Ostafylltar kjúklingabringur í rósapiparsósu


Seinni partinn í gær voru bæði Jóhanna Inga og Vilhjálmur að spila á tónleikum í tónskólanum sínum. Vilhjálmur er búinn að læra á píanó í nokkur ár og Jóhanna var að byrja í forskóla tónlistarskólans þar sem hún æfir á blokkflautu. Henni finnst afskaplega gaman í tónskólanum og hefur náð ótrúlega góðu valdi á flautunni á stuttum tíma. Hún var lengi vel ákveðin í að læra svo á harmónikku! Síðan breyttist það í fiðlu en núna kemur ekkert annað til greina en rafmagnsgítar! Það verður spennandi að sjá hvaða hljóðfæri verður fyrir valinu næsta vetur! 🙂 Vilhjálmur heldur sig við píanóið og er einstaklega duglegur, ég held að hann hafi aldrei spilað eina einustu feilnótu á tónleikum. Þau stóðu sig auðvitað bæði með prýði á tónleikunum í gær og bæði amma og Inga frænka komu til að horfa á.

Vegna tónleikana komum við seint heim og ég útbjó kjúklingarétt sem tekur bara örfáar mínútur að búa til, svo bara eldar hann sig sjálfur í ofninum, svoleiðis réttir eru svo þægilegir! Þetta var alveg ný uppskrift og ég var dálítið efins með hana í fyrstu, en í henni eru fá hráefni sem ég nota ekki oft. Það er gráðostur, rósapipar og estragon krydd. Ég hefði nú ekki þurft að hafa áhyggjur því rétturinn sló í gegn hér heima! Ekki hræðast gráðostinn í réttinum, jafnvel þótt þið borðið hann ekki almennt. Alexander til dæmis er ekki hrifinn af gráðosti en fannst þessi ostafylling svo frábærlega góð. Gráðosturinn verður einhvern veginn mildari þegar hann er eldaður á þennan hátt og kemur svo saman við sósuna. Ég notaði þennan hefðbunda gráðost. Hins vegar er sniðugt að nota Bláan Kastala ef maður vill enn mildara ostabragð. Ég reyndar setti bara venjulegan rifinn ost í kjúklingabringurnar hjá yngstu krökkunum. Sósan var afskaplega bragðgóð, estragon og rósapipar eiga afar vel saman. Rósapipar er ekkert skyldur hvítum, svörtum eða grænum pipar heldur eru þetta lítil ber frá trópísku tré. Rósapipar er seldur þurrkaður (til frá t.d. Pottagöldrum og Prima) og minnir bragðið einna helst á einiber og kóríander, bragðið er svolítið mildara og sætara en þó með smá ,,sting“. Ég notaði matreiðslurjóma og mér fannst sósan skilja sig svolítið. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég notaði ekki hefðbundinn rjóma eða hvort það gerðist þegar gráðosturinn bráðnaði og blandaðist við sósuna. En það kom ekki að sök, sósan var ákaflega bragðgóð. Ég mæli með þessum rétti!

Uppskrift f. 4

  • 4 kjúklingabringur
  • 125 gr gráðostur (Blár kastali ef maður vill mildari tegund)
  • 2-3 tsk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk estragon krydd
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 tsk rósapipar, mulin t.d. í morteli eða kvörn
Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt og skorinn vasi í hlið hverrar kjúklingabringu sem er svo fyllt með gráðosti. Bringunum er svo lokað með því að þrýsta þeim saman. Fylltar kjúklingabringurnar lagðar í eldfast mót og þær penslaðar með sojasósu og estragon kryddinu stráð yfir. Muldum rósapipar hrært saman við rjómann sem er svo hellt yfir bringurnar. Sett inn í 200 gráður heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.
Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.