Fiskur i satay- og kókossósu


IMG_3876

Undanfarna daga hefur sólin skinið á daginn og skyndilega tekur tekur maður eftir því hversu mikið fyrr er farið að birta en áður og hversu lengi það er bjart – dásamlegt! 🙂 Í fyrrakvöld fórum við bókasafnsfræði-vinkonurnar í leikhús og sáum Óskasteina. Þetta er annað árið sem við kaupum okkar ársmiða í leikhúsið. Það er svo ágæt leið til þess að hittast reglulega eftir að við hættum að umgangast daglega frá því að náminu lauk. Við stöllur erum frekar harðir leikhúsgagnrýnendur og erum eiginlega alltaf sammála í dómum okkar. Óskasteinar fékk nú bara fremur háa einkunn frá okkur öllum og við skemmtum okkur mjög vel á sýningunni – mælum með henni!

Ég mæli líka sannarlega með þessum fiskrétti sem ég gef uppskrift að í dag. Ég elda fisk einu sinni í viku sem er alltof sjaldan fyrir minn smekk. En ég tek tillit til barnanna sem fá fisk tvisvar í viku í skólanum og einnig til þeirrar staðreyndar að yngsta barnið er allt annað en fiskunnandi svo vægt sé til orða tekið! Það er kannski ekki hefðbundið að nota satay sósu (hnetusósu) með fiski en svo ákaflega gott. Mér finnst pönnusteikt grænmeti algjört sælgæti og það smellpassar í þennan rétt. Það er svo mikið grænmeti í réttinum að ég var hvorki með kartöflur né hrísgrjón, þess þarf ekkert. Punkturinn yfir i-ið er svo smjörsteikta spínatið með hvítlauki. Ef þið hafið ekki prófað slíkt þá er kominn tími til! Ég prófaði að smjörsteikja spínat í fyrsta sinn þegar ég gerði þessa uppáhalds laxauppskrift. Síðan þá hef ég smjörsteikt spínat með öllum þeim matréttum sem mér dettur í hug. Sérstaklega er það þó gott með fiski. Spínat verður fljótt fremur „þreytt“ og óspennandi að nota í ferskt salat. Þá er upplagt að skella því þá pönnuna með til dæmis öðru grænmeti eða einu og sér. Hafa þarf þó eitt í huga, það verður sáralítið úr spínatinu þegar það er steikt. Heill 2-300 gramma poki passar  í litla skál eftir steikingu.

Uppskrift f. 4:

  • ca. 1100 g góður hvítur fiskur (ég notaði þorsk), skorinn í hæfilega stóra bita
  • 200 g satay sósa
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 paprika, skorin í tenginga
  • 1 kúrbítur, skorinn í teninga
  • 3-4 stórar gulrætur, skornar í teninga
  • 1 rauðlaukur, skorinn í bita
  • lítill brokkolí haus, skorinn í bita
  • salt & pipar
  • 1 tsk grænmetiskraftur (má sleppa)
  • ólífuolía og/eða smjör til steikingar

IMG_3844

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænmetið er steikt á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu þar til það fer að mýkjast. Þá er satay sósunni og kókosmjólkinni bætt út á pönnuna og blandað saman við grænmetið. Öllu er svo hellt yfir í eldfast mót og meira smjör bætt út á pönnuna. Fiskurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á báðum hliðum í 1-2 mínútur. Því næst er fiskurinn lagður ofan á grænmetið í eldfasta mótinu. IMG_3846 Sett inn í ofn í 5-10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn (fer mikið eftir þykkt fisksins). Borið fram með smjörsteiktu spínati með hvítlauki. IMG_3866

Smjörsteik spínat með hvítlauki:

  • 1 poki spínat (200 g)
  • 1 msk smjör
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð mjög smátt
  • salt & pipar

Spínatið og hvítlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

IMG_3848IMG_3852

Fiskur í satay- og kókossósuIMG_3855