Í dag er sérstakur dagur. Í fyrsta lagi er pabbi minn 65 ára í dag. En það þýðir líka að það er einmitt eitt ár síðan að ég opnaði þetta matarblogg. Fyrir einu ári síðan settist ég í stutta stund niður við tölvuna áður en ég fór í afmælisveisluna til pabba og stóð upp skömmu seinna sem matarbloggari. Á þeim tímapunkti var ég í fullkomri óvissu um hvað það myndi hafa í för með sér eða hvort ég myndi yfir höfuð endast í meira en einn dag sem matarbloggari!
Annað hefur komið á daginn, ég er hér enn og hef birt yfir 270 uppskriftir á þessu ári sem liðið er eða rúmlega fimm bloggfærslur í hverri viku. Enn ótrúlegri er sú staðreynd að fullt af fólki virðist hafa áhuga og ánægju af uppskriftunum mínum. Það er nokkuð sem gleður mig ósegjanlega mikið og er mér hvatning í að halda ótrauð áfram. Ég hefði líklega gefist upp fyrir löngu ef ég væri ekki með svona góða og skemmtilega lesendur eins og þið eruð! 🙂
Það er líka svo gaman að sjá hversu mikil gróska er komin í íslensk matarblogg. Síðan ég byrjaði að blogga hafa bæst í hópinn mörg fleiri skemmtileg og bitastæð matarblogg hér á WordPress. Ég er sannfærð um að íslensk matarblogg eiga eftir að verða enn fleiri þegar fram líða stundir. Matarblogg bjóða upp á svo marga nýja og spennandi kosti þegar kemur að uppskriftum og mat. Í fyrsta lagi geta allir spreytt sig á matarbloggi, til þess þarf enga kokka- eða bakaramenntun, bara áhuga og vilja. Matarbloggin eru líka lifandi svæði þar sem lesendur geta rætt um matinn og uppskriftirnar, þeir geta deilt með sér ráðum og upplýsingum og þannig í raun stöðugt verið að þróa uppskriftirnar áfram.
Í lok fyrsta mánaðarins sem ég bloggaði heimsóttu um það bil 60 lesendur í síðuna mína daglega. Mér fannst það ótrúlega margt fólk og ég skildi ekkert í að 60 manns hefðu fyrir því að heimsækja blogið mitt á hverjum degi. Í dag sækja 6-7000 gestir bloggið mitt daglega en sem mest hafa heimsóknirnar farið upp í 13 þúsund gesti á dag – næstum því jafn margir og kusu flokkinn Bjarta framtíð í síðustu kosningum eða 7% af kosningabærum Íslendingum! 😉 Það er dálítið undarleg tilfinning og óraunverulegt að fara varla á mannamót án þess að ég hitti ókunnugt fólk sem segist lesa bloggið mitt. Bloggið hefur fært mér ótrúlega mörg verkefni sem mig hefði aldrei órað fyrir að mér myndu bjóðast. Uppskriftir frá mér hafa birst í Vikunni, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og að auki er ég með fastan uppskriftaþátt hjá N4 dagskránni sem kemur út vikulega fyrir norðan. Ég hef tekið að mér að elda fyrir 40 manna árshátíð og núna er ég að vinna að stóru og spennandi verkefni sem kemur út á prenti í náinni framtíð. Bloggið hefur því leitt mig á algjörlega nýjar og spennandi slóðir!
Í tilefni dagsins finnst mér við hæfi að koma með krassandi uppskrift af afmælisköku! Ég hef beðið spennt eftir rétta tilefninu að birta þessa frábæru uppskrift af einni þeirri bestu tertu sem ég hef smakkað – tilefnið getur ekki orðið betra en í dag! 🙂 Þetta er himnesk súkkulaðiterta með söltu karamellukremi. Kremið er draumkennt marengskrem með dulce de leche saltri karamellu og kakan umvafin þykku og girnilegu súkkulaðikremi. Sjálf kakan er yndislega bragðgóð og er næstum því eins og súkkulaðifrauð. Þið bara verðið að prófa þessa kræsingu! Það lítur kannski út fyrir að kakan sé flókin en hún er það í raun ekki, kannski dálítið tímafrek en algjörlega þess virði!
Uppskrift:
Kökubotnar
- 2 egg
- 2 dl sterkt kaffi
- 2½ dl súrmjólk
- 1,25 dl matarolía
- 200 g hveiti
- 420 g sykur
- 85 g kakó
- 1 tsk lyftiduft
- 2 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 1 tsk vanillusykur
Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.
Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.
Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.
Marengskrem með saltri karamellu
- 160 g eggjahvítur (ca. 5 egg)
- 200 g sykur
- 400 g smjör, vel við stofuhita
- 1/2 tsk maldon salt (eða annað flögusalt)
- 2 dl dulce de leche karamellusósa (Hér eru upplýsingar um dulce de leche sósuna, hana er hægt að kaupa tilbúna í t.d. Þinni verslun, Hagkaup og fleiri sérverslununum)
- 1/2 tsk vanillusykur
Súkkulaðikrem:
- 45 g kakó
- 90 ml sjóðandi vatn
- 340 g smjör við stofuhita
- 65 g flórsykur
- 450 g suðusúkkulaði
Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og leyft að kólna dálítið. Þá er kakó og sjóðandi vatni hrært saman með gaffli þar til blandan er slétt. Smjörið er hrært með flórsykrinum þar til blandan verður létt og ljós, í minnst 5 mínútur. Því næst er súkkulaðinu hrært saman við blönduna og í lokin er kakóblöndunni hrært út í kremið. Ef kremið er þunnt þá er gott að geyma það í kæli í smástund til að það þykkni.