Tillögur að páskamáltíðum


páskaNúna er páskarnir að ganga í garð. Ég held mikið upp á páskana, yndislega birtan komin aftur, vor í loftinu og gott, kvaðalaust frí. Það eina sem maður þarf að gera er að borða góðan mat og mikið súkkulaði, dásemdin ein! 🙂

Hér eru tillögur að góðum aðalréttum fyrir páskana. Svo vill til að þetta er hér um bil allt hægeldað kjöt. Það er nú ekki nein tilviljun því þannig verður kjötið svo afskapalega meyrt og gott. Eins höfum við nægan tíma um páskana til að leyfa matnum að malla hægt. Hér er svo hægt að finna uppskriftir að kartöflum á 10 vegu. Svo er ekki úr vegi að skrolla niður þennan lista og finna þar einhverja góða eftirrétti til að njóta um páskana! Gleðilega páska!

Hægeldaður lambahryggur í jólaöli.

IMG_0954

Hægeldað lambalæri

IMG_7414

Hægelduð nautalund

img_7387

Kalkúnn

IMG_0796

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa

þorskur

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu

ofnbakaðar1

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu og ofnbökuðum kryddjurtakartöflum


IMG_0430Síðastliðinn mánuður hefur verið afar annasamur því um síðustu mánaðarmót fluttum við í nýja húsið okkar sem við höfum verið að gera upp síðan í byrjun desember. Það gekk mikið á í flutningunum. Það kom ákkurat leiðindarveður með roki og hláku þannig að elsta dóttir okkar datt og fótbrotnaði, það kom gat á vatnsleiðslu í gólfi og allskonar önnur ævintýri gerðust í kringum flutningana. Ofan á allt saman var húsið ekki alveg tilbúið þannig að við höfum búið við fremur frumstæðar aðstæður fram að þessu með iðnaðarmenn, endalaust ryk og óupptekna kassa um allt hús. Núna er hins vegar farið að sjást fyrir endan á þessu öllu og páskafríið verður nýtt út í hið ýtrasta til að koma okkur fyrir. Nýja eldhúsið er komið í gagnið og ég er afskaplega ánægð með það. Ég held að ég muni hreinlega blogga alveg sérstaklega um það við fyrsta tækifæri. Nú þegar framkvæmdum fer að ljúka get ég loksins farið að snúa mér að fullum krafti í matargerðina og fyrst á dagskrá verða auðvitað góðar páskamáltíðir. Ég veit að ég er búin að setja inn margar uppskriftir að hægelduðu kjöti undanfarið en ég er bara svo hrifin af því! Hér bætist enn ein í safnið og að þessu sinni hægeldað kálfakjöt. Eftir Ítalíuferðina, þar sem ég fékk mér kálfakjöt við hvert tækifæri á veitingastöðum, hef ég uppgötvað að það fæst ákaflega gott frosið kálfakjöt (ég fékk mitt í Bónus Ögurhvarfi) hér heima, merkt Ekro, einstaklega meyrt og ljúffengt. Við það að hægelda kjötið þá varð það meyrt eins og smjör, það þurfti varla hníf til þess að skera það! Ég er líka ofsalega hrifin af meðlætinu með kjötinu, það passar vel við aðrar tegundir af kjöti líka.

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu (fyrir 5)

  • 1 kíló Ekro kálfa ribeye
  • 1-2 msk smjör
  • 1 msk ólífuolía
  • salt & nýmalaður svartur pipar
  • plastfilma

Rauðvínssósa

  •  2-3 stórir skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 msk smjör
  • 4 dl rauðvín
  • 500 ml nautasoð
  • 100 g rjómaostur
  • salt og pipar

Kjötið er látið þiðna í ísskáp í minnst einn sólarhring. Nokkrum tímum áður en kjötið er eldað er það tekið úr ísskáp, snyrt við þörfum og látið ná stofuhita. 1 msk ólífuolía og 1 msk smjör er sett á pönnu og látið hitna vel. Þá er kjötið kryddað með pipar og steikt við háan hita í ca. 2 mínútur á öllum hliðum. Því næst er það látið kólna í um það bil 5-10 mínútur. Bakarofn hitaður í 60 gráður við undir- og yfirhita. Nú er kjötinu vafið þétt inn í plastfilmu nokkra vafninga. Kjötmæli er stungið í kjötið (í gegnum plastið) og það sett inn í 60 gráðu heitan ofn í um það bil 3 ½ – 4 tíma eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 60 gráðum (það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að setja plastið inn í ofn því það hvarfast engin efni úr því við 60 gráðu hita).

IMG_0377

Skarlottulaukurinn er steiktur í 2-3 mínútur á sömu pönnu og kjötið var steikt á, smjöri bætt við ef þarf. Svo er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt 1 msk af smjöri, kryddað með salti og pipar eftir smekk og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Rauðvíninu er þá hellt út á pönnuna og sósan látin malla þar til hún hefur soðið niður allavega um 2/3. Því næst er nautasoðinu bætt út á pönnuna og sósan látin malla þar til hún fer að þykkjast. Að lokum er rjómaosti bætt út í og sósan krydduð meira ef með þarf.

IMG_0384

Þegar kjötið hefur náð 60 gráðu kjarnhita er það tekið út úr ofninum, plastið tekið af og kjötið steikt örstutta stund upp úr smjöri og ólífuolíu á heitri pönnu á öllum hliðum, kryddað með salti og meiri pipar ef með þarf. Að lokum er kjötið látið hvíla undir álpappír í minnst 15 mínútur áður en það er skorið niður. Óhætt er að láta kjötið bíða í klukkustund undir álpappír og handklæði.

Borið fram með rauðvínssósu, ofnbökuðum kryddjurtakartöflum og steiktri grænmetisblöndu.

Ofnbakaðar kryddjurtakartöflur

  • 1 kíló meðalstórar kartöflur (af svipaðri stærð)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaða steinselja
  • maldon salt og nýmalaður pipar

IMG_0379

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar eru þvegnar, þerraðar og skornar í tvennt. Þá er þeim velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Ofnplata smurð með smjöri og kartöflunum raðað á plötuna með skornu hliðina niður. Því næst eru þær hitaðar í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og hafa tekið góðan lit. Á meðan er basilika og steinselja söxuð smátt og sett í skál ásamt 1 matskeið af smjöri. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum eru þær strax settar í skálina og blandað vel saman við smjörið og kryddjurtirnar. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.

Steikt spergilkál og kúrbítur með spínati

  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 500 g spergilkál
  • 1 meðalstór kúrbítur
  • 1 gulur laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 200 g spínat
  • salt og pipar
  • chili flögur

Spergilkálið er skorið niður í bita ásamt kúrbítnum. Laukurinn skorin í litla bita og hvítlaukur saxaður fínt. Panna hituð með smjöri og olíu. Kúrbítur, spergilkál, hvítlaukur og laukur steikt á pönnunni við meðalhita í um það bil 10 mínútur þar til að grænmetið er orðið mjúkt. Kryddað með salti, pipar og chili flögum. Þegar um það bil 1 mínúta er eftir af steikingartímanum er spínatinu bætt út í.

Wyndham-Sævar Már vínþjónn mælir með rauðvíninu Wyndham Bin 555 Shiraz með þessum rétti. Því er lýst á eftirfarandi hátt: Dökkkirsuberjarautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Höfugt. Dökk ber, minta.

IMG_0421

Kálfa parmigiana


IMG_0397

Þegar við vorum á Ítalíu síðastliðið sumar pantaði ég mér ósjaldan kálfakjöt á veitingastöðum enda er kálfakjöt mikið notað í ítalskri matargerð. Einn af mínum uppáhaldsréttum er kálfa parmigiana, klassískur réttur sem er ákaflega ljúffengur. Ég hef verið að prófa mig áfram til að finna út hvernig best er hægt að lukkast með þennan rétt heima og er ákaflega sátt við þessa niðurstöðu. Mér finnst mikilvægt að krydda hjúpinn vel og nota til þess ferskar kryddjurtir. Eins er mikilvægt að nota ekki of mikla sósu á hverja kjötsneið þannig að hjúpurinn haldist stökkur og góður. Ég var ekki viss um að auðvelt væri að finna kálfakjöt hér á landi en fann frosið ribeye kálfakjöt frá Ekro í Hagkaup (líklega til í fleiri verslunum) sem er rosalega meyrt og gott, ég mæli með því. Oftast eru notaðar kótilettur í kálfa parmigiana en mér fannst kálfa ribeye koma vel út. Það er líka hægt að nota kjúklingabringur í þessa uppskrift. Fyrir þá sem vilja spara sér tíma er hægt að kaupa tilbúna pastasósu, ég mæli þó með þessari heimagerðu frekar. Uppskriftin er stór en það er vel hægt að minnka hana við þörfum. Ég hvet ykkur til að fá smá Ítalíu heim í eldhúsið og prófa þessa uppskrift! 🙂

Kálfa parmigiana f. 6

  • 1 kíló kálfakjöt (ég notaði Ekro ribeye)
  • 1 dl hveiti
  • 3 -4 egg
  • 3 dl brauðraspur
  • 2 dl rifinn Parmareggio parmesan ostur
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaðasteinselja
  • salt og pipar
  • 3 ferskar mozzarella kúlur (samtals 360 g)
  • ¾ dl ólífuolía
  • 1-2 msk smjör
  • 500 g spaghettí

Pastasósa:

  • 5 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 2 meðalstórir laukar, saxaðir smátt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 dós Hunt’s garlic saxaðir tómatar (411 g)
  • 2 dósir Hunt’s basil, garlic & oregano saxaðir tómatar
  • 3 msk tómatpaste
  • 2 msk balsamedik
  • 1 msk oregano
  • salt og pipar

Kjötið er látið þiðna í ísskáp í minnst einn sólarhring (ef það er frosið). Nokkrum tímum áður en kjötið er eldað er það tekið úr ísskáp og látið ná stofuhita.

Pastasósa er útbúin með því að ólífuolía er hituð í potti og laukurinn steiktur í nokkrar mínútur þar til hann verður mjúkur. Þá er hvítlauki bætt út í og steikt í smá stund til viðbótar. Því næst er tómötum, tómatpaste og balsamediki bætt út í ásamt kryddum og sósan látin malla í allavega 20-30 mínútur. Smökkuð til með kryddum.

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Kjötið er skorið í fremur þunnar sneiðar sem eru snyrtar og barðar þunnar með kjöthamri. Hveiti er sett í skál. Eggin brotin og sett í aðra skál, pískuð létt saman. Í þriðju skálina er blandað vel saman brauðraspi, ca. 2/3 af parmesan ostinum, smátt saxaðri basiliku og flatblaðasteinselju, kryddað með salti og pipar. Kjötsneiðunum er nú velt upp úr hveiti (umfram hveiti bankað af), eggjablöndunni og loks brauðraspinum. Hluti af olíunni og smjörinu er hitað á pönnu og nokkrar kjötsneiðar í einu steiktar á fremur háum hita í um það bil 2-3 mínútur á hvorri hlið (fer eftir þykkt). Ólífuolíu og smjöri bætt við út á pönnuna við þörfum og þess gætt að fitan sé heit þegar kjötið fer á pönnuna. Kjötsneiðunum er raða á ofnplötu. Dálítið af pastasósu er dreift á hverja kjötsneið (ekki of mikið svo að raspurinn haldist stökkur). Því næst er mozzarella osturinn skorin í sneiðar og raðað yfir kjötsneiðarnar. Að lokum er restinni af parmesan ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 10 mínútur. Borið fram með spaghettí og afganginum af pastasósunni. IMG_0395