Ég veit að þetta er klisjukennt en ég get svarið það, mér finnst stöðugt vera helgi – tíminn líður svo hratt! Núna eru haustveikindi skollin á hérna í Kleifarselinu. Greyið Vilhjálmur minn fékk yfir 40 stiga hita í marga daga og það kom í ljós að hann var kominn með bæði lungnabólgu og eyrnabólgu. Nú krossleggjum við fingur að restin af fjölskyldunni sleppi við svona leiðindarveikindi. Eiga ekki einmitt kjúklingasúpur að vera svo góðar fyrir veikt fólk? Ég bjó til svo góða kjúklingasúpu í vikunni sem leið. Þó svo að hún hafi ekki náð ein og sér að lækna lungnabólgu þá nutu allir fjölskyldumeðlimar þessarar ljúffengu súpu. Súpan er dálítið sterk (styrkleikinn fer þó eftir smekk) og þá finnst mér afar gott að hafa eitthvað sætt með í súpunni, að þessu sinni notaði ég epli og ananas í súpuna og fannst það súpergott!
Uppskrift:
- ca 700 g kjúklingur (lundir, bringur eða úrbeinuð læri), skorinn í litla bita
- smjör til steikingar
- salt og pipar
- 1 msk karrí
- 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður fínt
- 1 stórt epli, afhýtt, kjarnhreinsað og skorið í litla bita
- lítil dós ananashringir (227 gramma dós), skornir í litla bita + safinn
- 1/2 -1 rauður chili pipar, saxaður fínt (gott að prófa sig áfram með magnið, chili piparinn getur verið misstór og missterkur)
- 1 dós niðursoðnir tómatar (411 g – ég notaði frá Hunts með basilku, hvítlauk og oregano)
- 1 dós kókosmjólki (400 ml)
- 2-3 dl rjómi
- 1 msk + 1/2 msk kjúklingakraftur
- ferskt kóríander, saxaður(má sleppa)
- sýrður rjómi til að bera fram með súpunni
Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur upp úr smjöri á pönnu. Á meðan hann er steiktur er 1/2 msk af kjúklingakrafti dreift yfir kjúklinginn. Hann er svo steiktur þar til hann hefur náð góðum steikingalit. Þá er hann tekinn af pönnunni og settur til hliðar. Smjör og/eða olía er set í stóran pott. Eplabitar, ananasbitar, laukur, karrí og chili pipar sett út í pottinn og steikt á meðlahita þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er tómötum í dós, kókosmjólk, ananassafanum og rjóma ásamt 1 msk af kjúklingakrafti bætt út í og súpan látin malla í 10 mínútur. Í lokinn er kjúklingnum bætt út og súpan smökkuð til með salti og pipar (og jafnvel chilidufti eða flögum fyrir þá sem vilja sterkari súpu). Súpan er borin fram með ferskum kóríander og sýrðum rjóma. Ekki er verra að bera fram með súpunni nýbakað Naanbrauð!
Namm, þarf að prófa mjög fljótlega 🙂
elska kjúklingasúpur og geri mjög oft mína eigin …en ákvað að prufa þessa þar sem ég átti allt í hana og hún var bara dásemdin ein…Takk fyrir að deila með okkur þessum flottu uppskriftum 🙂
En hvað það var gaman að heyra Jóhanna, takk fyrir þessa góðu kveðju! 🙂
Búin að heyra svo margt jákvætt um „eldhússögur“. Ákvað að kíkja inn og leitaði að sjálfsögðu að kjúklingasúpum – þær eru í uppáhaldi hjá mér ! Þessi er svakalega auðveld og góð, hægt að stjórna styrkleikanum eftir smekk og svo er hún líka svo mikið fyrir augað 🙂 Takk fyrir mig !!
Frábært að heyra þetta Eva! 🙂 Kærar þakkir fyrir góða kveðju.
var að prófa tókst vel og er mjög góð