Núðlur með kjúklingi og sveppum


 

Þessi réttur er einn af þeim sem er í uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni, meira að segja hjá yngsta barninu sem er líklega á toppi ferils síns í matvendni (vonandi!)! Henni finnst fiskur vondur, allt dökkt kjöt, skyr, jógúrt, bananar, hún er lítið hrifin af brauði, borðar ekki smjör … þetta er svona það sem ég man í svipinn! Hins vegar er það fremur óvenjulegt að hún er hrifin af flestu grænmeti og toppurinn á tilverunni hjá henni er ekki að fara á nammibarinn heldur á salatbarinn í Hagkaup! 🙂 Reglan hér á heimilinu er að enginn er neyddur til að borða en það verður að smakka allan mat, þó ekki sé nema einn bita. Við reynum að eyða ekki mikilli orku í matvendnina, ég hef nefnilega séð þróunina á eldri börnunum. Frá því að þau vilji ekki borða þetta og hitt, að matnum megi ekki blanda saman og svo framvegis þar til að smekkurinn breytist smátt og smátt og þau borði allan mat. En þetta er allavega skotheldur réttur jafnt fyrir matvandna sem og aðra! Ekki skemmir fyrir að hann er mjög fljótlegur.

Uppskrift f. 3

  • 2 msk olía
  • 1 rauðlaukur
  • 2-3 cm bútur af engifer
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 2 kjúklingabringur
  • 250 gr sveppir
  • 2 msk sojasósa
  • 2 pakkar núðlur með nautakjötsbragði (,,instant“ núðlurnar)
  • kryddið úr núðlupökkunum
  • 2 hnefafyllir af spínati

Skerið rauðlaukinn í tvennt og hvorn helming um sig síðan í þunnar sneiðar. Saxið engifer og hvítlauk mjög smátt. Skerið kjúklingabringurnar í mjög þunnar sneiðar þvert yfir. Skerið sveppina í sneiðar. Hitið pönnu vel og setjið 1 msk af olíu á hana. Steikið rauðlauk, engifer og hvítlauk í 1-2 mínútur við góðan hita en takið það svo af pönnunni með gataspaða og setjið á disk. Bætið 1 msk af olíu á pönnuna. Setjið svo kjúklingasneiðarnar á pönnuna og  steikið þar til þær hafa allar tekið lit og hrærið oft á meðan til að snúa þeim. Bætið sveppunum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur í viðbót. Setjið laukblönduna aftur á pönnuna, ásamt sojasósunni, stráið kryddinu úr núðlupökkunum yfir, hellið smáskvettu af vatni á pönnuna og látið sjóða við meðalhita í 2-3 mínútur. Á meðan, setjið núðlurnar í skál, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í um 3 mínútur. Hellið þá núðlunum í sigti og látið renna vel af þeim. Setjið spínatið á pönnuna, hrærið og látið standa í mínútu. Hvolfið núðlunum í skál, hellið öllu af pönnunni yfir og blandið vel.