Mozzarella- og tómatasalat með pestósósu og parmaskinku


IMG_5965

Hingað til hef ég ekki mikið verið að bjóða fjölskyldunni upp á einfalt salat í kvöldmatinn nema í því sé kjúklingur eða eitthvað annað bitastætt. Ég hef einhvern veginn tekið því sem gefnu að börnin yrðu ekki hrifin og  jafnframt hef ég haldið að eingöngu salat væri ekki nægileg kvöldmáltíð. Nú hefur viðhorf mitt gjörbreyst því þetta salat er orðið ein af vinsælustu máltíðunum heimilisins! Salatið lætur mjög lítið yfir sér en galdurinn við það eru vönduð og góð hráefni. Það þýðir til dæmis ekkert að nota íslenska mozzarella ostinn eða óspennandi tómata í þetta salat ef það á að vera gott. Lykilhráefnin er alvöru buffalo mozzarella osturinn sem fæst í Costco ásamt sætu og ljúffengu kokteiltómötunum sem eru á kvisti.

 

Buffalo mozzarella osturinn er stinnur að utan en mjúkur innan í og það er auðvelt að taka hann í sundur með fingrunum, algjört hnossgæti! Fólkið mitt er líka mjög hrifið af pestó sósunni sem fæst í Costco og hún smellpassar með þessu salati.

IMG_5962

Sem sagt, til þess að gera hið fullkomna salat sem ég veit að slær í gegn þá kaupi ég í Costco: buffalo mozzarella, litla kvisttómata, avókadó (þessi í netinu í Costco eru rosalega góð og stór), míní paprikur og pestó sósu. Ég bæti svo við góðu grænu blönduðu káli og oftar en ekki er ég líka með parmaskinku sem gerir salatið enn matarmeira og gúrmei!

IMG_5973

Hérna bætti ég jafnframt við granateplakjörnum sem var óskaplega gott! Sjálf set ég oft líka ótæpilegt magn af fersku kóríander út á salatið mitt en það eru víst ekki allir jafn hrifnir af kóríander og ég!

IMG_5268

Það er misskilningur hjá mörgum að til að salat verði gott þá þurfi að setja svo mörg hráefni í salatið eða að með því setja allt sem manni þykir gott í salat þá verði það sjálfkrafa gott. Mín skoðun er að hið fullkomna salat séu fá, en jafnframt mjög góð, hráefni og allt þarf að smella saman eins og hönd í hanska! Þetta salat uppfyllir algjörlega þau skilyrði og ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_5972

Það er ekki verra að bera salatið fram með nýbakaða súrdeigsbrauðinu sem fæst í Costco!
sous_at_accueil

 

Já og nóta bene, þetta er ekki styrkt færsla af Costco, ég er bara hrifin af vönduðu hráefni! 🙂

Uppskrift:

  • ca. 120 g blandað salat (t.d. ruccola, spínat, rauðkálsblöð …)
  • 5-6 míní paprikur í blönduðum lit (fást í Costco), skornar í sneiðar
  • 1 stórt avókadó, skorið í bita (mæli með þessum í netunum í Costco)
  • 2 kúlur buffalo mozzarella (fæst í Costco), tættar í sundur með fingrunum
  • ca. 300 g kokteiltómatar á kvisti (úr Costco), skornir í tvennt
  • 100 g parmaskinka
  • Pestó sósa (ég mæli með Belazu Italian basil pestó úr Costco)

Salatið er sett á botninn á breiðum disk, þá er paprikunnni bætt út á salatið, því næst avókadó, svo mozzarella og tómötum. Að lokum er parmaskinkan skorin niður og dreift yfir salatið ásamt pestósósu. Borið fram með góðu brauði, t.d. steinofnsbökuðu súrdeigsbrauði. 

IMG_5267