Frábær öskudagur er að kvöldi kominn. Í ár var í fyrsta sinn hálfur skóladagur hjá krökkunum og í kjölfar þess var ákveðið að þau fengju að ganga í hús í hverfinu til þess að syngja og fá sælgæti að launum en sú hefð hefur ekki verið í hverfinu okkar hingað til. Þrátt fyrir að það hafi kyngt niður snjó gengu börnin glöð og kát á milli húsa og sungu og mörg heimili tóku þátt. Það má með sanni segja að þetta hafi gengið ákaflega vel og vonandi verður þetta að hefð í hverfinu. Nú er svo komið að einungis yngsta barnið mitt klæðist búningi, hin eru vaxin upp úr því. Jóhanna Inga mín ákvað fyrir löngu að hún vildi vera frelsisstyttan – enda getur hún ekki beðið eftir því að sjá hana í raun næsta sumar. Ég pantaði búning að utan og skottan var afar sátt við útkomuna.
Í dag eldaði ég einn rétt til viðbótar frá Eldum rétt. Að þessu sinni var það einfalt og gott lasagna. Ég kemst ekki yfir hvað það er skemmtilegt að elda úr svona fyrirfram tilbúnum skömmtum.
Það er góð tilfinning að nýtingin á hráefninu verður 100%, eldamennskan er barnslega einföld og síðast en ekki síst er verður allt svo skemmtilega skipulagt og snyrtilegt í kringum eldamennskuna þegar eldað er með þessum hætti.
Mér finnst gott að krydda lasagna vel og ég bætti því við kryddi sem stóð ekki í upphaflegu uppskriftinni. Þetta lasagna var ekki með ostasósu heldur einungis með lasagnaplötum og kjötsósu. Hins vegar getur verið sniðugt að bæta við kotasælu í uppskriftina í stað ostasósu, það er afar fljótlegt og gerir örugglega góðan rétt enn betri. Annars sá ég á heimasíðu Eldum rétt að þeir eru að fara auka framboðið á réttunum þannig að fljótlega verður hægt að velja úr sex mismunandi réttum fyrir pokann sinn.
Uppskrift f. 4:
- 12 lasagnaplötur
- 400 g nautahakk
- ólífuolía til steikingar
- 2 gulrætur, skornar smátt
- 4 hvítlauksrif, pressuð
- 4 sellerístangir, skornar smátt
- 2 litlir eða meðalstórir gulir laukar, saxaði smátt
- niðursoðnir tómatar, 400 g
- 1 msk tómatpúrra
- 1-2 tsk heitt pizzakrydd
- basilka og/eða oregano krydd
- salt & pipar
- fersk steinselja (ca 6 g)
- 2 tsk rauðvínsedik
- 1 stór dós kotasæla
- 100 g rifinn ostur
Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukur, gulrætur og sellerí steikt upp úr ca. 3 msk af ólífuolíu ásamt hvítlauki í ca. 1-2 mínútur. Þá er hakkinu bætt á pönnuna og steikt þar til það byrjar að brúnast. Þá er rauðvínsediki, tómatmauki, kryddum og niðursoðnum tómötum bætt út á pönnuna og leyft að krauma í 5-10 mínútur. Ríflega helmingurinn af steinseljunni er söxuð smátt og bætt út í. Fyrir þá sem vilja þá er hægt að mauka kjötsósuna með töfrasprota, en ekki of mikið, bara 4-5 púlsa. 3 msk af óífuolíu er sett í botninn á eldföstumóti.
Þá er lasagnaplötum raðað í botninn á forminu (plöturnar brotnar ef með þarf til að þær passi betur), því næst er hluta af hakkinu dreift yfir plöturnar og loks eru nokkrar skeiðar af kotasælu settar yfir hakkið og dreift vel úr því. Þetta er svo endurtekið tvisvar. Að lokum er rifnum osti dreift yfir og hitað í ofni í 20-25 mínútur. Skreytt að síðustu með ferskri steinselju. Borið fram með fersku salati.