Ég var búin að finna spennandi uppskrift af pastagratíni með nautahakki sem mig langaði að prófa. Í gærkvöldi átti ég hakk og ákvað að prófa réttinn. En þá uppgötvaði ég að eiginlega ekkert annað var til sem þurfti í uppskriftina! Mér finnst alltaf dálítið spennandi að reyna að spinna úr hráefnum sem ég á til þannig að ég réðst í breyta réttinum í samræmi við þau hráefni sem ég fann í ísskápnum. Ég notaði til dæmis pepperoní í stað chorizo pylsu, bjó til rjómaostasósu í stað þess að nota sýrðan rjóma og gerði ýmsar aðrar breytingar. Þetta varð eiginlega eins og lasagna ,,with a twist“! Rétturinn kom mjög vel út, hann fékk hæstu einkunn hjá öllum í fjölsksyldunni. Ekki síst yngstu krökkunum, ég held að Vilhjálmur hafi fengið sér allavega þrisvar eða oftar á diskinn!
Uppskrift:
- 400 gr pasta
- 800 gr nautahakk
- 1 lítill rauðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 2 msk tómatpúrra
- 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
- 1 teningur eða 1 msk nautakraftur
- 1 bréf pepperóni
- salt & pipar
- heitt pizzukrydd eða annað gott krydd
- rifinn ostur
Ostasósa:
- 40 gr smjör
- 40 gr hveiti
- ca 4-5 dl mjólk
- 100 gr rjómaostur
- 1-2 dl rifinn ostur
- múskat
- salt og pipar
Ofn hitaður í 200 gráður. Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Laukur saxaður smátt ásamt hvítlauk og hvor tveggja steikt á pönnu upp úr olíu. Því næst er hakkinu bætt á pönnuna og það steikt. Pepperóni er skorið niður í bita og því bætt út á pönnuna ásamt nautakrafti, niðursoðnum tómötum og tómatpúrru bætt út í. Kjjötsósan krydduð eftir smekk (mér finnst gott að krydda hana vel!) og hún svo látin malla á vægum hita, á meðan er ostasósan útbúin.
Ostasósa: Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti og rjómaosti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar.
Eldaði þennan rétt í kvöld…svakalega var hann góður 🙂
Gaman að heyra það Lee Ann! 🙂 Takk fyrir kveðjuna.
Rakst á síðuna þína bara í gær og las og las uppskriftir langt fram eftir, það er svo allt of margt sem mer langar að prófa. En allavega þá akvað ég að prófa þessa i kvöld og mmm þetta var ekkert smá gott 🙂 Hlakkar til að prófa fleiri uppskriftir héðan.
En hvað það var ánægjulegt að heyra Silja! 🙂 Vonandi finnst þér fleiri uppskriftir jafn góðar! Takk fyrir kveðjuna! 🙂
Þessi er svakalega góður eins og allt sem þú gerir… það klikkar ekkert 🙂
Kærar þakkir Hanna! 🙂
ætla að prufa þennan í kvöld… mmm , ég gerði sænsku snúðana í gær þeir eru hræðilega góðir 🙂
Gaman að heyra þetta Margrét! 🙂 Vonandi líkaði þér pastagratínið.
Frábær kvöldmatur og svo einfalt og gott , þurfti bara að fara út í búð eftir pepperóní og öllum fannst þessa mjög gott 🙂
Gaman að heyra Halla Björk! 🙂 Það er mjög langt síðan ég hef haft þennan rétt í matinn, þarf að drífa í því sem fyrst! 🙂