Sænsk prinsessuterta


IMG_1528

Það er eiginlega skandall að ég, sem hef sænskan ríkisborgararétt (auk þess íslenska auðvitað), hafi ekki bloggað enn um sænsku prinsessutertuna! Hins vegar er varla hægt að velja betri dag en í dag, 17. júlí, til þess að birta uppskrift að hátíðartertu á síðunni minni. Í dag eigum við hjónin nefnilega 20 ára brúðkaupsafmæli! Fyrir tuttugu árum gekk ég upp að altarinu í Kópavogskirkju á þessum degi, þá nýorðin 21 árs, og gekk að eiga Elfar minn – mín stærstu gæfuspor í lífinu. ♥ Ég kíkti á færsluna sem ég skrifaði í fyrra á sama degi, hún er hér. Þá hafði ég sett inn uppskrift af dásamlega góðu naan-brauðunum. En það sem vakti athygli mína var yndislega veðrið sem var á sama tíma í fyrra, eitthvað annað en núna!

Ég held að flestir sem eitthvað þekkja til Svíþjóðar kannist við prinsessutertuna. Prinsessuterta er nokkurskonar þjóðar-hátíðarterta Svía. Við hinu ýmsu tímamót sem ber að fagna með tertuáti þá birtist sænska prinsessutertan í allskonar myndum. Sú hefðbundnasta er græna prinsessutertan með bleiku rósinni. Hún fæst í hverju einasta sænska bakaríi. Það er nefnilega afar algengt í Svíþjóð að prinsessutertan sé keypt tilbúin í bakaríum fremur en bökuð heima.

prinsesstarta

En prinsessuterturnar koma líka í ýmsum litum sem hæfa hverju tilefni. Bleikar og bláar fyrir skírnir, hvítar fyrir brúðaup, gular fyrir páskana og svo framvegis. Þessi prinsessuterta var til dæmis til sölu í öllum sænskum bakaríum þegar nýjasta sænska prinsessan, Estelle, var skírð fyrir ári síðan, „skírnarterta Estelle“ kallaðist hún:

estelle skírnarterta

Upprunalega uppskriftin af prinsessutertu kemur úr uppskriftabók frá 1948 eftir sænskan hússtjórnarkennara. Hún kenndi yfirstéttarstúlkum heimilisfræði, meðal annars þáverandi sænsku prinsessunum. Þær voru afar hrifnar af þessari tertu, þaðan kom nafnið.

Tertan er í raun afar einföld. Uppistaðan í henni er svampbotn, sulta (þó ekki alltaf – sumir Svíar telja það landráð að setja sultu í tertuna þar sem hún er ekki í upprunalegu uppskriftinni!), vanillukrem, rjómi og marsípan. Í Svíþjóð er hægt að kaupa þetta allt tilbúð og þá þarf bara að setja tertuna saman. Hér á Íslandi er í raun hægt að gera það líka nema að vanillukremið fæst ekki tilbúið. Það eru líka smá vandræði með tilbúna marsípalokið. Hér er hægt að kaupa tilbúið marsípanlok frá Odense ofan á tertuna en það er bara til í einum óspennandi drapplituðum lit. Í Svíþjóð er hægt að kaupa það grænt og bleikt eins og sést hérna:

marsipanlock í ICA

Það er lítið mál að baka svampbotninn og í raun er ekkert mál að búa til vanillukremið en það eru margir sem hræðast það. Það er alveg óþarfi, það þarf bara passa að það brenni ekki við, það getur gerst hratt þegar maður er til dæmis með spanhellur. Vanillukremið finnst mér sjúklega gott og það gerir prinsessutertuna svona góða. Svo er það bara þessi blanda, mjúkur svampbotn, hindberjasulta, vanillukrem, rjómi og marsípan, hún er einfaldlega svo konunglega góð! 🙂

sænsk prinsessuterta

Þegar við bjuggum í Stokkhólmi þá bjuggum við beint á móti bakaríi/kaffihúsi. Það besta sem Vilhjálmur minn vissi var að setjast niður á kaffihúsinu eftir leikskólann og fá að gæða sér á einni sneið af prinsessutertu. Stundum gerðum við það svona spari! 🙂 Þegar Vilhjálmur átti afmæli um daginn þá stóð prinsessuterta efst á hans óskalista fyrir afmælisveisluna. Ég kaupi oft tilbúna marsípanið í Svíþjóð og tek með mér heim en að þessu sinni átti ég það ekki til og keypti þetta ljósa sem fæst hér. Það er ekkert fallegt á litinn og hálfgegnsætt í þokkabót en það er bragðgott. Svo er auðvitað hægt að búa til sitt eigið marsípan, setja í það matarlit og fletja út – en þar dreg ég mörkin!

Uppskrift:

Svampbotn:

 • 3 egg
 • 2 dl sykur
 • 1 dl kartöflumjöl
 • 1 dl hveiti
 • 1 tsk lyftiduft

Ofninn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur er þeytt saman þar til það verður létt og ljóst. Kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti bætt varlega út í með sleikju. Deiginu er hellt í smurt smelluform (ca 22 cm) og bakað við 175 gráður í ca. 35 mínútur. Botninn er látinn kólna.

Á milli botnanna og ofan á tertuna: 

 • 1/2 líter rjómi
 • 150-200 g frosin hindber, afþýdd
 • vanillukrem
 • Odense marsipanlock

Vanillukrem:

2 eggjarauður
3 dl mjólk
3 msk sykur
1 msk kartöflumjöl
1 vanillusöng

Vanillustöngin klofin á lengdina, fræin skafin innan úr stönginni og þau sett í pott ásamt restinni af hráefnunum. Suðan er látin koma varlega upp og á meðan er stöðugt hrært í blöndunni með písk. Athugið að þegar kremið fer að þykkna þá gerist það fremur snöggt. Það þarf einnig að passa að kremið brenni ekki við botninn í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Um leið og vanillukremið er orðið passlega þykkt (þannig að það haldist vel á kökubotni án þess að leka- ekki ósvipað hlaupi) er potturinn tekinn af hellunni og kreminu hellt í skál – látið kólna.

IMG_1387

Tertan sett saman:

Þegar hindberin hafa þiðnað eru þau maukuð saman með gaffli (hægt að bæta við 1 tsk af sykri). Gott er að sía frá svolítið af vökvanum þannig að kökubotninn verði ekki alltof blautur undan hindberjamaukinu. Svampkökubotninn er skorinn í þrennt. Ég nota svona sniðuga græju frá Íkea til þess að skurðurinn verði jafn:

4027323-origpic-806cdc

Hindberjamaukinu er smurt á fyrsta botninn. Þá er næsti botn settur á og vanillukreminu smurt yfir hann. Því næst er síðasti botninn lagður ofan á. Rjómanum er þá dreift yfir alla tertuna, þunnt lag á hliðarnar en mest ofan á botninn. Rjóminn er mótaður keilulaga þannig að mest sé af honum í miðjunni, það kemur fallegast út undir marsípaninu. Að lokum er marsípanið lagt varlega yfir alla tertuna og brotið snyrtilega inn á hliðarnar. Ég skar ræmu af marsípaninu, rúllaði þvi upp og lagði í kringum tertuna til að fela samskeytin. Að síðustu er örlitlum flórsykri sigtað yfir tertuna. Ég skrifaði töluna með gel-lit frá Wilton.

IMG_1422Langt frá því að vera bakarís-falleg en góð er hún! 🙂

20 hugrenningar um “Sænsk prinsessuterta

 1. Mmmm elska þessa tertu! Hún er einmitt fléttuð saman við æskumynningar mínar frá Svíþjóð 😉 …..Gerða einmitt eina þegar að dóttir mín var skýrð 2012 og svo aftur þegar að hún var eins árs…hélt einmitt að þetta væri voða mikið mál en svo var þetta bara frekar auðvelt 😉

  • Það er allt í lagi að gera þessa tertu daginn áður. Hins vegar getur verið ágætt að bíða með að setja marsípanið á þar til samdægurs, annars er hætta á því að marsípanið „svitni“.

 2. Sæl. Fæst svona græja, sem þú notar til þess að skera botnana, í Ikea á Íslandi? Er búin að þræða alla heimasíðuna þeirra og finn þetta bara ekki! 🙂

 3. Ég prófaði að gera þessa köku, setti sykurmassa ofaná í staðinn fyrir marsipan þar sem mig langaði að skreyta kökuna og finnst marsipan ekki gott. Vildi bara láta vita að hún bragðaðist mjög vel, svo fyrir þá sem vilja ekki marsipan er það góð lausn! 🙂

 4. Bakvísun: Glútenlausar vöfflur á vöffludegi | Eldhússögur

 5. Bakvísun: Fermingarveisla | Eldhússögur

 6. Vil byrja á að þakka þér fyrir frábæran vef. Ég er með eina spurningu í sambandi við prinsessutertuna. Veistu ca. hvursu mikið marsipan ég þarf ef ég flet það út sjálf? Ég get nefnilega keypt bleikan marsipankubb hér í Danmörku sem er 250 g. Ætli það dugi?
  Kveðja, Þórunn

  • Sæl Þórunn og takk fyrir hrósið. Fyrir prinsessutertu sem er 22-24 cm í ummál (sem er algengast) þarftu allavega 500 grömm (miðað við þykkt 3-4 mm).

  • Það er vel hægt að frysta marsípanið, eina sem gæti gerst er að það gæti orðið pínu blaut/klístrugt þegar það þiðnar.

   Það er bara notað venjulegt marsípan frá Odense en það er gott að hnoða smá flórsykri (og jafnvel eggjahvítu) saman við það til að mýkja það upp áður en það er flatt út. Svo er gott að fletja það út þannig að það sé plastfilma undir og yfir því (jafnvel hægt að nota uppklipptan poka). En það er líka hægt að kaupa tilbúið marsípanlok frá Odense sem passar á hefbundna kringlótta tertu. Eins er hægt að panta marsípan frá bakaríi og fá það nákvæmlega í þeirri stærð sem þarf.

 7. Sæl vertu, Takk fyrir að deila þessari snilld. Hún er orðin algjört uppáhald hjá mínu fólki. Mig langaði bara að heyra hvort þú teldir í lagi að frysta kökuna áður en rjómi og marsipan er sett á? Sem sagt að taka upp og stinga inn í ískáp kvöldið fyrir veisluna og skreyta svo samdægurs?

  • Sæl Agla, gaman að heyra þetta! 🙂 Og svarið er já, það er ekkert mál að frysta prinsessutertu. 🙂 Þú getur líka fryst hana með rjómanum og marsípaninu, hún verður kannski aðeins blautari en fersk terta en ekkert verri á bragðið.

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.