Þá er kosningahelgin liðin. Frá því að við fluttum til Íslands fyrir bráðum fimm árum hafa verið ansi margar kosningar hér á landi. Þó svo að ég hafi ekki mikinn áhuga á stjórnmálum þá er nú alltaf dálítil stemmning að kjósa. Annars áttum við afar notalega helgi. Elfar var í fríi en það er langt síðan hann hefur átt fríhelgi. Á föstudagskvöldið áttum við góða kvöldstund með bræðrum mínum tveimur og mágkonum, fengum góðan mat og spiluðum fram eftir nóttu. Á laugardaginn kom pabbi til okkar í mat þar sem hann var grasekkill um helgina. Ég bjó þá til nýjan kjúklingarétt sem sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni. Sósan er hrikalega góð og bragðmikil. Ég átti sætar kartöflur sem mig langaði til að prófa að grilla. Þær voru rosalega góðar svona grillaðar þó svo að þær passi örugglega enn betur með til dæmis grillkjöti. Ég ætlaði líka að hafa hrísgrjón með réttinum en hreinlega gleymdi að sjóða þau. Næst ætla ég að muna eftir grjónunum til þess að nýta góðu sósuna í kjúklingaréttinum sem allra best. Ég er ekki enn búin að finna rafhlöðuna í stóru myndavélina mína og er því enn að notast við litlu myndavélina. Þó svo að hún sé svo sem ágæt til síns brúks þá er ég alveg handlama án stóru myndavélarinnar og sé ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja rafhlöðu strax á morgun! Látið því ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi kjúklingaréttur er ákaflega góður þrátt fyrir að myndirnar séu ekki fleiri eða betri en raun ber vitni! 🙂
Uppskrift:
- 700-800 gr kjúklingabringur
- smjör og/eða olía til steikingar
- 1 stór rauð paprika, skorin í bita
- 1 lítið rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
- 1/2 rauðlaukur, skorin í strimla
- 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 3 dl rjómi eða matargerðarrjómi
- Philadelphia ostur með papriku
- 1 kjúklingateningur
- gott kjúklingakrydd (ég notaði steikarkrydd með papriku, chili og hvítlauksblöndu)
- salt & pipar
- 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
- 0.5 dl steinselja, söxuð
Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Paprika, laukur, hvítlaukur og chili steikt upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu þar til allt hefur mýkst vel. Þá er því hellt í eldfast mót. Þá er smjöri eða olíu bætt á pönnuna og kjúklingabringurnar eru steiktar á öllum hliðum í stutta stund þar til þær hafa náð góðri steikingarhúð. Svo eru þær veiddar af pönnunni og lagðar ofan á grænmetið í eldfasta mótinu.
Því næst er rjómanum hellt á pönnuna ásamt Philadelphia ostinum, sambal oelek chilimauki og kjúklingakraftinum. Þetta látið malla í stutta stund þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er steinseljunni bætt út og rjómasósunni síðan hellt yfir kjúklinginn. Bakað í ofni í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.
Segðu mér áðeins frá hvernig þú grillaðir sætu kartöflurnar. Ég er alltaf svo hrædd um að brenna þetta bara áður en þetta nær að verða almennilega mjúkt. Ég þoli ekki þegar kartöflurnar eru of harðar…
Ég er með skohelda leið Anna Sigga, ég set þetta í færslu hér á bloggið! Fylgstu með næstu daga … 😉
Frábært 🙂
Þessi kjúklingaréttur er algjört æði geri hann pottþétt aftur,
takk fyrir góða og skemmtilega uppskriftasíðu 😉
Takk fyrir þessa góðu kveðju Kristín! 🙂
Æðislega góður réttur, takk takk!
Gaman að heyra Helga Rún! 🙂
Ég prófaði þennan í gær en sleppti öllu chilli af því að ég er með einn tveggja ára sem frussar bara ef maturinn er sterkur. Þetta var svoooo gott, takk fyrir 🙂
Kveðja,
Berglind
Gaman að heyra að rétturinn virkar líka án chilis! 🙂 Takk fyrir góða kveðju! :
Ég eldaði þennan rétt í gærkveldi, ótrúlega góður. Ég átti ekki chili þannig að ég notaði rosalega góða chilisultu sem mér var gefin og notaði þá ca 3 msk í stað chili. Mæli eindregið með þessum rétti nammmi namm ;o)
Frábært að heyra þetta Birna, takk fyrir góða kveðju! 🙂
Sæl, ein spurning. Á hvaða tímapunkti seturðu chilimaukið út í réttinn? Er það steikt á pönnunni með lauknum, hvítlauknum og því dóti eða seturðu það útí rjómann og ostinn? Ég gat ekki séð það í lýsingunni en kannski fór það framhjá mér 🙂
Annars frábær síða! Ég nota hana mjög mikið 🙂
Takk fyrir að benda mér á þetta Sigurborg. Chilimaukið fer út í með rjómanum og ostinum – ég er búin að laga þetta í uppskriftinni. Takk fyrir kveðjuna! 🙂