Afmæliskaka


Afmæliskaka

Hann Vilhjálmur minn átti afmæli um daginn og að sjálfsögðu var haldin afmælisveisla fyrir fjölskylduna. Bekkjarafmælið fær að bíða þar til seinna í sumar þegar allir eru komnir úr sumarfríi. Vilhjálmur vildi fá afmælisköku fyllta með Skittles sælgæti og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk.

IMG_1453Fyrir um það bil ári síðan setti ég inn hér uppskrift af skúffuköku. Þessi uppskrift hefur legið lágt og ekki verið mikið deilt. Hins vegar er þetta sú uppskrift á blogginu sem hefur flestar stjörnur og þriðja mest lesna uppskriftin hér á Eldhússögum frá upphafi. Ég er ægilega ánægð með þessa uppskrift sem ég þróaði sjálf og af ummælunum að dæma þá eru fleiri sammála mér. Ég notaði þessa uppskrift til þess að búa til tvöfalda súkkulaðiköku sem óvænt hafði að geyma sælgæti! Það var afar vinsælt. Kökuna skreyttum við með litlum uppblásnum vatnsblöðrum á grillpinnum, nokkuð sem mér fannst afar afmælislegt og skemmtilegt.

IMG_1393

Þegar ég spurði dóttur mína af hverju hún þyrfti endilega að gretta sig á hverri einustu mynd þá svaraði hún því til að það væri kærkomin tilbreyting frá því að brosa alltaf á myndum! 🙂

IMG_1427Fánaborðan fékk ég í Søstrene Grene fyrir nokkru síðan. Okkur fannst hann svo skemmtilegur að hann hékk uppi í þónokkurn tíma eftir afmælið!

IMG_1474Krakkarnir byrjuðu öll á mini-pizzunum, þær eru alltaf jafn vinsælar.

IMG_1475Ávaxtaspjótin eru ómissandi.

IMG_1462Mamma, amma og Inga frænka flottar!

IMG_1495Þessar voru spenntar fyrir litlu blöðrunum og eru báðar „fjögurra ára!“

IMG_1508Uppskriftina af afmæliskökunni hér að neðan er í þeim hlutföllum að hún passar í tvö 24 cm form eða í stóra ofnskúffu.

Uppskrift:

  • 3 dl sykur
  • 3 dl púðursykur
  • 250 g smjör, brætt
  • 3 egg
  • 7 1/2 dl hveiti
  • 1 1/2 tsk. matarsódi
  • 1 1/2 tsk. lyftiduft
  • 1 1/2 dl vatn, sjóðandi heitt
  • 4 tsk. vanillusykur
  • 1 1/2 dl. kakó, sigtað
  • 3 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • Skittles

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt. Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman öllum hráefnunum, fyrir utan vatnið,  þar til deigið verður slétt. Gætið þess að hræra ekki of lengi. Bætið heita vatninu við og hrærið í þar til það hefur blandast deiginu. Hellið deginu í tvö smurð bökunarform (24 cm) eða ofnskúffu  og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni. Ef notuð eru tvö kökuform og það á að fylla kökuna af sælgæti þá er skorið úr miðju kökunnar og hún fyllt af sælgæti. Kreminu smurt á milli kökubotnanna (bara að sælgætinu) og svo er kreminu smurt utan á kökuna.

IMG_1389

Súkkulaðikrem:

  • 225 smjör, mjúkt
  • 300 g flórsykur
  • 5 msk kakó
  • 3 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

Afmæliskaka

Súkkulaðiterta með söltu karamellukremi og afmæli Eldhússagna!


Súkkulaðiterta með saltri karamellu

Í dag er sérstakur dagur. Í fyrsta lagi er pabbi minn 65 ára í dag. En það þýðir líka að það er einmitt eitt ár síðan að ég opnaði þetta matarblogg. Fyrir einu ári síðan settist ég í stutta stund niður við tölvuna áður en ég fór í afmælisveisluna til pabba og stóð upp skömmu seinna sem matarbloggari. Á þeim tímapunkti var ég í fullkomri óvissu um hvað það myndi hafa í för með sér eða hvort ég myndi yfir höfuð endast í meira en einn dag sem matarbloggari!

blogg

Annað hefur komið á daginn, ég er hér enn og hef birt yfir 270 uppskriftir á þessu ári sem liðið er eða rúmlega fimm bloggfærslur í hverri viku. Enn ótrúlegri er sú staðreynd að fullt af fólki virðist hafa áhuga og ánægju af uppskriftunum mínum. Það er nokkuð sem gleður mig ósegjanlega mikið og er mér hvatning í að halda ótrauð áfram. Ég hefði líklega gefist upp fyrir löngu ef ég væri ekki með svona góða og skemmtilega lesendur eins og þið eruð! 🙂

blogg1

Það er líka svo gaman að sjá hversu mikil gróska er komin í íslensk matarblogg. Síðan ég byrjaði að blogga hafa bæst í hópinn mörg fleiri skemmtileg og bitastæð matarblogg hér á WordPress. Ég er sannfærð um að íslensk matarblogg eiga eftir að verða enn fleiri þegar fram líða stundir. Matarblogg bjóða upp á svo marga nýja og spennandi kosti þegar kemur að uppskriftum og mat. Í fyrsta lagi geta allir spreytt sig á matarbloggi, til þess þarf enga kokka- eða bakaramenntun, bara áhuga og vilja. Matarbloggin eru líka lifandi svæði þar sem lesendur geta rætt um matinn og uppskriftirnar, þeir geta deilt með sér ráðum og upplýsingum og þannig í raun stöðugt verið að þróa uppskriftirnar áfram.

blogg2

Í lok fyrsta mánaðarins sem ég bloggaði heimsóttu um það bil 60 lesendur í síðuna mína daglega. Mér fannst það ótrúlega margt fólk og ég skildi ekkert í að 60 manns hefðu fyrir því að heimsækja blogið mitt á hverjum degi. Í dag sækja 6-7000 gestir bloggið mitt daglega en sem mest hafa heimsóknirnar farið upp í 13 þúsund gesti á dag – næstum því jafn margir og kusu flokkinn Bjarta framtíð í síðustu kosningum eða 7% af kosningabærum Íslendingum! 😉 Það er dálítið undarleg tilfinning og óraunverulegt að fara varla á mannamót án þess að ég hitti ókunnugt fólk sem segist lesa bloggið mitt. Bloggið hefur fært mér ótrúlega mörg verkefni sem mig hefði aldrei órað fyrir að mér myndu bjóðast. Uppskriftir frá mér hafa birst í Vikunni, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og að auki er ég með fastan uppskriftaþátt hjá N4 dagskránni sem kemur út vikulega fyrir norðan. Ég hef tekið að mér að elda fyrir 40 manna  árshátíð og núna er ég að vinna að stóru og spennandi verkefni sem kemur út á prenti í náinni framtíð. Bloggið hefur því leitt mig á algjörlega nýjar og spennandi slóðir!

IMG_0281

Í tilefni dagsins finnst mér við hæfi að koma með krassandi uppskrift af afmælisköku! Ég hef beðið spennt eftir rétta tilefninu að birta þessa frábæru uppskrift af einni þeirri bestu tertu sem ég hef smakkað – tilefnið getur ekki orðið betra en í dag! 🙂 Þetta er himnesk súkkulaðiterta með söltu karamellukremi. Kremið er draumkennt marengskrem með dulce de leche saltri karamellu og kakan umvafin þykku og girnilegu súkkulaðikremi. Sjálf kakan er yndislega bragðgóð og er næstum því eins og súkkulaðifrauð. Þið bara verðið að prófa þessa kræsingu! Það lítur kannski út fyrir að kakan sé flókin en hún er það í raun ekki, kannski dálítið tímafrek en algjörlega þess virði!

IMG_0310

IMG_0307

IMG_0304

Uppskrift: 

Kökubotnar

  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

IMG_0273

IMG_0291

Marengskrem með saltri karamellu

  • 160 g eggjahvítur (ca. 5 egg)
  • 200 g sykur
  • 400 g smjör, vel við stofuhita
  • 1/2 tsk maldon salt (eða annað flögusalt)
  • 2 dl dulce de leche karamellusósa (Hér eru upplýsingar um dulce de leche sósuna, hana er hægt að kaupa tilbúna í t.d. Þinni verslun, Hagkaup og fleiri sérverslununum)
  • 1/2 tsk vanillusykur
Eggjahvítur og sykur sett í hrærivélaskálina. Skálin er sett yfir vatnsbað, þ.e. sett ofan í pott með sjóðandi vatni. Blandan er hituð og hrært í stöðugt á meðan með þeytara. Þegar sykurinn er uppleystur og blandan farin að hitna (komin í 65 gráður ef notaður er mælir) er skálin sett á hrærivélina og þeytt þar til blandan er stífþeytt, glansandi og orðin köld (ég þeytti í ca. 10 mínútur). Þá er þeytaranum skipt út fyrir hrærarann. Smjörinu (verður að vera við góðan stofuhita) er bætt út í og hrært á lægstu stillingunni. Á meðan smjörið er að blandast við marengsinn getur litið út fyrir að hann skilji sig en óttist ekki, þetta blandast allt vel saman að lokum! Þegar blandan nær um það bil sömu áferð og majónes má auka hraðan, stilla á millihraða og hræra í smástund til viðbótar. Því næst er slökkt á hrærivélinni og dulce de leche sósunni, saltinu og vanillusykrinum er bætt út í og síðan hrært á lægsta hraða, hækka svo smá saman í millihraða. Nauðsynlegt er að smakka svo til kremið, ég til dæmis bætti við dulce de leche sósu.
Krem

Súkkulaðikrem:

  • 45 g kakó
  • 90 ml sjóðandi vatn
  • 340 g smjör við stofuhita
  • 65 g flórsykur
  • 450 g suðusúkkulaði

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og leyft að kólna dálítið. Þá er kakó og sjóðandi vatni hrært saman með gaffli þar til blandan er slétt. Smjörið er hrært með flórsykrinum þar til blandan verður létt og ljós, í minnst 5 mínútur. Því næst er súkkulaðinu hrært saman við blönduna og í lokin er kakóblöndunni hrært út í kremið. Ef kremið er þunnt þá er gott að geyma það í kæli í smástund til að það þykkni.

IMG_0312

Tertan sett saman:
Einn kökubotn er lagður á kökudisk og góðu magni af marengskremi er smurt á botninn. Þetta er endurtekið með hina tvo botnana. Í lokin er restinni af kreminu smurt utan um kökuna alla. Þá er kakan sett í kæli í ca. 20 mínútur þar til kremið hefur stífnað dálítið. Því næst er súkkulaðikreminu smurt utan um kökuna og kakan sett í kæli í nokkra tíma (best yfir nóttu) til að brjóta sig. Gott er að taka kökuna út allavega einum tíma áður en hún er
borin fram.
IMG_0294
Súkkulaðiterta með saltri karamellu
IMG_0293

Besta skúffukakan


Ég er dálítið spennt að setja þessa uppskrift hérna inn! Ég fer sjaldnast nákvæmlega eftir mataruppskriftum og breyti þeim oft og iðulega. En kökuuppskriftir eru viðkvæmari fyrir breytingum og ekki oft sem ég breyti þeim mikið. Ég hef hins vegar verið að prófa mig áfram með skúffukökur. Allir vilja eiga eina feiknagóða uppskrift af skúffuköku og ég hef prófað margar slíkar til að finna hina einu og sönnu, en án árangurs. Vissulega eru margar skúffukökur ljómandi góðar en undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með mína eigin uppskrift og er loksins komin niður á eina sem ég er mjög ánægð með. Þessi skúffukaka er bragðgóð og mjúk, sú besta sem ég hef smakkað hingað til. Ég held að einn af göldrunum við hana sé súrmjólkin með karamellubragði!

Jóhanna Inga yngsta skottið okkar átti 8 ára afmæli um daginn og þá var auðvitað bökuð skúffukaka. Reyndar var ég ekki búin að fullþróa uppskriftina mína þá, það gerðist nú bara í gær! En ágætis skúffukaka var þó bökuð á afmælinu og í ár var yngsta barnið með afar þægilega ósk um afmælistertu. Engar flóknar fígúrur eða kastalar, brúðarterta skyldi það vera! 🙂 Hún átti að vera með hvítu kremi, blómum og skrauti. Jóhanna Inga valdi sjálf af kostgæfni allt skrautið á tertuna og við mæðgur hjálpuðumst að með að skreyta brúðarterturnar! Þær voru tvær, önnur fyrir 20 stelpna bekkjarafmæli og hin fyrir fjölskylduafmælið.

Heimilisfaðirinn sem er liðtækur á grillinu en er ekkert mikið í eldamennskunni annars átti sína 15 mínútna frægð við afmælisundirbúninginn! Honum var afhent melóna ásamt skurðarhníf og gefinn fyrirmæli um útskurð. Verandi fjarska góður skurðlæknir fórst honum þetta verk auðvitað snilldar vel úr hendi og út kom þessi skemmtilegi broddgöltur:

Þessi krúttulegi broddgöltur fer inn í hugmyndabankann fyrir afmæli sem er hér.

Uppskriftin af skúffukökunni hér að neðan passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm. Ég myndi gera uppskriftina eina og hálfa, jafnvel tvöfalda fyrir stóra ofnskúffu. Ég notaði uppskriftina af kökukreminu fyrir líka fyrir hvítu brúðartertuna hennar Jóhönnu, ég sleppti bara kakóinu og setti dálítin vanillusykur í staðinn þar sem að hún vildi hvítt krem. Ég vil taka það fram að kökuuppskriftin er mín en uppskriftina af kökukreminu fékk ég úr Gestgjafanum.

Uppskrift (fyrir form sem er 25×35 cm, fyrir ofnskúffu þarf 1 1/2 uppskrift):

  • 2 dl sykur
  • 2 dl púðursykur
  • 2 egg
  • 170 gr smjör, brætt
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 3 tsk. vanillusykur
  • 1 dl. kakó, sigtað
  • 2 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • 1 dl vatn, sjóðandi heitt

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt.

Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Smjöri, púðursykri og sykri hrært mjög vel saman. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu. Því næst er þurrefnunum blandað saman í skál annars vegar og súrmjólk og sjóðandi heitu vatni í aðra skál hins vegar. Um það bil helmingur af blöndunum úr hvorri skál fyrir sig er bætt út í deigið og hrært í stutta stund, þá er restinni úr báðum skálunum bætt út í deigið og hrært. Athugið að hræra eins stutt og hægt er, bara þar til hráefnin hafa blandast saman, ekki lengur. Deiginu er hellt í smurt smurt bökunarform eða ofnskúffu (þessi uppskrift passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm, fyrir ofnskúffu þarf að gera eina og hálfa uppskrift) og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni.

Kökukrem:

  • 150 gr smjör, mjúkt
  • 200 gr flórsykur
  • 4,5 msk kakó
  • 2 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.