Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi


Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremiAfmælisveisluþema: froskurinn Kermit!

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi

Í dag héldum við upp á níu ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Við þau tímamót áttaði ég mig á því að það eru ekki svo mörg ár eftir hjá mér í barnaafmælisgeiranum sem er dálítið skrítin tilfinning eftir að hafa verið í 20 ár í þeim geira!

IMG_7014

Jóhanna Inga er afar hrifin af Prúðuleikurunum og langaði að hafa Kermit þema í afmælinu.

IMG_6946

Ég fann enga slíka afmælisdiska en það er líka miklu skemmtilegra að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn (*hóst* þ.e. gúggla!). Ég notaði einfalda græna plastdiska og skeiðar úr Partíbúðinni með litlum hvítum servíettum. Ég keypti líka glös í stíl en notaði þau sem poppílát fyrir hvern og einn gest. Glösin skreytti ég með grænum kreppappír sem var klipptur út eins og kraginn hjá Kermit – Elfar er svo góður með skærin að hann var settur í það verkefni.

IMG_6952

Þegar ég ætlaði að nota sama kreppappírinn til þess að klæða appelsínflöskurnar var Jóhanna ekki nógu sátt því hún taldi þetta alls ekki rétta litinn á Kermit. Mamma vinkonu Jóhönnu sem er kjólameistari og snillingur á saumavélina bjargaði okkur með því að sauma svona fínan strokk úr teygjuefni utan um flöskurnar í rétta græna litnum (samkvæmt Kermit-sérfræðingnum, afmælisbarninu!). Jóhanna Inga klippti svo út augu, teiknaði á þau og límdi á strokkinn. Heliumskorturinn var liðinn hjá og við keyptum nokkrar grænar og hvítar blöðrur með helíum í partíbúðinni.

IMG_7004

Veitingarnar voru auðvitað líka í stíl við Kermit. Ég bjó til afmælisköku með mynd af Kermit (kökuuppskriftin hér).

IMG_6969

Pabbinn á heimilinu útbjó ávaxtaspjót og bjó til Kermit úr epli. Hann notaði sykurpúða fyrir augu sem Jóhanna Inga teiknaði á með matarlitapenna úr Allt í köku í Ármúla og jarðaber fyrir munn.

IMG_6947

IMG_6955

Einnig bakaði ég muffins með grænu kremi. Ég notaði Mentos fyrir augu og Jóhanna Inga teiknaði á það augu matarlitarpennanum. Afar auðvelt í framkvæmd en gefur skemmtilegar muffins.

IMG_6948

IMG_7092

Að auki voru pizzasnúðar í boði og svo auðvitað eplakaka sem er í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu fyrir utan hinar kökurnar og brauðréttina fyrir fullorðna fólkið.

IMG_6994

Ég veit varla hvaða uppskrift ég ætti að setja hér inn fyrst en ég byrja á muffins kökunum. Þær eru afskaplega einfaldar en mjög bragðgóðar. Þetta er góður muffinsgrunnur sem hægt er að nota einan og sér eða bæta við t.d. eplabitum sem velt hefur verið upp úr kanelsykri, bláberjum eða öðrum berjum, súkkulaðibitum eða hverju því sem hugurinn girnist. Kremið er afskaplega hentugt fyrir lituð krem og býsna gott, galdurinn við hvað það er bragðgott held ég að sé sírópið!

Uppskrift (gefur 20 muffins):

 • 100 g smjör
 • 2 egg
 • 2 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 dl mjólk

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið er brætt og látið kólna, þá er mjólkinni bætt út í. Egg og sykur er þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, lyftidufti og vanillusykri blandað saman. Þessari þurrblöndu er blandað smátt og smátt út í eggjablöndunum á víxl við smjör/mjólkurbönduna. Deiginu er skipt á milli um það bil 20 muffins forma (fer eftir stærð) en formin eiga að vera fyllt til 2/3. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Smjörkrem með vanillu:

 • 150 g smjör (við stofuhita)
 • 200 g flórsykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 msk síróp
 • matarlitur

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Ef kremið á að hafa lit er matarlitnum bætt út í að síðustu. Smyrjið kreminu á kaldar muffins. Ef útbúa á frosk líkt og á myndunum þá er, grænn matarlitur settur í kremið og hvítt Mentos notað fyrir augu. Það er teiknað á augum með svörtum matarlits penna úr Allt í köku, Ármúla.

IMG_7098

IMG_7075

Afmæliskaka


Afmæliskaka

Hann Vilhjálmur minn átti afmæli um daginn og að sjálfsögðu var haldin afmælisveisla fyrir fjölskylduna. Bekkjarafmælið fær að bíða þar til seinna í sumar þegar allir eru komnir úr sumarfríi. Vilhjálmur vildi fá afmælisköku fyllta með Skittles sælgæti og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk.

IMG_1453Fyrir um það bil ári síðan setti ég inn hér uppskrift af skúffuköku. Þessi uppskrift hefur legið lágt og ekki verið mikið deilt. Hins vegar er þetta sú uppskrift á blogginu sem hefur flestar stjörnur og þriðja mest lesna uppskriftin hér á Eldhússögum frá upphafi. Ég er ægilega ánægð með þessa uppskrift sem ég þróaði sjálf og af ummælunum að dæma þá eru fleiri sammála mér. Ég notaði þessa uppskrift til þess að búa til tvöfalda súkkulaðiköku sem óvænt hafði að geyma sælgæti! Það var afar vinsælt. Kökuna skreyttum við með litlum uppblásnum vatnsblöðrum á grillpinnum, nokkuð sem mér fannst afar afmælislegt og skemmtilegt.

IMG_1393

Þegar ég spurði dóttur mína af hverju hún þyrfti endilega að gretta sig á hverri einustu mynd þá svaraði hún því til að það væri kærkomin tilbreyting frá því að brosa alltaf á myndum! 🙂

IMG_1427Fánaborðan fékk ég í Søstrene Grene fyrir nokkru síðan. Okkur fannst hann svo skemmtilegur að hann hékk uppi í þónokkurn tíma eftir afmælið!

IMG_1474Krakkarnir byrjuðu öll á mini-pizzunum, þær eru alltaf jafn vinsælar.

IMG_1475Ávaxtaspjótin eru ómissandi.

IMG_1462Mamma, amma og Inga frænka flottar!

IMG_1495Þessar voru spenntar fyrir litlu blöðrunum og eru báðar „fjögurra ára!“

IMG_1508Uppskriftina af afmæliskökunni hér að neðan er í þeim hlutföllum að hún passar í tvö 24 cm form eða í stóra ofnskúffu.

Uppskrift:

 • 3 dl sykur
 • 3 dl púðursykur
 • 250 g smjör, brætt
 • 3 egg
 • 7 1/2 dl hveiti
 • 1 1/2 tsk. matarsódi
 • 1 1/2 tsk. lyftiduft
 • 1 1/2 dl vatn, sjóðandi heitt
 • 4 tsk. vanillusykur
 • 1 1/2 dl. kakó, sigtað
 • 3 1/2 dl súrmjólk með karamellu
 • Skittles

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt. Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman öllum hráefnunum, fyrir utan vatnið,  þar til deigið verður slétt. Gætið þess að hræra ekki of lengi. Bætið heita vatninu við og hrærið í þar til það hefur blandast deiginu. Hellið deginu í tvö smurð bökunarform (24 cm) eða ofnskúffu  og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni. Ef notuð eru tvö kökuform og það á að fylla kökuna af sælgæti þá er skorið úr miðju kökunnar og hún fyllt af sælgæti. Kreminu smurt á milli kökubotnanna (bara að sælgætinu) og svo er kreminu smurt utan á kökuna.

IMG_1389

Súkkulaðikrem:

 • 225 smjör, mjúkt
 • 300 g flórsykur
 • 5 msk kakó
 • 3 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

Afmæliskaka

Hugmyndir fyrir barnaafmæli!


Ég hef lengi verið að hugsa um að taka saman það helsta sem ég hef gert fyrir barnaafmæli undanfarin 18 ár. Þessi 15 ár sem við bjuggum í Svíþjóð fengu börnin tvær afmælisveislur, bæði á Íslandi og í Svíþjóð, þannig að þetta eru orðnar nokkuð margar afmælisveislur í heildina! Samt er maður alltaf dálítið hugmyndalaus þegar kemur að undirbúningi fyrir barnaafmæli og man til dæmis ekki milli ára hvað maður hafði árið áður sem var svo sniðugt! Það getur því verið þægilegt að hafa einhverskonar yfirlit yfir sniðuga rétti og skemmtilegar kökur. Ég get bakað þokkalega góðar kökur en ég er alls enginn listamaður, gæti varla teiknað Óla prik þótt líf mitt lægi við, í alvöru! Þannig að afmæliskökurnar mínar eru engin listaverk. Auk þess eru allir að gera þvílíkt flottar fondant kökur í dag en þegar ég var að gera sem flestar afmæliskökur var fondant ekki komið til sögunnar, ég var alltaf að basla við smjörkrem! Ég ætla að láta myndirnar tala, sumar reyndar „tala“ ekkert sérstaklega fallega þar sem að nær allar eru teknar fyrir tíma þessa blogs og þar með ekkert verið að mynda matinn sérstaklega. Ég stefni svo á að fara í gegnum fleiri afmælismyndir og afmælishugmyndir almennt sem ég hef sankað að mér og bæta þeim við þetta innlegg jafnt og þétt.