Ég gerði enn eina útfærsluna af nautahakksrúllunni vinsælu en þetta kunn vera fjórða útgáfan sem ég set hingað á síðuna.
Þetta byrjaði allt með nautahakksrúllunni með brokkolí og osti.Ég færði mig síðan upp á skaftið og útfærði aðra rúllu með meðal annars beikoni og eplum.
Næst ákvað ég að prófa að nota mozzarella, tómata og basiliku í fyllinguna.
Í vikunni fékk ég þá skyndihugdettu að gera rúlluna mexíkóska. Ég lét ekki sitja við orðin tóm og prófaði að gera slíka rúllu samdægurs. Ég notaði þau hráefni sem ég átti í ísskápnum. Til dæmis datt mér í hug að setja hrísgrjón og maísbaunir í fyllinguna en hafði áhyggjur af því að fyllingin yrði of þurr þannig. Ég átti eitt box af Philadelphia osti með sweet chili og hrærði honum því saman við hrísgrjónin. Mér finnst gott að krydda nautahakkið vel en fólk þarf að meta það sjálft hversu vel kryddað hakkið á að vera, mælieiningarnar hér að neðan er aðeins til viðmiðunnar, ég notaði aðeins meira. Í fyllinguna eru notuð soðin hrísgrjón og það er mjög sniðugt að spara sér tíma og sjóða aukalega hrísgrjón með einhverjum kvöldmatnum, geyma í ísskáp og nota svo í fyllinguna.
Uppskrift:
- 700 g nautahakk
- 1/2 tsk chili duft
- 1/2 tsk paprika
- 1/2 tsk cumin krydd (broddkúmen) – ath. ekki kúmen
- 1/2 tsk oregano
- hnífsoddur cayanne pipar
- salt & pipar
- Fyrir þá sem kjósa það heldur þá er hægt að nota tilbúna Burrito kryddblöndu í stað kryddanna hér að ofan
- 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- ca. 1/4 meðalstór laukur, saxaður mjög smátt
- 1 egg
Fylling:
- ca. 2,5 – 3 dl af ósoðnum hrísgrjónum sem eru soðin samkvæmt leiðbeiningum
- lítil dós gular maísbaunir
- 1 dós Philadelphia ostur með sweet chili
- (mér datt í hug eftir á að það hefði líklega verið gott að steikja rauðlauk og bæta í fyllinguna!)
Ofan á rúlluna:
- 1 krukka salsa (ca. 350 g)
- rifinn mozzarella ostur
Ofninn er hitaður í 200 gráður. Kryddunum, eggjunum, lauknum og hvítlauknum er blandað vel saman við nautahakkið. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.
Soðnum hrísgrjónum, gulum maísbaunum og Philadelphia osti er blandað vel saman og dreift jafnt yfir hakkið. Því næst er rúllunni rúllað upp með hjálp bökunarparppírsins undir hakkinu. Rúllan er færð varlega yfir í eldfast mót eða á bökunarplötu og bökuð í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er hún tekin út, salsa sósu hellt yfir rúlluna og rifnum osti dreift yfir.
Rúllan er aftur sett inn í ofn og bökuð í um það bil 20 mínútur til viðbótar eða þar til rúllan er elduð í gegn. Ef osturinn fer að dökkna of mikið er hægt að setja álpappír yfir rúlluna undir lokin. Athugið að bökunartíminn er bara til viðmiðunnar, hann fer alfarið eftir því hvernig hakkinu er rúllað út og þá hver þykktin verður á rúllunni. Þykk og stutt rúlla þarf lengri bökunartíma en löng og mjó þarf styttri! 🙂
Borið fram með salsasósu, fersku guacamole og fersku salati. Mitt ferska salat þessa dagana samanstendur af einhverju góðu grænu salati blandað við dásamlega fersku og góðu baunaspírurnar frá Ecospiru. Ég hvet ykkur til að prófa!