Eftir ótrúlega mildan vetur gerði veturkonungur vart við sig í dag. Þá er afskaplega ljúft að þurfa bara ganga 190 metra í vinnuna og þurfa ekkert að hreyfa bílinn! 🙂 Ekki er síðra að vinna í sama skóla og börnin ganga í og þurfa því ekki að hafa áhyggjur af þeim til og frá skóla. Þegar ég og börnin komu heim í dag nutum við þess að vera inni í veðrinu, lágum undir teppi, lásum og höfðum það notalegt. Í kvöldmat eldaði ég frábærlega góðan þorsk sem Elfar sótti úr Fiskbúð Hólmgeirs á leiðinni heim úr vinnunni. Með þorsknum hafði ég tómatrisotto. Ég minnist þess varla að hafa nokkurn tímann eldað risotto áður. Mér finnst risotto gott en ég hef tekið það í mig að það sé afar flókið að elda risotto rétt, slíkt sé ekki á hvers manns færi! Ég afsannaði það nú á það í kvöld, risottóið var nú barasta mjög vel heppnað þrátt fyrir reynsluleysi mitt! 🙂 Við hjónin ákváðum að blása á hversdaginn, kveiktum á kertum og fengum okkur sitt hvort hvítvínsglasið með fisknum! Mikið var það nú gott! 🙂 Mér finnst smá hvítvínsdreitill gera svo mikið fyrir góða fiskrétti.
Uppskrift f. ca 4:
- 600 g hvítur fiskur, ég notaði þorsk
- 2 dl hveiti
- 2 egg
- 4 dl parmesan, fínrifinn
- salt og pipar
Tómatrisotto
- 250 g kokteiltómatar
- 2 skarlottulaukar eða 1/2 rauðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 1 msk smjör
- 2 dl risotto
- 1 dl hvítvín
- 2 dl tómatsafi (ég nota „passerade tomater“ sem eru í fernu)
- 5 dl vatn
- 2 msk kjúklingakraftur (eða 2 teningar)
- 25 g smjör
- 2 dl parmesanostur, rifinn
Kokteiltómatar eru settir í mjög stutta stund í sjóðandi vatn þar til hýðið losnar. Þá eru tómatarniar teknir upp úr, kældir undir köldu vatni, hýðið tekið af þeim og þeir skornir í tvennt og geymdir. Laukur og hvítlaukur eru saxaðir fínt og steikt í meðalstórum potti i stutta stund. Þá er risotto bætt út í ásamt hvítvíni og soðið niður í ca. 3 mínútur á fremur háum hita. Því næst er tómatsafanum bætt út í, hrært vel í blöndunni og hitinn lækkaður. Vatnið er soðið og blandað vel saman við kjúklingakraftinn. Nú er risottið soðið í ca. 18 mínútur við meðalhita og kjúklingsoði reglulega hellt út í, ca. 1 dl í hvert sinn. Það þarf að hræra í risottoinu mjög vel og reglulega. Í lokinn er 2 dl af parmesanosti bætt út í ásamt smjöri og kokteiltómötunum. Á meðan risottið er sýður er fiskurinn útbúinn (ekki gleyma samt að hræra oft í risottoinu á meðan!). Fiskurinn er skorinn í meðalstóra bita. Hveiti, salti (ég notaði lítið salt þar sem parmesanosturinn er saltur) og pipar blandað saman á einn disk, eggjum vispað létt saman með gaffli á öðrum disk og rifinn parmesan ostur settur á þann þriðja. Fisknum er fyrst velt upp úr hveiti, þá eggjum og svo parmesan osti. Fiskurinn er svo steiktur upp úr góðri klípu af smjöri á pönnu, á báðum hliðum, þar til hann er steiktur í gegn. Borið saman með tómatrisotto og góðu hvítvínsglasi! 🙂
Hvað notar þú mikið af risottogrjónum?
2 dl