Fiskur i satay- og kókossósu


IMG_3876

Undanfarna daga hefur sólin skinið á daginn og skyndilega tekur tekur maður eftir því hversu mikið fyrr er farið að birta en áður og hversu lengi það er bjart – dásamlegt! 🙂 Í fyrrakvöld fórum við bókasafnsfræði-vinkonurnar í leikhús og sáum Óskasteina. Þetta er annað árið sem við kaupum okkar ársmiða í leikhúsið. Það er svo ágæt leið til þess að hittast reglulega eftir að við hættum að umgangast daglega frá því að náminu lauk. Við stöllur erum frekar harðir leikhúsgagnrýnendur og erum eiginlega alltaf sammála í dómum okkar. Óskasteinar fékk nú bara fremur háa einkunn frá okkur öllum og við skemmtum okkur mjög vel á sýningunni – mælum með henni!

Ég mæli líka sannarlega með þessum fiskrétti sem ég gef uppskrift að í dag. Ég elda fisk einu sinni í viku sem er alltof sjaldan fyrir minn smekk. En ég tek tillit til barnanna sem fá fisk tvisvar í viku í skólanum og einnig til þeirrar staðreyndar að yngsta barnið er allt annað en fiskunnandi svo vægt sé til orða tekið! Það er kannski ekki hefðbundið að nota satay sósu (hnetusósu) með fiski en svo ákaflega gott. Mér finnst pönnusteikt grænmeti algjört sælgæti og það smellpassar í þennan rétt. Það er svo mikið grænmeti í réttinum að ég var hvorki með kartöflur né hrísgrjón, þess þarf ekkert. Punkturinn yfir i-ið er svo smjörsteikta spínatið með hvítlauki. Ef þið hafið ekki prófað slíkt þá er kominn tími til! Ég prófaði að smjörsteikja spínat í fyrsta sinn þegar ég gerði þessa uppáhalds laxauppskrift. Síðan þá hef ég smjörsteikt spínat með öllum þeim matréttum sem mér dettur í hug. Sérstaklega er það þó gott með fiski. Spínat verður fljótt fremur „þreytt“ og óspennandi að nota í ferskt salat. Þá er upplagt að skella því þá pönnuna með til dæmis öðru grænmeti eða einu og sér. Hafa þarf þó eitt í huga, það verður sáralítið úr spínatinu þegar það er steikt. Heill 2-300 gramma poki passar  í litla skál eftir steikingu.

Uppskrift f. 4:

  • ca. 1100 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorsk), skorinn í hæfilega stóra bita
  • 200 g satay sósa
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 paprika, skorin í tenginga
  • 1 kúrbítur, skorinn í teninga
  • 3-4 stórar gulrætur, skornar í teninga
  • 1 rauðlaukur, skorinn í bita
  • lítill brokkolí haus, skorinn í bita
  • salt & pipar
  • 1 tsk grænmetiskraftur (má sleppa)
  • ólífuolía og/eða smjör til steikingar

IMG_3844

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænmetið er steikt á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu þar til það fer að mýkjast. Þá er satay sósunni og kókosmjólkinni bætt út á pönnuna og blandað saman við grænmetið. Öllu er svo hellt yfir í eldfast mót og meira smjör bætt út á pönnuna. Fiskurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á báðum hliðum í 1-2 mínútur. Því næst er fiskurinn lagður ofan á grænmetið í eldfasta mótinu. IMG_3846 Sett inn í ofn í 5-10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn (fer mikið eftir þykkt fisksins). Borið fram með smjörsteiktu spínati með hvítlauki. IMG_3866

Smjörsteik spínat með hvítlauki:

  • 1 poki spínat (200 g)
  • 1 msk smjör
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð mjög smátt
  • salt & pipar

Spínatið og hvítlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

IMG_3848IMG_3852

Fiskur í satay- og kókossósuIMG_3855

Piparsteiktur þorskur á núðlubeði


Piparsteiktur þorskur á núðlubeðiÞað er kannski ekki hefðbundið að hafa núðlur með þorski en maður minn hvað þessi réttur var góður. Ég notaði þorskhnakka sem voru svo þykkir og djúsí. Ég hef skrifað um það áður hve hrifin ég er af þorski, mér finnst hann svo mikið betri en ýsan til dæmis. Ég verð að segja að þessi réttur kom mér skemmtilega á óvart og samsetningin var frábær, þetta er eiginlega eins og hálfgerð núðlusúpa borin fram með fiski. Ég ætla samt að passa mig betur á piparnum næst, mér fannst fiskurinn verða of sterkur fyrir minn smekk – enda sést það nú á myndunum að ég hafði ekki sparað piparinn! 🙂 Elfar hins vegar sem er afar hrifinn af piparsteikum, piparsósum og almennt öllu sterku, fannst fiskurinn alveg mátulega kryddaður og var afar hrifinn af fisknum svona vel pipruðum.

Uppskrift:

  • 800 g þorskur (ég notaði fiskhnakka), skorin í hæfilega stór stykki
  • maldon salt (ég notað Saltverks salt)
  • 3 tsk heil piparkorn
  • 1 tsk rósapipar
  • 3 stórar gulrætur, skornar í þunna stafi
  • 1 stór rauðlaukur, skorin í strimla
  • 1 stór paprika, skorin í strimla
  • 5 dl fiskikraftur
  • 1,5 msk sojasósa
  • 1,5 ts worchesters sósa
  • 1-2 ts sítrónusafi
  • ca. 1 msk balsamedik
  • núðlur
  • ólífuolía
IMG_0148
Dásamlega gott – mæli samt með að þið notið aaaðeins minna af pipar á ykkar fisk! 

Ofn hitaður í 180 gráður. Piparkornin eru ristuð á pönnu þar til þau byrja að „poppa“ aðeins. Þá eru þau mulin í morteli (eða með hnífsskafti) og sett á disk. Fiskurinn er kryddaður með dálitlu maldon salti og annarri hliðinni síðan þrýst létt á piparinn. Farið mjög varlega í piparinn og sleppið honum jafnvel fyrir börn og viðkvæma. Það er líka bara gott að salta og pipra fiskinn létt á hefðbundinn hátt. Því næst er piparhliðin steikt á pönnu upp úr smjöri þar til myndast hefur góð steikingarhúð. Svo er fiskurinn lagður í smurt eldfast mót með piparhliðina upp og bakaður í ofni við 180 gráður í ca. 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn – tíminn fer að sjálfsögðu eftir þykkt fisksins.

Á meðan er grænmetið steikt upp úr smjöri og/eða olíu í nokkrar mínútur. Best er að byrja á gulrótunum, svo bæta við lauknum og paprikunni. Því næst er fiskikrafti, sojasósu, worchesterssóu og sítrónusafa blandað saman í lítin pott og hitað upp, smakkað til með balsamedik og salti (ef með þarf). Núðlurnar eru soðnar samkvæmt leiðbeiningum og svo blandað við grænmetið á pönnuna. Borið strax fram. Best er að bera fram réttinn með því að nota djúpan disk, byrja á því að leggja núðlur og grænmeti á diskinn, þá fiskinn og ausa svo sósunni yfir.

IMG_0154

Þorskhnakkar með kókos og karrí


Þorskhnakkar með karrí og kókos

Ég er ákaflega spennt að setja inn hingað á Eldhússögur uppskrift að uppáhaldstertunni minni. Það er terta sem hefur fylgt fjölskyldunni frá því áður en ég fæddist og er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldumeðlimunum. Hins vegar þá er ég búin að setja inn svo margar uppskriftir að sætmeti og kökum undanfarið að ég ákvað að geyma hana aðeins og setja inn í dag uppskrift að hollum og góðum matrétti. Það er langt síðan ég hef sett inn uppskrift að fiski hingað á síðuna og það er líka langt síðan ég eldaði fisk. Ég kom því við í fiskbúðinni á leið heim úr vinnunni og eins og svo oft áður þá freistuðu þorskhnakkarnir mín mest, þeir eru svo þykkir og girnilegir. Mig langaði í einhverskonar karrífisk og ég mundi að ég átti karrímauk og kókosmjólk heima. Ég ákvað því að reynda að spinna eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti. Útkoman var ægilega góð, það er eiginlega fátt sem slær góðum fiskrétti við!

IMG_7104

Uppskrift fyrir 4-5:

  • 1 kíló þorskhnakkar (eða annar hvítur fiskur)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 2 tsk karrí
  • salt & pipar
  • 1 tsk fiskikraftur
  • 2 msk green curry paste (grænt karrímauk)
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 100 g rifinn ostur
  • 1 dl kókosflögur

Ofn er hitaður í 200 gráður. Sveppir og paprika er steikt á pönnu, kryddað með salti, pipar og karríinu. Þegar grænmetið hefur náð góðri steikingarhúð er kókosmjólk, sýrðum rjóma, karrímauki, fiskikrafti og fiskisósu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Gott að smakka til með meira karrí, pipar, salti og fiskisósu við þörfum. Fyrir sterkari rétt er hægt að bæta við karrímauki. Fiskurinn er skorinn í passlega stórar sneiðar og honum raðað í eldfast mót. Sósunni er því næst hellt yfir fiskinn. Rifna ostinum og kókosflögunum er blandað saman og  að síðustu dreift yfir fiskinn. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_7114

Þorskhnakkar i Miðjarðarhafssósu


IMG_8748

Þessi fiskréttur er einn af þeim réttum sem ég gerði um daginn og var svo góður en ég finn ekki uppskriftina af. Ég sem sagt týndi miðanum sem ég hafði skrifaði uppskriftina á! Mjög pirrandi því þessi fiskréttur var ljúffengur. Ég er hins vegar búin að rýna í myndirnar og reyna að muna. Og viti menn, smátt og smátt rifjast þetta upp! Ég ætla því að skrifa niður þessa uppskrift eftir minni, vona að það takist. En fyrst ætla ég að skrifa til gamans hvað ég er búin að borða í dag fram að kvöldmatnum.

Dagurinn byrjaði á AB-mjólk og heimatilbúnu múslí. Ég er með uppskriftina af því hér og í þeirri færslu mæri ég þetta múslí mikið, enda er það dásamlega gott!

IMG_9722

Í hádeginu fékk ég mér svona eggjaköku. Mér finnst eggjakökur svo geggjað góðar og ég fæ mér oftast eina slíka ef ég er heima í hádeginu. Ég er dálítið vanaföst, mér finnst best að hafa í henni brokkolí og sveppi. Svo finnst mér afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með henni Gullost, melónu eða einhvern annan ávöxt og/eða avókadó.

IMG_6897

Í kaffitímanum fékk ég mér gróft brauð, Dinkelbergerbrauð, með skinku, káli, avókadó og kiwi. Ef þið hafið ekki smakkað gróft brauð með skinku, káli og kiwi þá eruð þið að missa af miklu! 🙂

IMG_8815

Sem betur fer þá bjargaði Ali mér algjörlega rétt eftir að við fluttum til Íslands. Í Svíþjóð var skinkan silkiskorin og ljúffeng ofan á brauð. Hér á Íslandi var bara til (og er enn) þykk og hlaupkennd skinka sem okkur finnst alveg óæt. En nokkrum mánuðum eftir að við fluttum til landsins rættist úr þessu skinkuástandi og Ali fór að framleiða silkiskorna skinku, bæði reykta og soðna sem er mun skárri en þessi þykka og hlaupkennda. Langbest er þó skinkan úr Pylsumeistaranum Laugalæk. Ég nota alltaf tækifærið þegar ég fer þar framhjá og kaupi gómsæta, ekta skinku.

IMG_8816

Þetta í glasinu er einn af mínum löstum, kók light! Jamm, ég er kókisti! Ég hef reynt að hætta og var hætt í hálft (leiðinlegt) ár en byrjaði svo aftur. Mér þætti mikið meira töff að við hlið disksins væri glas með ljúffengu latte, það væri smart! En mér finnst kaffi bara svo hrikalega vont, ég get ekki vanist því. Samt vantar mig koffeinið. Hvað á kona að gera í því annað en að fá sér kók light!? Kók er nú samt ekkert alslæmt og ég gerði meira að segja ljúffenga köku eitt sinn úr kóki. Hún var ekki bara skemmtileg í útliti heldur líka safarík og afar bragðgóð!

IMG_9658

Ég get hins vegar gortað mig af því að kókið er líklega það eina óholla sem ég innbyrti í dag. Ég get vel farið í gegnum daginn án sætmetis. En líklega mun ég samt fá mér í kvöld nokkra mola af Marabou súkkulaðinu með hnetum og rúsínum sem ég hef falið vel hér heima! 🙂

En hér kemur fiskuppskriftin góða.

Uppskrift: 

  • 600 g þorskhnakkar
  • 1 msk rósapipar, mulinn
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • smjör til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 150 g sveppir, niðursneiddir
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 dl hvítvín
  • mozzarella ostur, rifinn
  • 1 egg

IMG_8734

Ofninn er hitaður í 200 gráður og stilltur á grill. Fiskurinn er kryddaður með rósapipar, salti, pipar og sítrónusafanum dreift yfir fiskinn. Fiskurinn er steiktur á pönnu upp úr smjörinu á báðum hliðum þar til hann hefur náð góðum lit á báðum hliðum. Þá er hann tekinn af pönnunni og lagður í smurt eldfast mót. Sveppum, lauk og hvítlauk bætt út á pönnuna. Þetta er steikt í smástund (smjöri bætt við eftir þörfum) og þá er tómötum og hvítvíni bætt út á pönnuna, saltað og piprað. Sósan er látin malla í ca. 10 mínútur. Þá er henni hellt yfir fiskinn.

IMG_8736

Eggi er blandað saman við mozzarella ostinn og því næst er honum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni sem er stilltur á grill við 200 gráður í um það bil 15 mínútur eða þar til osturinn hefur náð lit og fiskurinn er eldaður í gegn.

IMG_8742

Pönnusteiktur parmesanþorskur með tómatrisotto


IMG_8505Eftir ótrúlega mildan vetur gerði veturkonungur vart við sig í dag. Þá er afskaplega ljúft að þurfa bara ganga 190 metra í vinnuna og þurfa ekkert að hreyfa bílinn! 🙂 Ekki er síðra að vinna í sama skóla og börnin ganga í og þurfa því ekki að hafa áhyggjur af þeim til og frá skóla. Þegar ég og börnin komu heim í dag nutum við þess að vera inni í veðrinu, lágum undir teppi, lásum og höfðum það notalegt. Í kvöldmat eldaði ég frábærlega góðan þorsk sem Elfar sótti úr Fiskbúð Hólmgeirs á leiðinni heim úr vinnunni. Með þorsknum hafði ég tómatrisotto. Ég minnist þess varla að hafa nokkurn tímann eldað risotto áður. Mér finnst risotto gott en ég hef tekið það í mig að það sé afar flókið að elda risotto rétt, slíkt sé ekki á hvers manns færi! Ég afsannaði það nú á það í kvöld, risottóið var nú barasta mjög vel heppnað þrátt fyrir reynsluleysi mitt! 🙂 Við hjónin ákváðum að blása á hversdaginn, kveiktum á kertum og fengum okkur sitt hvort hvítvínsglasið með fisknum! Mikið var það nú gott! 🙂 Mér finnst smá hvítvínsdreitill gera svo mikið fyrir góða fiskrétti.

Uppskrift f. ca 4:

  • 600 g hvítur fiskur, ég notaði þorsk
  • 2 dl hveiti
  • 2 egg
  • 4 dl parmesan, fínrifinn
  • salt og pipar

Tómatrisotto

  • 250 g kokteiltómatar
  • 2 skarlottulaukar eða 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 msk smjör
  • 2 dl risotto
  • 1 dl hvítvín
  • 2 dl tómatsafi (ég nota „passerade tomater“ sem eru í fernu)
  • 5 dl vatn
  • 2 msk kjúklingakraftur (eða 2 teningar)
  • 25 g smjör
  • 2 dl parmesanostur, rifinn

Kokteiltómatar eru settir í mjög stutta stund í sjóðandi vatn þar til hýðið losnar. Þá eru tómatarniar teknir upp úr, kældir undir köldu vatni, hýðið tekið af þeim og þeir skornir í tvennt og geymdir. Laukur og hvítlaukur eru saxaðir fínt og steikt í meðalstórum potti i stutta stund. Þá er risotto bætt út í ásamt hvítvíni og soðið niður í ca. 3 mínútur á fremur háum hita. Því næst er tómatsafanum bætt út í, hrært vel í blöndunni og hitinn lækkaður. Vatnið er soðið og blandað vel saman við kjúklingakraftinn. Nú er risottið soðið í ca. 18 mínútur við meðalhita og kjúklingsoði reglulega hellt út í, ca. 1 dl í hvert sinn. Það þarf að hræra í risottoinu mjög vel og reglulega. Í lokinn er 2 dl af parmesanosti bætt út í ásamt smjöri og kokteiltómötunum. Á meðan risottið er sýður er fiskurinn útbúinn (ekki gleyma samt að hræra oft í risottoinu á meðan!). Fiskurinn er skorinn í meðalstóra bita. Hveiti, salti (ég notaði lítið salt þar sem parmesanosturinn er saltur) og pipar blandað saman á einn disk, eggjum vispað létt saman með gaffli á öðrum disk og rifinn parmesan ostur settur á þann þriðja. Fisknum er fyrst velt upp úr hveiti, þá eggjum og svo parmesan osti. Fiskurinn er svo steiktur upp úr góðri klípu af smjöri á pönnu, á báðum hliðum, þar til hann er steiktur í gegn. Borið saman með tómatrisotto og góðu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_8509

Þorskur með chorizo-salsa og blómkálsmauki


Ég held að margar barnafjölskyldur kannist við það vandamál að erfitt reynist að finna matrétti sem hugnast öllum fjölskyldumeðlimum jafn vel. Yngstu krakkarnir okkar, þá sérstaklega Jóhanna Inga, eru alls ekki hrifin af fisk. Þau þurfa samt að smakka allavega einn bita af því sem er í matinn en það er voðalega leiðinlegt að vera með kvöldmat sem hluti af fjölskyldunni borðar ekki. Þess vegna er ég mikið sjaldnar með fisk í matinn en ég kysi sjálf. Í kvöld ákvað ég að prófa dálítið ,,fullorðinslegan“ fiskrétt sem ég vissi svo sem fyrirfram að krakkarnir yrðu ekki hrifin af. Auk þess höfðu þau fengið fisk í hádegismatinn í skólanum. Ég útbjó því einfaldan pastarétt sem þau gæddu sér á, afar ánægð, á meðan ég útbjó fiskréttinn fyrir restina af fjölskyldunni. Í fiskréttinum var chorizo pylsa. Ég átti einmitt leið framhjá Pylsumeistaranum á Hrísateigi í dag og fór inn í þá verslun í fyrsta sinn. Ég hef ekki verið dugleg að nota slíkar pylsur áður og þekki almennt lítið til sterkra pylsa. Í boði voru spænskar og mexíkóskar chorizo pylsur og ég valdi þær fyrrnefndu, þær eru mildari. Rétturinn var góður en óvenjulegur þar sem að hráefnin voru önnur en ég er vön að nota. Fiskurinn er bragðmildur og blómkálsmaukið einnig en chorizo pylsan bragðsterk og hún gefur því mesta bragðið í réttinn. Rétturinn ætti því að slá í gegn hjá unnendum slíkra pylsa.

Uppskrift f. 4

Þorskur

  • 800 gr þorskur
  • ólífuolía
  • sítrónusafi
  • salt og pipar
Blómkálsmauk:
  • 1-2 blómkálshausar, skornir í bita
  • 2-3 kartöflur, afhýdda og skornar til helminga
  • salt
  • 1-2 msk smjör
  • 1-2 msk sýrður rjómi
  • salt og pipar
Chorizosalsa:
  • 3-4 msk furuhnetur eða saxaðar kasjúhnetur
  • ca 1 dl olífuolía
  • ca 150 gr chorizo pylsa, skorin í litla bita
  • 2-4 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð eða fínsöxuð
  • ca 1/4 rauður chili, fínsaxaður
  • 3 sólþurrkaðir tómatar, fínsaxaðir
  • sítrónusafi
  • ferskt timjan, fínsaxað

Best er að byrja á því að saxa og skera hráefnið í chorizosalsað.

Þorskurinn: Þorskurinn penslaður með blöndu af sítrónusafa og ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Fiskurinn er bakaður í ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til hann er fulleldaður.

Blómkálsmauk: Kartöflurnar og blómkálið er soðið í ósöltuðu vatni þar til hvor tveggja er orðið mjúkt, ca. 10-15 mínútur. Soðvatninu hellt af og smjöri stappað saman við kartöflurnar og blómkálið. Fyrir fínna mauk er hægt að nota töfrasprota eða matvinnsluvél. Maukið er smakkað til með sýrðum rjóma, salti og pipar.

Chorizosalsa: Furuhneturnar (eða kasjúhnetur) ristaðar á þurri pönnu og þær síðan lagðar til hliðar. Olíu bætt á pönnuna ásamt chorizo pylsu og hún látin malla í ca. eina mínútu. Þá er skarlottulauk, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og chili bætt út (magn eftir smekk). Þetta er látið malla á vægum hita í nokkrar mínútur. Að síðustu er hnetunum bætt út í ásamt timjan og salsað smakkað til með sítrónusafa.

Pizzufiskur (eða þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella!)


Ef ég fengi að ráða nafninu á þessum ljúffenga rétti þá myndi það vera ,,þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella“. Yngri krakkarnir þvertóku hins vegar fyrir það, þau sögðu að nafnið pizzufiskur myndi gera réttinn girnilegan í augum allra barna! Þau eru hvorugt fyrir fisk en þegar hann er kominn í þessar umbúðir þá er ekki annað hægt en að klára af disknum sínum. Þetta er ótrúlega einfaldur réttur að matreiða og afar gómsætur. Ég kaupi varla ýsu lengur, finnst þorskurinn svo mikið betri. Í þetta sinn fékk ég mjög þykkt þorskflak og þurfti þess vegna að bæta við bökunartímann. Annars sakna ég dagsbirtunnar ógurlega mikið á kvöldmatartíma þessa dagana. Þegar ég byrjaði að blogga var júní og alltaf bjart. Ég kann ekkert í ljósmyndun er er búin að reka mig á grunnatriðið núna, það er dagsbirtan! Það er svo mikið leiðinlegra að taka matarmyndirnar þegar orðið er dimmt og það þarf að nota flass. Það jákvæða er hins vegar að ég er komin í kapphlaup við dagsbirtuna og er farin að hafa matinn fyrr, upp úr klukkan 18, helst fyrr. En ókosturinn er reyndar sá að oft sit ég ein við matarborðið til að byrja með, Elfar vinnur alltaf frameftir og oft eru eldri krakkarnir að stússast í tómstundum, íþróttum eða vinnu á þeim tíma. En hér kemur uppskriftin af pizzufisknum ( … eða þorsknum í miðjarðarhafssósunni með mozzarella!)

Uppskrift f. 4-5

  • 500 gr. tómatsósa með hvítlauk og/eða kryddjurtum (ég notað þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)
  • fersk basilika
  • 1 kíló þorskur eða ýsa
  • pipar og salt
  • 1 msk olía
  • svartar ólífur
  • 1-2 kúlur ferskur mozzarella

Ofninn hitaður í 200 gráður. Sósan hituð í potti, basilika söxuð gróft og bætt út í sósuna. Fiskurinn skorinn í hæfilega stór stykki og kryddaður með salti og pipar. Eldfast mót smurt með olíu, fisknum raðað í formið og sósunni hellt yfir. Að lokum er ólífunum dreift yfir. Álpappir breiddur yfir mótið og það sett í ofninn í ca. 10-15 mínútur. Mozzarella osturinn skorinn í sneiðar. Eldfasta mótið tekið úr ofninum og hitinn hækkaður í 215 gráður. Álpappírinn fjarlægður og ostinum raðað ofan á. Eldfasta mótið sett aftur inn í ofninn og bakað í ca. 10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati, jafnvel góðu brauði líka.

Þorskur með balsamik-lauk og sellerímús‏


 
Þorskur með balsamik-lauk og sellerímús‏
Ég hef sett inn uppskrift af þorskrétti áður sem er himneskt góður! Þá uppskrift er að finna hér. Í kvöld prófaði ég aðra uppskrift af þorskrétti sem er svipað uppbyggð en með allt öðrum hráefnum. Þessi réttur var dásamlega góður! Látið ekki laukinn hræða ykkur í burtu! Ég til dæmis borða alls ekki hráan lauk, finnst hann hræðilega vondur. En hér er búið að meðhöndla laukinn þannig að hann verður algjört hnossgæti. Það er mikilvægt að gefa sósunni smá tíma, leyfa balsamikedikinu að sjóða vel niður og líka að smakka sósuna vel til. Sellerí- kartöflumúsin er rosalega góð, skemmtileg tilbreyting að fá bragð af sellerírótinni með kartöflunum. Ég fékk sellerírót í Nettó en hún er líka stundum til í Bónus minnir mig. Svo er líka hægt að svissa aðeins í uppskriftunum, nota t.d. sætukartöflumúsina úr hinum þorksréttinum sem ég minntist á, með þessum rétti.
 

Þorskur:

  • 800 gr þorskflök, skorinn í bita
  • salt og pipar

Balsamik-laukur

  • 14-16 skarlottulaukar
  • ólífuolía
  • 2 msk sykur
  • 2 dl balsamedik
  • 2 dl fiskisoð (vatn+fiskikraftur)
  • 2 msk ósaltað smjör

Sellerí- og kartöflumús 

  • 1 sellerírót, skorin í teninga
  • 8-10 kartöflur
  • 2 msk smjör
  • mjólk
  • sykur
  • salt og pipar
Sellerírót afhýdd og skorin í tenginga sem settir eru í pott. Kartöflur einnig settar í pott, hvort tveggja soðið þar til orðið mjúkt (í sitt hvorum pottinum). Vatninu hellt af, kartöflur afhýddar. Sellerírót og kartöflum stappað saman og smjöri bætt út í. Bragðbætt með salti, pipar og sykri (ef maður kýs að gera hana sætari). Einnig er hægt að bæta örlítið af mjólk út í.
 
Ofninn hitaður í 180 gráður. Þorskurinn saltaður og pipraður, skorinn í hæfilega bita og lagður í eldfast mót. Bakaður í ofni við 180 gráður í ca 15-20 mínútur. Fiskurinn tekinn úr ofninum, álpappír lagður yfir hann í ca. þrjár mínútur áður en hann er borinn á borð.
 
Skarlottulaukurinn afhýddur og ef hann er stór er gott að skera hann í tvennt á lengdina. Laukurinn látinn malla í olíu í potti, á fremur lágum hita, þar til hann er orðinn vel mjúkur. Sykri bætt út í og hann látinn bráðna. Því næst er balsamedik bætt út í og látinn malla þar til að það er vel soðið niður (verður næstum því að sírópi). Þá er fiskisoðinu bætt út í og soðið niður þar til sósan er orðin fremur seigfljótandi. Það er mikilvægt að smakka sósuna til, ef hún er til dæmis of súr þarf að bæta við sykri, ef hún er of sölt (fiskikrafturinn) þarf að bæta við örlitlu vatni. Smjörinu er svo bætt við rétt áður en sósan er borin fram.
img_9239-1