Piparsteiktur þorskur á núðlubeði


Piparsteiktur þorskur á núðlubeðiÞað er kannski ekki hefðbundið að hafa núðlur með þorski en maður minn hvað þessi réttur var góður. Ég notaði þorskhnakka sem voru svo þykkir og djúsí. Ég hef skrifað um það áður hve hrifin ég er af þorski, mér finnst hann svo mikið betri en ýsan til dæmis. Ég verð að segja að þessi réttur kom mér skemmtilega á óvart og samsetningin var frábær, þetta er eiginlega eins og hálfgerð núðlusúpa borin fram með fiski. Ég ætla samt að passa mig betur á piparnum næst, mér fannst fiskurinn verða of sterkur fyrir minn smekk – enda sést það nú á myndunum að ég hafði ekki sparað piparinn! 🙂 Elfar hins vegar sem er afar hrifinn af piparsteikum, piparsósum og almennt öllu sterku, fannst fiskurinn alveg mátulega kryddaður og var afar hrifinn af fisknum svona vel pipruðum.

Uppskrift:

  • 800 g þorskur (ég notaði fiskhnakka), skorin í hæfilega stór stykki
  • maldon salt (ég notað Saltverks salt)
  • 3 tsk heil piparkorn
  • 1 tsk rósapipar
  • 3 stórar gulrætur, skornar í þunna stafi
  • 1 stór rauðlaukur, skorin í strimla
  • 1 stór paprika, skorin í strimla
  • 5 dl fiskikraftur
  • 1,5 msk sojasósa
  • 1,5 ts worchesters sósa
  • 1-2 ts sítrónusafi
  • ca. 1 msk balsamedik
  • núðlur
  • ólífuolía
IMG_0148
Dásamlega gott – mæli samt með að þið notið aaaðeins minna af pipar á ykkar fisk! 

Ofn hitaður í 180 gráður. Piparkornin eru ristuð á pönnu þar til þau byrja að „poppa“ aðeins. Þá eru þau mulin í morteli (eða með hnífsskafti) og sett á disk. Fiskurinn er kryddaður með dálitlu maldon salti og annarri hliðinni síðan þrýst létt á piparinn. Farið mjög varlega í piparinn og sleppið honum jafnvel fyrir börn og viðkvæma. Það er líka bara gott að salta og pipra fiskinn létt á hefðbundinn hátt. Því næst er piparhliðin steikt á pönnu upp úr smjöri þar til myndast hefur góð steikingarhúð. Svo er fiskurinn lagður í smurt eldfast mót með piparhliðina upp og bakaður í ofni við 180 gráður í ca. 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn – tíminn fer að sjálfsögðu eftir þykkt fisksins.

Á meðan er grænmetið steikt upp úr smjöri og/eða olíu í nokkrar mínútur. Best er að byrja á gulrótunum, svo bæta við lauknum og paprikunni. Því næst er fiskikrafti, sojasósu, worchesterssóu og sítrónusafa blandað saman í lítin pott og hitað upp, smakkað til með balsamedik og salti (ef með þarf). Núðlurnar eru soðnar samkvæmt leiðbeiningum og svo blandað við grænmetið á pönnuna. Borið strax fram. Best er að bera fram réttinn með því að nota djúpan disk, byrja á því að leggja núðlur og grænmeti á diskinn, þá fiskinn og ausa svo sósunni yfir.

IMG_0154

Þorskhnakkar með kókos og karrí


Þorskhnakkar með karrí og kókos

Ég er ákaflega spennt að setja inn hingað á Eldhússögur uppskrift að uppáhaldstertunni minni. Það er terta sem hefur fylgt fjölskyldunni frá því áður en ég fæddist og er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldumeðlimunum. Hins vegar þá er ég búin að setja inn svo margar uppskriftir að sætmeti og kökum undanfarið að ég ákvað að geyma hana aðeins og setja inn í dag uppskrift að hollum og góðum matrétti. Það er langt síðan ég hef sett inn uppskrift að fiski hingað á síðuna og það er líka langt síðan ég eldaði fisk. Ég kom því við í fiskbúðinni á leið heim úr vinnunni og eins og svo oft áður þá freistuðu þorskhnakkarnir mín mest, þeir eru svo þykkir og girnilegir. Mig langaði í einhverskonar karrífisk og ég mundi að ég átti karrímauk og kókosmjólk heima. Ég ákvað því að reynda að spinna eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti. Útkoman var ægilega góð, það er eiginlega fátt sem slær góðum fiskrétti við!

IMG_7104

Uppskrift fyrir 4-5:

  • 1 kíló þorskhnakkar (eða annar hvítur fiskur)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 2 tsk karrí
  • salt & pipar
  • 1 tsk fiskikraftur
  • 2 msk green curry paste (grænt karrímauk)
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 100 g rifinn ostur
  • 1 dl kókosflögur

Ofn er hitaður í 200 gráður. Sveppir og paprika er steikt á pönnu, kryddað með salti, pipar og karríinu. Þegar grænmetið hefur náð góðri steikingarhúð er kókosmjólk, sýrðum rjóma, karrímauki, fiskikrafti og fiskisósu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Gott að smakka til með meira karrí, pipar, salti og fiskisósu við þörfum. Fyrir sterkari rétt er hægt að bæta við karrímauki. Fiskurinn er skorinn í passlega stórar sneiðar og honum raðað í eldfast mót. Sósunni er því næst hellt yfir fiskinn. Rifna ostinum og kókosflögunum er blandað saman og  að síðustu dreift yfir fiskinn. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_7114

Þorskur með chorizo-salsa og blómkálsmauki


Ég held að margar barnafjölskyldur kannist við það vandamál að erfitt reynist að finna matrétti sem hugnast öllum fjölskyldumeðlimum jafn vel. Yngstu krakkarnir okkar, þá sérstaklega Jóhanna Inga, eru alls ekki hrifin af fisk. Þau þurfa samt að smakka allavega einn bita af því sem er í matinn en það er voðalega leiðinlegt að vera með kvöldmat sem hluti af fjölskyldunni borðar ekki. Þess vegna er ég mikið sjaldnar með fisk í matinn en ég kysi sjálf. Í kvöld ákvað ég að prófa dálítið ,,fullorðinslegan“ fiskrétt sem ég vissi svo sem fyrirfram að krakkarnir yrðu ekki hrifin af. Auk þess höfðu þau fengið fisk í hádegismatinn í skólanum. Ég útbjó því einfaldan pastarétt sem þau gæddu sér á, afar ánægð, á meðan ég útbjó fiskréttinn fyrir restina af fjölskyldunni. Í fiskréttinum var chorizo pylsa. Ég átti einmitt leið framhjá Pylsumeistaranum á Hrísateigi í dag og fór inn í þá verslun í fyrsta sinn. Ég hef ekki verið dugleg að nota slíkar pylsur áður og þekki almennt lítið til sterkra pylsa. Í boði voru spænskar og mexíkóskar chorizo pylsur og ég valdi þær fyrrnefndu, þær eru mildari. Rétturinn var góður en óvenjulegur þar sem að hráefnin voru önnur en ég er vön að nota. Fiskurinn er bragðmildur og blómkálsmaukið einnig en chorizo pylsan bragðsterk og hún gefur því mesta bragðið í réttinn. Rétturinn ætti því að slá í gegn hjá unnendum slíkra pylsa.

Uppskrift f. 4

Þorskur

  • 800 gr þorskur
  • ólífuolía
  • sítrónusafi
  • salt og pipar
Blómkálsmauk:
  • 1-2 blómkálshausar, skornir í bita
  • 2-3 kartöflur, afhýdda og skornar til helminga
  • salt
  • 1-2 msk smjör
  • 1-2 msk sýrður rjómi
  • salt og pipar
Chorizosalsa:
  • 3-4 msk furuhnetur eða saxaðar kasjúhnetur
  • ca 1 dl olífuolía
  • ca 150 gr chorizo pylsa, skorin í litla bita
  • 2-4 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð eða fínsöxuð
  • ca 1/4 rauður chili, fínsaxaður
  • 3 sólþurrkaðir tómatar, fínsaxaðir
  • sítrónusafi
  • ferskt timjan, fínsaxað

Best er að byrja á því að saxa og skera hráefnið í chorizosalsað.

Þorskurinn: Þorskurinn penslaður með blöndu af sítrónusafa og ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Fiskurinn er bakaður í ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til hann er fulleldaður.

Blómkálsmauk: Kartöflurnar og blómkálið er soðið í ósöltuðu vatni þar til hvor tveggja er orðið mjúkt, ca. 10-15 mínútur. Soðvatninu hellt af og smjöri stappað saman við kartöflurnar og blómkálið. Fyrir fínna mauk er hægt að nota töfrasprota eða matvinnsluvél. Maukið er smakkað til með sýrðum rjóma, salti og pipar.

Chorizosalsa: Furuhneturnar (eða kasjúhnetur) ristaðar á þurri pönnu og þær síðan lagðar til hliðar. Olíu bætt á pönnuna ásamt chorizo pylsu og hún látin malla í ca. eina mínútu. Þá er skarlottulauk, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og chili bætt út (magn eftir smekk). Þetta er látið malla á vægum hita í nokkrar mínútur. Að síðustu er hnetunum bætt út í ásamt timjan og salsað smakkað til með sítrónusafa.