„Þegar ég bjó í Svíþjóð …“ er setning sem ég var staðráðin í að láta ekki hljóma vandræðalega oft eftir að ég flutti heim til íslands eftir 15 ára dvöl þar í landi. Ég veit ekki alveg hvort ég hef staðið við það, ég hef allavega margoft rætt um Svíþjóð og sænskar hefðir hér á blogginu. En það er jú líka ansi margt sem við getum sótt til þessarar frændþjóðar okkar þegar kemur að matargerð. Til dæmis eru Svíar snillingar í að búa sér til hátíðisdaga helgaða matréttum – nokkuð sem við Íslendingar mættum gjarnan taka upp finnst mér.
Svíar halda upp á dag kanelsnúðsins (4. október), dag frönsku súkkulaðikökunnar (7. nóvember) og dag ostakökunnar (14. nóvember). Til að fagna sænsku prinsessutertunni, dugir ekkert minna en heil vika sem er sú síðasta í september. Að auki eru borðaðar saffransbollur (Lussekatter) í kringum Lúsíuhátíðina á aðventunni og svo auðvitað bolludagur (sænskar semlor) sem nær eiginlega yfir mánaðartímabil. Í dag er svo vöffludagurinn – þið verðið að viðurkenna að þetta er dálítil snilld hjá Svíunum!
Það er sniðugt hvernig vöffludagurinn kom til því upphaflega er þetta kristinn dagur, dagur jómfrúarinnar (Vårfrudagen) en þá er þess minnst þegar Gabríel erkiengill boðaði Maríu Mey að hún myndi fæða frelsarann, ég geri ekki ráð fyrir að hún hafi boðið honum upp á vöfflur í tilefni dagsins. Í tímans rás þá breyttist á óútskýranlegan hátt, vegna misheyrnar, misskilnings eða jafnvel bara gríns, nafnið „Vårfrudagen“ í „Våffeldagen“.
25. mars er því helgaður vöfflum í Svíþjóð og mér sýnist hjá vinum mínum á Instagramminu að svo sé líka í Noregi. Óteljandi girnilegar vöfflumyndir hafa streymt í gegnum símann minn í dag með Instagram og það kom því ekkert annað til greina en að baka vöfflur þegar ég kom heim úr vinnunni.
Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram með glútenfrítt brauð og bakkelsi og var því mjög glöð þegar ég sá sænskar Finax vörur, sem ég notaði mikið í Svíþjóð, voru komnar í Hagkaup. Þetta er glútenlaus mjölblanda og gróf mjölblanda. Þessar blöndur er hægt að nota í stað hveitis í flestum uppskriftum. Til dæmis bjó ég til gómsætt glútenlaust brauð um daginn sem var líka gerlaust þar sem ég blandaði saman grófa og fína mjölinu.
Ég var ekkert smá ánægð með útkomuna á vöfflunum. Hér heima voru nokkur börn sem gæddu sér á vöfflunum og þeim fannst þær meira að segja betri en þessar hefðbundu sem ég hef gert. Vöfflurnar voru afar fljótar að bakast, og urðu stökkar og gómsætar!
Uppskrift:
- 4 egg
- ca. 5 dl mjólk
- 100 g smjör, brætt
- 5 dl glutenfri mix frá Finax
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- 2 tsk vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)
Mjölinu er blandað við lyftiduftið, vanillusykurinn og saltið. Eggin eru aðskilin og eggjarauðunum er hrært út í þurrefnin ásamt helmingnum af mjólkinni. Þá er restinni af mjólkinni bætt út í smátt og smátt. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og því næst blandað varlega út í degið.