Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri


Um síðustu helgi þegar við vorum með kalkúnaveisluna buðum við upp á stóran og girnilegan humar í forrétt. Humar er eitt af því besta sem ég fæ. Þegar maður er með svona eðalgott hráefni í höndunum eins og þessi humar var, þá er mikilvægt að leyfa honum að njóta sín sem best. Mér finnst humar njóta sín best þegar hann er baðaður í gómsætu hvítlaukssmjöri! Til þess að auðvelda gestunum að borða humarinn og líka til að hann líti fallega út á disk, losuðum við hann úr skelinni og lögðum upp á bakið. Þetta er dálítið pill og þolinmæðisvinna. Ég sá auðvitað í hendi mér að slíkt hentaði skurðlækninum mínum vel og hann var settur í það verk! 🙂 Auðvitað leysti hann það verk prýðisvel úr hendi eins og sést á myndunum. Það er lítið mál að búa til hvítlaukssmjörið. Síðan þarf bara að passa að baka humarinn passlega mikið, alls ekki of mikið. Þá er maður komin með ljúffengan forrétt sem fátt slær við. Að sjálfsögðu er líka hægt að hafa svona humar í aðalrétt líka. Þá er um að gera að bera hann fram með nóg af brauði til þess að dýfa í sósuna góðu sem kemur af humrinum. Það er passlegt að bera fram þrjá humra á mann í forrétt en allavega fimm til sex á mann í aðalrétt, jafnvel meira. Uppskriftina fékk ég frá Fiskikónginum.

Hvítlaukssmjör:
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
  • 1 búnt steinselja
  • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu.
  • 500 g smjör, við stofuhita
  • 1 msk maldonsalt
  • reykt paprikuduft á hnífsoddi
  • svartur pipar úr kvörn
Allt sett saman í matvinnsluvél.
Humar:
  • 2 kg humar, helst stór eða millistór
  • hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
  • 1.5 dl hvítvín
  • 1.5 dl rjómi
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir (á þessum tímapunkti setti ég plastfilmu yfir formið og geymdi í kæli í 3 tíma þar til að tímabært var að elda humarinn) Grillað í ofni við 225 gráður í u.þ.b 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.
00514Með humrinum mælir Sævar vínþjónn með því að drukkið sé spænska freyðivínið Codorniu Clasico Semi Sec. Það er ljósgult, með meðalfyllingu og hálfsætt. Freyðivínið er ferskt með mjúkan ávöxt, epli og léttristaðan steinefnakeim.