Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum


Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Í gærkvöldi horfðum við á sænsku úrslitakeppnina í Eurovision. Svíar taka Eurovision sannarlega alla leið. Það eru haldnar margar undankeppnir sem enda svo í rosalega stórri aðalkeppni. Það er heldur ekki nóg með að þeir hafi símakosningu heldur láta þeir dómnefndir í öðrum Evrópulöndum líka gefa lögunum stig sem gildir helming á móti símakosningunni. Að þessu sinni var ekkert lag sem greip okkur sérstaklega, ekki eins og Euphoria í fyrra. Yngstu börnin fengu að velja kvöldmatinn sem var snæddur yfir keppninni. Valið kom mér ekkert á óvart en það var Dominos pizza. Við Elfar erum hins vegar ekkert hrifin af slíkum pizzum og ég ákvað að búa til eitthvað annað gott handa okkur. Ég átti bæði fullkomlega þroskað avókadó og mangó, það er ekki hægt að láta svoleiðis girnileg hráefni framhjá sér fara. Þegar ég svipaðist um úti í Krónu eftir einhverju sem gæti sameinast þessu gúmmelaði rak ég augun í frosnar risarækjur. Þegar við bjuggum í Stokkhólmi notaði ég oft risarækjur í matargerð en þá gat ég keypt eins kílóa poka á þúsund krónur! Hér eru risarækjur miklu dýrari. Þessar risarækjur í Krónunni voru reyndar á þokkalegu verði, ég keypti 400 grömm á rúmlega 800 krónur. Ég útbjó einfalt risarækjusalat sem var hrikalega gott. Ég hélt að það yrði af því afgangur en við hjónin einfaldlega skófluðum því öllu í okkur, nammi namm! Þetta er eitthvað sem ég mun endurtaka, þetta salat væri til dæmis frábært sem forréttur.

Uppskrift: 

  • grænt gott salat
  • klettasalat
  • spinat
  • rauð paprika, skorin í litla bita
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 avókadó skorið í bita
  • 1 mangó, skorið í bita
  • pistasíuhnetur

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Rækjurnar:

  • 400 g risarækjur
  • ca 1 msk ólífuolía
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • ½ tsk chiliduft
  • ½ tsk hvítlauksduft (eða 1-2 hvítlauksrif, pressuð)
  • ½ tsk grófmalaður svartur pipar
  • salt

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Salat, klettasalat og spínat sett í skál. Avókadó, mangó, kóríander og papriku dreift yfir.

Olían hituð á pönnu. Rækjum, límónusafa og kryddum bætt á pönnuna. Rækjurnar eru steiktar á meðalhita þar til þær hafa náð góðum lit og erum eldaðar í gegn, það tekur ca. 4-5 mínútur. Þá eru rækjurnar veiddar upp úr og leyft að kólna dálítið. Því næst eru pistasíurnar settar út á pönnuna (sem er enn með kryddinu á). Pistasíurnar eru ristaðar þar til þær hafa tekið góðan lit, hrært vel í þeim allan tímann. Þetta tekur u.þ.b. 2-3 mínútur.

Að lokum er pistasíunum og rækjunum dreift yfir salatið. Það er hægt að bera salatið fram með salatdressingu en mér fannst best að hafa það án dressingu. Rækjurnar gefa svo gott og mikið bragð auk þess sem mangóið gefur vökva.

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri


Um síðustu helgi þegar við vorum með kalkúnaveisluna buðum við upp á stóran og girnilegan humar í forrétt. Humar er eitt af því besta sem ég fæ. Þegar maður er með svona eðalgott hráefni í höndunum eins og þessi humar var, þá er mikilvægt að leyfa honum að njóta sín sem best. Mér finnst humar njóta sín best þegar hann er baðaður í gómsætu hvítlaukssmjöri! Til þess að auðvelda gestunum að borða humarinn og líka til að hann líti fallega út á disk, losuðum við hann úr skelinni og lögðum upp á bakið. Þetta er dálítið pill og þolinmæðisvinna. Ég sá auðvitað í hendi mér að slíkt hentaði skurðlækninum mínum vel og hann var settur í það verk! 🙂 Auðvitað leysti hann það verk prýðisvel úr hendi eins og sést á myndunum. Það er lítið mál að búa til hvítlaukssmjörið. Síðan þarf bara að passa að baka humarinn passlega mikið, alls ekki of mikið. Þá er maður komin með ljúffengan forrétt sem fátt slær við. Að sjálfsögðu er líka hægt að hafa svona humar í aðalrétt líka. Þá er um að gera að bera hann fram með nóg af brauði til þess að dýfa í sósuna góðu sem kemur af humrinum. Það er passlegt að bera fram þrjá humra á mann í forrétt en allavega fimm til sex á mann í aðalrétt, jafnvel meira. Uppskriftina fékk ég frá Fiskikónginum.

Hvítlaukssmjör:
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
  • 1 búnt steinselja
  • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu.
  • 500 g smjör, við stofuhita
  • 1 msk maldonsalt
  • reykt paprikuduft á hnífsoddi
  • svartur pipar úr kvörn
Allt sett saman í matvinnsluvél.
Humar:
  • 2 kg humar, helst stór eða millistór
  • hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
  • 1.5 dl hvítvín
  • 1.5 dl rjómi
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir (á þessum tímapunkti setti ég plastfilmu yfir formið og geymdi í kæli í 3 tíma þar til að tímabært var að elda humarinn) Grillað í ofni við 225 gráður í u.þ.b 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.
00514Með humrinum mælir Sævar vínþjónn með því að drukkið sé spænska freyðivínið Codorniu Clasico Semi Sec. Það er ljósgult, með meðalfyllingu og hálfsætt. Freyðivínið er ferskt með mjúkan ávöxt, epli og léttristaðan steinefnakeim.