Í gær varð Ósk dóttir mín tvítug. Ég trúi því varla að það séu tuttugu ár síðan hún fæddist, tíminn líður svo hratt! Í tilefni stórafmælisins vorum við með afmælismat fyrir fjölskylduna um kvöldið. Í boði var það sem Ósk finnst best, humar og sushi. Ég keypti stóran og girnilegan humar hjá Fiskikónginum, setti á hann heimatilbúið hvítlaukssmjör og bakaði í ofni í nokkrar mínútur með hvítvíns/rjómasósu, hér er uppskriftin. Við keyptum líka fyrirtaks sushi hjá Tokyo sushi. Þó svo að dóttir mín sé ekki hrifin af kökum og eftirréttum þá bakaði ég eina afmælisköku fyrir okkur hin í eftirrétt, Dillonskökuna dásamlegu.
Það er kannski að bera í bakkafullann lækinn að setja inn uppskrift að þessari köku því hana þekkja margir. Hins vegar er hún nauðsynleg viðbót í uppskriftasafnið mitt hér á Eldhússögum því ég vil þar geta gengið að öllum þeim uppskriftum sem mér líkar best. Ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef bakað þessa ljúffengu köku. Ef þið hafið ekki smakkað hana, kannski vegna þess að ykkur finnst döðlur ekki góðar þá þori ég að fullyrða að þið munið samt falla fyrir kökunni! Hún er ofboðslega mjúk og bragðgóð og karamellusósan er algjörlega æðisleg! Mér finnst þessi kaka best á meðan hún er enn heit, með mikilli karamellusósu og nýþeyttum rjóma, namm!
Uppskrift:
- 250 gr. döðlur
- 3 dl vatn
- 1 tsk. matarsódi
- 100 g smjör, mjúkt
- 130 g púðursykur
- 2 egg
- 150 g hveiti
- 100 g suðusúkkulaði, saxað
Hitið ofninn í 180 gráður. Setjið döðlur í pott ásamt vatni og látið suðuna koma upp, látið malla í 5 mínútur á lægsta hitanum. Þá er matarsóda stráð yfir döðlurnar. Því næst eru döðlurnar maukaðar í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Smjör og sykur þeytt vel saman í hrærivél og eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er döðlumauki bætt út í ásamt hveiti og súkkulaði, blandað vel. Deigið sett í smurt hringform (ca. 24 cm) og bakað í um það bil 30 mínútur.
Karamellusósa:
- 120 g smjör
- 100 g púðursykur
- 1/2 tsk. vanillusykur
- 3/4 dl. rjómi
Blandið öllu saman og látið sjóða í 5 mín. Kakan borin fram heit eða volg með heitri karamellsósunni og þeyttum rjóma.
Hvernig getur dóttir þín verið 20 ára??? þú ert varla sjálf eldri en 25, sýnist mér á myndum af þér. Fylgist alltaf með blogginu þínu, mjög góðar uppskriftir.
Ahhh .. þakka þér fyrir Soffía – þú bjargaðir deginum mínum! 🙂 Vonandi heldur þú áfram að fylgjast með, takk fyrir góða kveðju!
Ég tek undir það með þér með dölurnar, mér þykir þær ekki góðar en þessa köku get ég borðað alveg í massavís 😉 hehe En frábært blogg hjá þér alltaf gaman að fylgjast með og hef alveg verið dugleg að prófa uppskriftir frá þér. Ég verð aldrei fyrir vonbrigðum 😉 verð að þakka þér kærlega fyrir gott blogg 😉
Já, döðlurnar breytast sannarlega í gómsætar kræsingar í þessari köku! Kærar þakkir Stefanía fyrir góða kveðju! 🙂
Þessi verður bökuð! Baka mjög oft döðluköku og hef karamellusósu með, en sú er án súkkulaðis, ljós, mjúk og fluffy. En hvenær hefur súkkulaði skemmt eitthvað? Aaaaaldrei!!!
Svo innilega sammála Hilda Karen! 😉
hæ hæ ég var í saumó í gær og fékk þessa dásemdar köku. Takk fyrir 🙂 gaman að fylgjast með ❤
En gaman að heyra Jensína! 🙂 Bestu kveðjur til þín!
Takk fyrir þessa uppskrift, kakan er dásamlega góð!
Gaman að heyra – takk fyrir kveðjuna Vilborg! 🙂
Þessi er algjört lostæti, sló algjörlega í gegn.. Eins og reyndar allt annað hjá þér!! Uppáhaldsmatarbloggið mitt – Alveg pottþétt 😀