Sænskar rjómabollur


IMG_4186

Bolludagurinn er að bresta á. Í Svíþjóð er líka bolludagur en þeir hafa eitthvað misskilið þetta (eða við!) því bolludagurinn þeirra er á sprengidag og kallast fettisdagen. Nafnið er dregið af „fet“ og „tisdag“, þ.e. feitur þriðjudagur! Svíarnir taka „fettisdagen“ ekki jafn hátíðlegan og við tökum bolludaginn. Þeir eru með um það bil mánaðartímabil þar sem bollur eru til sölu í matvöruverslunum, bakaríum og á kaffihúsum.  Sænsku bollurnar kallast semlor og eru gerdeigsbollur. Á þær er settur „mandelmassa“ eða möndlumassi auk rjóma og yfir bollurnar er stráð flórsykur. Eftir að hafa búið í Svíþjóð í 15 ár er ekki í boði á okkar heimili að baka bara vatnsdeigsbollur. Vilhjálmur minn er sérstaklega hrifinn af sænsku bollunum, þær eru með því því besta sem hann veit! Ég bakaði því um helgina bæði sænskar „semlor“og íslenskar vatnsdeigsbollur. Möndlumassinn er seldur tilbúinn í sænskum verslunum en hann fæst ekki hér á landi (stöku sinnum í Íkea samt). Það er mjög einfalt að búa hann til og heimatilbúni möndlumassinn er mikið betri en sá tilbúni. Það er líka hægt að nota bara venjulegt Odense marsípan til að flýta fyrir sér og til dæmis finnst honum Vilhjálmi mínum það alveg jafn gott. Í þessum sænsku bollum er kardimomma en ef maður vill gera hefðbundnar íslenskar gerdeigsbollur þá er bara hægt að sleppa kardimommunum, setja sultu og rjóma ásamt glassúr eða súkkulaði á toppinn – þar með eru komnar íslenskar bollur!

Sænskar rjómabollur

Uppskrift, ca. 18 bollur:

  • 1 msk kardimommukjarnar (sleppa ef gera á íslenskar gerbollur)
  • 3 dl mjólk
  • 1 pakki þurrger
  • 1 1/2 dl sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g mjúkt smjör við stofuhita
  • 1 egg
  • 10-12 dl hveiti

Sænskar rjómabollur

Fylling:

  • ca. 400 g möndlumassi (líka hægt að nota hefðbundið Odense Marsípan sem er rifið niður og blandað við ca. 1-2 dl af mjólk þar til marsípanið verður mjúkt)
  • 8 dl rjómi
  • egg til að pensla með
  • flórsykur

Sænskar rjómabollur

Möndlumassi:

  • 250 g möndlur (afhýddar)
  • 2 1/2 dl sykur
  • mjólk, ca. 1 msk

Aðferð:

Bollurnar: Kjarnarnir úr kardimommunum maldir fínt í morteli. Mjólkin sett í pott, muldu kardimommurnar út í og hitað upp í 37 gráður. Gerið sett í skál og það leyst upp með mjólkinni, smjöri, sykri, salti og eggi. Þá er hveitinu bætt út í smátt og smátt og deigið hnoðað þar til það verður slétt og sprungulaust. Því næst er deigið látið hefast undir klút á hlýjum stað í 40-60 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast. Þá eru hnoðaðar ca. 18 bollur sem er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bollunum er leyft að hefast undir klút í ca. 45-60 mínútur til viðbótar. Því næst eru þær penslaðar með eggi og bakaðar við 200 gráður í um það bil 10 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Bollurnar eru þá látnar kólna á grind.

Sænskar rjómabollur

Möndlumassi: Möndlunar er maldar mjög fínt í matvinnsluvél. Þá er sykri bætt út í og blandan keyrð í matvinnsluvél í ca. 5-7 mínútur þar til massinn verður sléttur. Þá er smá skvettu af mjólk bætt út í þannig að massinn verði dálítið blautur og haldist saman. Sumir taka aðeins innan úr bollunum og bæta því út í möndlumassann.

Í stað þess að gera möndlumassa er líka gott að nota 400 g af marsípani rifið niður og blandað við ca. 1 dl mjólk.

Toppurinn er skorinn af bollunum og skorin smá dæld í neðri hluta bollunnar. Þar er settur möndlumassi, því næst er settur þeyttur rjómi, bollunni lokað og flórsykur sigtaður yfir.

Sænskar rjómabollur

Ein hugrenning um “Sænskar rjómabollur

  1. Bakvísun: Glútenlausar vöfflur á vöffludegi | Eldhússögur

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.