Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósu


Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósuÉg og yngstu börnin erum búin að vera veik síðan um helgina. Við fengum leiðindaflensu með hita, höfuðverk, beinverkjum og tilheyrandi. Í kvöld dröslaðist ég samt í eldhúsið og eldaði afskaplega einfaldan kjúklingarétt sem öllum í fjölskyldunni þykir ákaflega góður. Meira að segja veiki hluti fjöskyldunnar tók rösklega til matar síns þrátt fyrir heilsuleysið. Rétturinn sem ég gerði er einfölduð útgáfa af Cordon bleu kjúklingi. Eins og flestir vita þá er það einskonar snitsel þar sem kjúklingabringum er vafið utan um ost og skinku. Þeim er því næst velt upp úr raspi og þær svo djúpsteiktar eða bakaðar í ofni. Oftast nær er kjúlingurinn flattur út eða það er skorin vasi inn í bringurnar og hann fylltur með skinku og osti. Ég gerði afar einfalda útgáfu af réttinum sem er ofsalega fljótleg en mér finnst alveg jafngóð og þessi sem er tímafrekari. Sósan er æðislega góð og passar svo vel með kjúklingasnitselinu.

Uppskrift:

    • 5 þykkar kjúklingabringur
    • salt & pipar
    • ca. 20 sneiðar silkiskorin soðin skinka
    • ca. 15 – 20 ostsneiðar
    • 50 g smjör
    • 140 g brauðteningar

Ofn hitaður í 180 gráður. Eldfast mót smurt að innan. Kjúklingabringurnar skornar í tvennt langsum, þess gætt að hver bitarnir verði jafnþykkir, þannig að úr verði 10 bitar. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og raðað í eldfasta mótið. Hver bringa er þakin með skinku og þá osti.

IMG_3881IMG_3883 Brauðteningarnir eru muldir í matvinnsluvél, smjörið brætt og blandað saman við. Brauðmylsnunni er að lokum dreift yfir kjúklinginn. Sett í ofn í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með parmesan- og dijonsósu.

IMG_3898

Sósa:
  • 3 msk smjör
  • 3 msk hveiti
  • ca. 5-600 ml mjólk
  • 1.5 tsk kjúklingakraftur
  • 1/2 tsk salt
  • 1.5 msk dijon sinnep
  • 75 g ferskur parmesan ostur, rifinn

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Því næst er mjólkinni hellt rólega saman við og hrært án afláts. Kjúklingakrafti, salti, sinnepi og rifnum parmesan osti er bætt út í. Látið malla við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður, hrært í á meðan. Ef sósan er of þunn er hún látin malla lengur, ef hún er of þykk þá er hún þynnt með meiri mjólk.

IMG_3889

Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku


Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku

Mér líður eins og það hafi liðið heil helgi síðan ég var í vinnunni í gær. Ég held að það sé vegna þess að í dag var Elfar aldrei þessu vant í fríi líka og svo gerðum við líka svo margt skemmtilegt. Í gærkvöldi fórum við í glæsilegt stórafmæli með fjórrétta máltíð og skemmtun fram á nóttu. Þeir sem eru fylgjendur Eldhússagna á Instagram gátu einmitt séð myndir frá afmælinu. Í dag erum við búin að njóta góða veðursins, dunda okkur við ýmiss verkefni hérna heima og enduðum á kvöldsundi.

Ég er enn að prófa mig áfram með parmesan, brauðteninga, mozzarella og kryddjurta kjúkling! Þetta er bara svo óskaplega gott hráefni og hægt að gera svo marga mismunandi rétti úr því! Ég hef gert þessa tvo rétti sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur, parmesan- kryddjurtakjúklingur og ítalskan parmesankjúkling. Að þessu sinni ákvað ég að nota úrbeinað kjúklingalæri og bæta við parmaskinku. Þessi réttur sló algjörlega í gegn. Heimilisfólkið sagði að þetta væri „Kentucy Fried Chicken mætir ostafylltum kjúklingabringum“! Ég reyndi að útfæra réttinn á sem auðveldasta hátt þannig að hann yrði eins fljótlegur og hægt er. Úrbeinuð kjúklingalæri eru fremur þunn og henta vel til þess að rúlla upp án þess að þurfa að fletja þau út sérstaklega. Rúllan helst þó ekkert sérstaklega vel saman, þess vegna lagði ég þær beint í eldfasta formið og stráði brauðteninga/parmesan mylsnunni yfir í stað þess að velta þeim sérstaklega upp úr mylsnunni. Þetta gerði réttinn afar fljótlegan að útbúa. Útkoman var frábær og þetta er klárlega réttur sem ég mun gera reglulega.

IMG_9507

  • 1200 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • parmaskinka (ég notaði hálfa parmaskinkusneið á hvert læri)
  • ca. 2 dl rifinn mozzarellaostur
  • 1 stk oregano
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dl vatn
  • 50 g smjör
  • 2 hvítlauksrif
  • ca 80 g brauðteningar með osti og hvítlauk
  • ca. 30 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 teskeið paprikukrydd
  • maldon salt og ferskmalaður svartur pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingalærin eru lögð á bretti (það er hægt að fletja þær aðeins út – banka með kökukefli – ef maður vill þær þynnri) og þau krydduð vel með salti, pipar og oregano. Ofan á hvert læri er svo lögð parmaskinka og rifinn mozzarellaostur. Lærunum er svo rúllað varlega upp og rúllurnar lagðar í smurt eldfast mót með samskeytin niður. Vatn, kjúklingateningur og smjör sett í pott og hitað þar til smjörið er bráðnað og tengingurinn leystur upp. Blöndunni er hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu. Brauðteningar eru muldir í matvinnsluvél og rifna parmesanostinum er blandað saman við brauðteningamylsnuna ásamt paprikukryddinu, salti og pipar. Þessari blöndu er dreift vel yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 200 gráður í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_9500

IMG_9502

IMG_9504

Ostafylltar kjúklingabringur í rósapiparsósu


Seinni partinn í gær voru bæði Jóhanna Inga og Vilhjálmur að spila á tónleikum í tónskólanum sínum. Vilhjálmur er búinn að læra á píanó í nokkur ár og Jóhanna var að byrja í forskóla tónlistarskólans þar sem hún æfir á blokkflautu. Henni finnst afskaplega gaman í tónskólanum og hefur náð ótrúlega góðu valdi á flautunni á stuttum tíma. Hún var lengi vel ákveðin í að læra svo á harmónikku! Síðan breyttist það í fiðlu en núna kemur ekkert annað til greina en rafmagnsgítar! Það verður spennandi að sjá hvaða hljóðfæri verður fyrir valinu næsta vetur! 🙂 Vilhjálmur heldur sig við píanóið og er einstaklega duglegur, ég held að hann hafi aldrei spilað eina einustu feilnótu á tónleikum. Þau stóðu sig auðvitað bæði með prýði á tónleikunum í gær og bæði amma og Inga frænka komu til að horfa á.

Vegna tónleikana komum við seint heim og ég útbjó kjúklingarétt sem tekur bara örfáar mínútur að búa til, svo bara eldar hann sig sjálfur í ofninum, svoleiðis réttir eru svo þægilegir! Þetta var alveg ný uppskrift og ég var dálítið efins með hana í fyrstu, en í henni eru fá hráefni sem ég nota ekki oft. Það er gráðostur, rósapipar og estragon krydd. Ég hefði nú ekki þurft að hafa áhyggjur því rétturinn sló í gegn hér heima! Ekki hræðast gráðostinn í réttinum, jafnvel þótt þið borðið hann ekki almennt. Alexander til dæmis er ekki hrifinn af gráðosti en fannst þessi ostafylling svo frábærlega góð. Gráðosturinn verður einhvern veginn mildari þegar hann er eldaður á þennan hátt og kemur svo saman við sósuna. Ég notaði þennan hefðbunda gráðost. Hins vegar er sniðugt að nota Bláan Kastala ef maður vill enn mildara ostabragð. Ég reyndar setti bara venjulegan rifinn ost í kjúklingabringurnar hjá yngstu krökkunum. Sósan var afskaplega bragðgóð, estragon og rósapipar eiga afar vel saman. Rósapipar er ekkert skyldur hvítum, svörtum eða grænum pipar heldur eru þetta lítil ber frá trópísku tré. Rósapipar er seldur þurrkaður (til frá t.d. Pottagöldrum og Prima) og minnir bragðið einna helst á einiber og kóríander, bragðið er svolítið mildara og sætara en þó með smá ,,sting“. Ég notaði matreiðslurjóma og mér fannst sósan skilja sig svolítið. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég notaði ekki hefðbundinn rjóma eða hvort það gerðist þegar gráðosturinn bráðnaði og blandaðist við sósuna. En það kom ekki að sök, sósan var ákaflega bragðgóð. Ég mæli með þessum rétti!

Uppskrift f. 4

  • 4 kjúklingabringur
  • 125 gr gráðostur (Blár kastali ef maður vill mildari tegund)
  • 2-3 tsk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk estragon krydd
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 tsk rósapipar, mulin t.d. í morteli eða kvörn
Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt og skorinn vasi í hlið hverrar kjúklingabringu sem er svo fyllt með gráðosti. Bringunum er svo lokað með því að þrýsta þeim saman. Fylltar kjúklingabringurnar lagðar í eldfast mót og þær penslaðar með sojasósu og estragon kryddinu stráð yfir. Muldum rósapipar hrært saman við rjómann sem er svo hellt yfir bringurnar. Sett inn í 200 gráður heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.
Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.