Þorskhnakkar með kókos og karrí


Þorskhnakkar með karrí og kókos

Ég er ákaflega spennt að setja inn hingað á Eldhússögur uppskrift að uppáhaldstertunni minni. Það er terta sem hefur fylgt fjölskyldunni frá því áður en ég fæddist og er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldumeðlimunum. Hins vegar þá er ég búin að setja inn svo margar uppskriftir að sætmeti og kökum undanfarið að ég ákvað að geyma hana aðeins og setja inn í dag uppskrift að hollum og góðum matrétti. Það er langt síðan ég hef sett inn uppskrift að fiski hingað á síðuna og það er líka langt síðan ég eldaði fisk. Ég kom því við í fiskbúðinni á leið heim úr vinnunni og eins og svo oft áður þá freistuðu þorskhnakkarnir mín mest, þeir eru svo þykkir og girnilegir. Mig langaði í einhverskonar karrífisk og ég mundi að ég átti karrímauk og kókosmjólk heima. Ég ákvað því að reynda að spinna eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti. Útkoman var ægilega góð, það er eiginlega fátt sem slær góðum fiskrétti við!

IMG_7104

Uppskrift fyrir 4-5:

  • 1 kíló þorskhnakkar (eða annar hvítur fiskur)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 2 tsk karrí
  • salt & pipar
  • 1 tsk fiskikraftur
  • 2 msk green curry paste (grænt karrímauk)
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 100 g rifinn ostur
  • 1 dl kókosflögur

Ofn er hitaður í 200 gráður. Sveppir og paprika er steikt á pönnu, kryddað með salti, pipar og karríinu. Þegar grænmetið hefur náð góðri steikingarhúð er kókosmjólk, sýrðum rjóma, karrímauki, fiskikrafti og fiskisósu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Gott að smakka til með meira karrí, pipar, salti og fiskisósu við þörfum. Fyrir sterkari rétt er hægt að bæta við karrímauki. Fiskurinn er skorinn í passlega stórar sneiðar og honum raðað í eldfast mót. Sósunni er því næst hellt yfir fiskinn. Rifna ostinum og kókosflögunum er blandað saman og  að síðustu dreift yfir fiskinn. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_7114

4 hugrenningar um “Þorskhnakkar með kókos og karrí

  1. Dásamlegur fiskréttur hjá þér Dröfn „matarvinkona mín“ eins og ég sagði við matarborðið þegar ég var spurð hvaðan þessi uppskrift kæmi 😉 Það þarf varla að spyrja ef ég er að prófa eitthvað nýtt .

  2. Mæli með. Uppáhaldsréttur hjá okkur. Hef réttinn í matarboðum og oft heima. Vissi ekki að ég gæti kommentað hér en takk kærlega fyrir.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.