Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða kjúklingasúpa


Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa IMG_6733Þessi réttur er býsna skemmtilegur því fyrir utan það að vera framúrskarandi gómsætur þá er hægt að útfæra hann á tvo vegu. Ég byrjaði á því að prófa mig áfram með kjúklingasúpu. Þegar ég fór að smakka hana til þá sá ég í hendi mér að núðlur færu feikilega vel með þessum súpugrunni. Ég get satt að segja ekki komist að niðurstöðu um hvor útfærslan er betri – ég elda þær alltaf til skiptis því báðar eru lostgæti. Það kemur á óvart hversu mikið núðlurnar breyta súpunni. Ég læt ykkur um að velja hvort þið viljið ljúffenga kjúklingasúpu eða kræsilegan núðlurétt.

IMG_6712

IMG_6726Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa f. 4

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, afþýddar og skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 lítil eða ½ stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítil gul eða ½ stór paprika, skorin í bita
  • 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 600 ml kjúklingakraftur (600 ml sjóðandi vatn + 3 tsk kjúklingakraftur frá Oscar)
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 dl sweet chili dip sauce
  • 2/ 3 dl fersk steinselja, söxuð smátt
  • 1/2 -1 tsk paprika (krydd)
  • ¼ -1/2 tsk chili krydd (t.d. chili explosion eða chili duft)
  • 150 g medium egg núðlur frá Blue Dragon (ef útbúa á núðluréttinn)
  • ca 200 g brokkolí, skorið í bita
  • saltflögur og grófmalaður svartur pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti og laukur steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er sveppum, hvítlauki, chili pipar og papriku bætt út í og steikt í smá stund. Því næst er Philadelphia ostinum, kjúklingakraftinum, rjómanum, sweet chili sósunni, steinseljunni og kryddunum bætt út í og látið malla í 2-3 mínútur. Svo er kjúklingum bætt út í, suðan látin

koma upp og látið malla í um það bil 6-8 mínútur eða þar til kjúklingur er hér um bil eldaður í gegn. Að lokum er brokkolí bætt út og látið malla í 4-5 mínútur til viðbótar. Ef útbúa á núðluréttinn er núðlunum bætt út með brokkolíinu og látið malla þar til núðlurnar eru passlega soðnar. Smakkað til með salti, pipar og papriku og chili kryddi eftir smekk.

IMG_6707

IMG_6731

Núðlur með kjúklingi og sveppum


 

Þessi réttur er einn af þeim sem er í uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni, meira að segja hjá yngsta barninu sem er líklega á toppi ferils síns í matvendni (vonandi!)! Henni finnst fiskur vondur, allt dökkt kjöt, skyr, jógúrt, bananar, hún er lítið hrifin af brauði, borðar ekki smjör … þetta er svona það sem ég man í svipinn! Hins vegar er það fremur óvenjulegt að hún er hrifin af flestu grænmeti og toppurinn á tilverunni hjá henni er ekki að fara á nammibarinn heldur á salatbarinn í Hagkaup! 🙂 Reglan hér á heimilinu er að enginn er neyddur til að borða en það verður að smakka allan mat, þó ekki sé nema einn bita. Við reynum að eyða ekki mikilli orku í matvendnina, ég hef nefnilega séð þróunina á eldri börnunum. Frá því að þau vilji ekki borða þetta og hitt, að matnum megi ekki blanda saman og svo framvegis þar til að smekkurinn breytist smátt og smátt og þau borði allan mat. En þetta er allavega skotheldur réttur jafnt fyrir matvandna sem og aðra! Ekki skemmir fyrir að hann er mjög fljótlegur.

Uppskrift f. 3

  • 2 msk olía
  • 1 rauðlaukur
  • 2-3 cm bútur af engifer
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 2 kjúklingabringur
  • 250 gr sveppir
  • 2 msk sojasósa
  • 2 pakkar núðlur með nautakjötsbragði (,,instant“ núðlurnar)
  • kryddið úr núðlupökkunum
  • 2 hnefafyllir af spínati

Skerið rauðlaukinn í tvennt og hvorn helming um sig síðan í þunnar sneiðar. Saxið engifer og hvítlauk mjög smátt. Skerið kjúklingabringurnar í mjög þunnar sneiðar þvert yfir. Skerið sveppina í sneiðar. Hitið pönnu vel og setjið 1 msk af olíu á hana. Steikið rauðlauk, engifer og hvítlauk í 1-2 mínútur við góðan hita en takið það svo af pönnunni með gataspaða og setjið á disk. Bætið 1 msk af olíu á pönnuna. Setjið svo kjúklingasneiðarnar á pönnuna og  steikið þar til þær hafa allar tekið lit og hrærið oft á meðan til að snúa þeim. Bætið sveppunum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur í viðbót. Setjið laukblönduna aftur á pönnuna, ásamt sojasósunni, stráið kryddinu úr núðlupökkunum yfir, hellið smáskvettu af vatni á pönnuna og látið sjóða við meðalhita í 2-3 mínútur. Á meðan, setjið núðlurnar í skál, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í um 3 mínútur. Hellið þá núðlunum í sigti og látið renna vel af þeim. Setjið spínatið á pönnuna, hrærið og látið standa í mínútu. Hvolfið núðlunum í skál, hellið öllu af pönnunni yfir og blandið vel.