Dumle orginal eða Dumle Dark
Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið brætt og kælt dálítið. Egg og sykur hrært þar til blandan verður létt og ljós, þá er brædda smjörinu bætt út smátt og smátt. Vanillusykri, hveiti, lyftidufti og kanil blandað út í en þess gætt að hræra ekki lengi. Að lokum er stöppuðum banönum blandað út í deigið. Deiginu er skipt á milli 15 muffins-forma (fyllt um það bil 2/3) og einni Dumle karamellu þrýst létt ofan í deigið í hverju formi. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til kökurnar hafa tekið góðan lit. Best er að bera kökurnar fram volgar.