Djöflaterta


DjöflatertaFlensan heldur enn fjölskyldunni í heljargreipum. Ég er aðeins að skána en börnin eru enn veik. Vetrarfríið hefst á morgun og aldrei þessu vant verður heimilisfaðirinn í fríi líka. Sem betur fer vorum við búin að ákveða að taka því rólega og vera bara heima. Vonandi fer krökkunum samt að skána þannig að við getum gert eitthvað skemmtilegt saman í fríinu.

Í þó nokkurn tíma hefur mig langað í góða sneið af djöflatertu. Þetta var töpuð barátta frá byrjun, auðvitað endaði það með því að ég bakaði djöflatertuna – enda ber tertan nafn með rentu! Ég hef verið að skoða og prófa mig áfram með smjör annars vegar og olíu hins vegar í súkkulaðikökur. Ef notuð er olía í súkkulaðiköku þá verður hún mjög mjúk, mýkri en súkkulaðikökur sem í er smjör. Hins vegar verða kökur með smjöri bragðbetri. Þegar notað er smjör er líka auðveldara að hræra lofti í deigið, það verður „flatara“ með olíu. Að þessu sinni notaði ég smjör og var afar sátt við djöflatertusneiðina sem ég gat loksins notið eftir margra daga löngun! 🙂

IMG_3919IMG_3929

Uppskrift:

  • 250 ml sjóðandi vatn
  • 6 msk bökunarkakó, sigtað
  • 120 g dökkur muscovado sykur eða púðursykur
  • 130 g smjör, við stofuhita
  • 150 g sykur
  • 2 stór egg
  • 230 g hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • 2 tsk vanillusykur

Ofn hitaður í 180 gráður og tvö 20 cm form smurð að innan (ath. þetta eru fremur lítil form). Kakó og muscovado sykur (eða púðursykur) er hrærður út í heita vatninu í skál, skálin lögð til hliðar.

Smjör og sykur hrært saman í hrærivél þar til að blandan verður létt í sér. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn, hrært á milli. Því næst er hveiti, lyftidufti, matarsóda og vanillusykri bætt út. Að lokum er vatninu sem búið var að blanda með sykri og kakó bætt út í og deiginu blandað vel saman. Deiginu er svo skipt á milli bökunarformanna tveggja og bakað í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kökurnar eru bakaðar í gegn. Kökurnar eru látnar kólna alveg áður en kremið er sett á milli botnanna og smurt utan á kökuna.

IMG_3907IMG_3909

Krem:

  • 120 g smjör, við stofuhita
  • 5 msk kakó
  • 3 msk síróp
  • 250 g flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 msk mjólk
Smjörið hrært þar til það er orðið kremkennt. Flórsykur, vanillusykur og kakó sigtað saman og blandað smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við meiri mjólk. Að lokum er sírópi hrært saman við. Kremið er sett á milli botnanna og smurt á alla kökuna þegar hún er orðin alveg köld.
IMG_3925
IMG_3943 IMG_3910

Besta skúffukakan


Ég er dálítið spennt að setja þessa uppskrift hérna inn! Ég fer sjaldnast nákvæmlega eftir mataruppskriftum og breyti þeim oft og iðulega. En kökuuppskriftir eru viðkvæmari fyrir breytingum og ekki oft sem ég breyti þeim mikið. Ég hef hins vegar verið að prófa mig áfram með skúffukökur. Allir vilja eiga eina feiknagóða uppskrift af skúffuköku og ég hef prófað margar slíkar til að finna hina einu og sönnu, en án árangurs. Vissulega eru margar skúffukökur ljómandi góðar en undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með mína eigin uppskrift og er loksins komin niður á eina sem ég er mjög ánægð með. Þessi skúffukaka er bragðgóð og mjúk, sú besta sem ég hef smakkað hingað til. Ég held að einn af göldrunum við hana sé súrmjólkin með karamellubragði!

Jóhanna Inga yngsta skottið okkar átti 8 ára afmæli um daginn og þá var auðvitað bökuð skúffukaka. Reyndar var ég ekki búin að fullþróa uppskriftina mína þá, það gerðist nú bara í gær! En ágætis skúffukaka var þó bökuð á afmælinu og í ár var yngsta barnið með afar þægilega ósk um afmælistertu. Engar flóknar fígúrur eða kastalar, brúðarterta skyldi það vera! 🙂 Hún átti að vera með hvítu kremi, blómum og skrauti. Jóhanna Inga valdi sjálf af kostgæfni allt skrautið á tertuna og við mæðgur hjálpuðumst að með að skreyta brúðarterturnar! Þær voru tvær, önnur fyrir 20 stelpna bekkjarafmæli og hin fyrir fjölskylduafmælið.

Heimilisfaðirinn sem er liðtækur á grillinu en er ekkert mikið í eldamennskunni annars átti sína 15 mínútna frægð við afmælisundirbúninginn! Honum var afhent melóna ásamt skurðarhníf og gefinn fyrirmæli um útskurð. Verandi fjarska góður skurðlæknir fórst honum þetta verk auðvitað snilldar vel úr hendi og út kom þessi skemmtilegi broddgöltur:

Þessi krúttulegi broddgöltur fer inn í hugmyndabankann fyrir afmæli sem er hér.

Uppskriftin af skúffukökunni hér að neðan passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm. Ég myndi gera uppskriftina eina og hálfa, jafnvel tvöfalda fyrir stóra ofnskúffu. Ég notaði uppskriftina af kökukreminu fyrir líka fyrir hvítu brúðartertuna hennar Jóhönnu, ég sleppti bara kakóinu og setti dálítin vanillusykur í staðinn þar sem að hún vildi hvítt krem. Ég vil taka það fram að kökuuppskriftin er mín en uppskriftina af kökukreminu fékk ég úr Gestgjafanum.

Uppskrift (fyrir form sem er 25×35 cm, fyrir ofnskúffu þarf 1 1/2 uppskrift):

  • 2 dl sykur
  • 2 dl púðursykur
  • 2 egg
  • 170 gr smjör, brætt
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 3 tsk. vanillusykur
  • 1 dl. kakó, sigtað
  • 2 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • 1 dl vatn, sjóðandi heitt

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt.

Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Smjöri, púðursykri og sykri hrært mjög vel saman. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu. Því næst er þurrefnunum blandað saman í skál annars vegar og súrmjólk og sjóðandi heitu vatni í aðra skál hins vegar. Um það bil helmingur af blöndunum úr hvorri skál fyrir sig er bætt út í deigið og hrært í stutta stund, þá er restinni úr báðum skálunum bætt út í deigið og hrært. Athugið að hræra eins stutt og hægt er, bara þar til hráefnin hafa blandast saman, ekki lengur. Deiginu er hellt í smurt smurt bökunarform eða ofnskúffu (þessi uppskrift passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm, fyrir ofnskúffu þarf að gera eina og hálfa uppskrift) og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni.

Kökukrem:

  • 150 gr smjör, mjúkt
  • 200 gr flórsykur
  • 4,5 msk kakó
  • 2 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.