Við fjölskyldan fórum fyrr í kvöld út í norðurljósaskoðun í fimbulkulda. Himinn var einstaklega fallegur í kvöld, við keyrðum aðeins út fyrir borgina horfðum á frábæra norðurljósasýningu og stjörnubjartan himinn. Yngstu krakkarnir voru afar hrifin, sérstaklega Jóhanna Inga sem er mjög hrifnæm, hún var uppnumin yfir þessu litla kvöldævintýri. Ég er nú engin myndasnillingur en við reyndum að festa á filmu brot af ljósasýningunni. Það er samt ekki hægt að taka almennilega mynd af norðurljósum nema með betri græjum, myndavélastatív og slíku.
Að allt öðru, þegar ég útskrifaðist um daginn fékk ég margar fallegar og góðar gjafir. Ég fékk nokkrar góðar bækur sem pössuðu mínum bókasmekk einstaklega vel, mínir nánustu þekkja mig greinilega! 🙂 Kannski er það skrítin blanda en ég hef gaman af sögulegum skáldsögum, ævisögum og uppskriftabókum. Ég fékk eina góða uppskriftabók sem ég hlakka til að prófa, Dagbók Elku og ástarljóð Páls Ólafssonar, Ég skal kveða um eina þig alla mína daga. Núna ég að lesa Dagbók Elku af áfergju, frábær bók sem veitir einstaka innsýn í líf alþýðukonu í Reykjavík fyrir einni öld. Ég fékk líka ofsalega fallegan disk og diskakúpu, skreyttan með fallegri slaufu, með heimagerðu konfekti frá Hafliða Ragnarssyni. Frábær hugmynd af fallegri gjöf.
Núna er allt konfektið löngu búið, mikið var það gott! Nú bíður diskurinn eftir eftir einhverju öðru gúmmelaði eða jafnvel einhverju fallegu páskaskrauti. Kannski fer ég að skoða heimilisblogg og leita mér að páska-innblæstri! 🙂
Takk Sólveig og Gabríela fyrir fallegu túlípanana í dag! 🙂
En svo ég víki að aðalatriðinu, mat! Síðan ég djúpsteikti fiskinn hennar Gwynnu um daginn hefur mig dagdreymt um að djúpsteikja eitthvað annað, það gekk nefnilega svo óskaplega vel að djúpsteikja fiskinn og hann var svo góður! Ég ákvað um helgina að djúpsteikja kjúklingaleggi. Ég var eitthvað að velkjast með hvað ég ætti að hafa með þessu og endaði á því að hafa hrísgrjón (soðin í kjúklingasoði), heimatilbúið hrásalat og súrsæta sósu í anda asískra veitingastaða. Þetta heppnaðist allt mjög vel og var voðalega gott. Ég skoðaði allskonar uppskriftir og blogg varðandi að djúpsteikja kjúkling. Nanna Rögnvaldar og Læknirinn í eldhúsinu hafa bæði djúpsteikt kjúkling. Ég fór aðra leið en þau, ég forsauð kjúklinginn svo það þyrfti ekki að djúpsteikja hann eins lengi. Þetta er aðferð sem er mikið notuð í amerískum kjúklinga uppskriftum. Það er líka mikilvægt að krydda kjúklinginn vel. Ég notaði mikið af Tabasco sósu, kjúklingum er velt upp úr sósunni sem er blandað við egg, kjúklingurinn verður ekkert sterkur en sósan gefur gott og mikið bragð. Það var mjög gott að sjóða hrísgrjónin upp úr kjúklingasoðinu og kryddi, það gaf þeim afar gott bragð. Hrásalatið er afar einfalt en ofsalega gott, ég er með grunnuppskrift af því hér en að þessu sinni bætti ég líka við gulrótum. Þegar ég djúpsteiki þá er ég alltaf með eldvarnarteppið við hliðina á mér tilbúið til notkunnar!
Djúpsteiktur kjúklingur:
- 16 kjúklingaleggir
- salt & pipar
- paprikukrydd
- 2 kjúklingateningar
- 2 egg
- 80 ml vatn
- ca 1/2 flaska Tabasco sósa
- 300 g hveiti
- 2 tsk pipar
- 1 tsk salt
- 2 tsk hvítlaukskrydd
- 2 tsk paprikukrydd
- olía til djúpsteikingar (ég notaði corn oil frá Wesson úr Kosti)
Vatn er sett í pott sem passar fyrir alla kjúklingaleggina, út í vatnið er blandað vel af salti, pipar og paprikukryddi auk þess sem kjúklingateningarnir eru leystir upp í vatninu. Suðan er látin koma upp og þá er leggjunum bætt út í pottinn og þeir soðnir í ca. 6 mínútur. Þá eru þeir veiddir upp úr pottinum (ekki hella soðvatninu!) og kældir snöggt undir köldu vatni. Soðvatnið er notað til þess að sjóða hrísgrjónin í. Olía er sett í djúpsteikingarpott eða í stóran, víðan pott, (ég notaði alla olíuna úr flöskunni) og hitað upp í ca. 190 gráður. Ef ekki er notaður hitamælir þá er hægt að prófa sig áfram með því að setja lítinn brauðbita ofan í olíuna. Ef hann verður gullinbrúnn fljótt og það „bubblar“ í kringum hann er olían tilbúin. Egg og vatn hrært saman auk Tabasco sósunnar. Í annarri skál er hveiti og kryddum blandað vel saman. Þegar olían er tilbúin er kjúklingaleggjum velt vel upp úr eggjablöndunni og svo hveitiblöndunni. Nokkrir leggir eru djúpsteiktir í einu, passa verður að hafa ekki of þröngt um þá, þess vegna er gott að nota víðan pott. Ég djúpsteikti kjúklingaleggina í ca. 6 mínútur, þá snéri ég leggjunum varlega við og steikti í 6 mínútur í viðbót. Þetta dugði hjá mér en maður verður að prófa sig áfram, skera í einn legg til að kanna hvort að hann er tilbúinn eftir þennan tíma. Kjúklingurinn er svo lagður á eldhúspappír eftir steikingu. Ef maður djúpsteikir kjúklingaleggina í mörgum hollum er hægt að hafa þá inni í ofni við ca. 100 gráður til að halda þeim heitum. Olíun er kæld, hellt aftur í flöskuna og hún geymd á köldum og dimmum stað, hana er hægt að nota nokkrum sinnum til djúpsteikingar.
Súrsæt sósa
- 1 tsk olía
- 1 msk gulur laukur, saxaður smátt
- 1 hvítlauksrif, saxað fínt
- 1 ananas-hringur, skorinn smátt
- ½ gulrót, skorin í litla teninga
- 3 dl kjúklingakraftur
- 1 dl sykur
- 2 msk tómatpúrra
- 1 dl hvítvínsedik
- 3 tsk kartöflumjöl
Olían er hituð í potti og laukurinn steiktur ásamt hvítlauknum í smá stund án þess að hann taki lit þar til laukurinn verður mjúkur og glær. Þá er ananas og gulrótum bætt út í og steitk í stutta stund til viðbótar. Því næst er kjúklingakrafti hellt út í auk tómatpúrrunnar, sykri og hvítvínsedik. Þetta er látið malla í 5 mínútur. Þá er kartöflumjöli hrært út í dálítið vatn og blandað hægt og rólega út í sósuna og hrært í á meðan. Því næst er potturinn tekin af hellunni og sósan smökkuð til með meiri sykri ef þarf, ef hún er of þykk er hún þynnt með ananassafa og/eða vatni.
Heimatilbúið hrásalat:
- ca. 1/2 hvítkálshaus
- 3 gulrætur
- 1 dós sýrður rjómi
- ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)