Heit súkkulaðikaka með mjúkri miðju


Í gær átti ,,litla barnið“ okkar afmæli, Jóhanna Inga varð átta ára gömul! Samkvæmt fjölskyldusið var hún vakin í morgunsárið með köku, söng og gjöfum. Jóhanna Inga hafði óskað sér ,,súkkulaðiköku með mjúkri miðju“ sem ég bakaði auðvitað með glöðu geði. Ég held að margir sælkerar muni eftir kökunni framan á Kökublaði Gestgjafans árið 2002! Ég man allavega vel eftir þeirri forsíðu, litla syndin ljúfa! Ég keypti mér það blað hér á Íslandi og bakaði þessa ljúfu synd ósjaldan í matarboðum í Stokkhólmi næstu árin. Snilldin við þessa köku er að uppskriftin er afskaplega einföld og það er hægt að útbúa deigið einum degi áður en kakan er bökuð. Svo er kakan afar falleg á diski svo ekki sé talað um hversu ljúffeng hún er! Það eina sem þarf að hafa fyrir er að finna út nákvæman bökunartíma. Ef kakan er of lítið bökuð þá heldur hún ekki forminu og lekur út um allt (en er samt góð!) en ef hún er ofbökuð þá lekur ekkert úr miðjunni (en hún er samt góð!). Þetta snýst allt um mínútur. Ég hef komist að því að fyrir ofninn minn þurfa kökurnar sem bakaðar eru ókældar 11 mínútur í ofni, fyrir deig sem geymt er í ísskáp og sett kalt í ókæld form þarf 14 mínútur, en fyrir deig sem er geymt í ísskáp í sjálfum bökunarformunum þarf 16 mínútna bökunartíma. En best finnst mér að baka eina til tvær auka kökur sem ég prófa tímann á. Tek þá eina köku út t.d. eftir rúmar 10 mínútur og sé hversu vel hún er bökuð, (ég lofa, prufukökurnar lenda ekki í ruslinu! 😉 ) þá er hægt að áætla hversu langan tíma hinar kökurnar sem enn eru í ofninum þurfa. Þegar maður er einu sinni búin að finna út tímann fyrir sinn bakarofn þá er afar einfalt að baka þessar kökur í framhaldinu.

Uppskrift f. 6

 • 140 gr smjör, meira til að smyrja formin
 • 140 gr 70% súkkulaði eða hefðbundið suðusúkkulaði
 • 2 egg
 • 3 eggjarauður
 • 140 gr flórsykur, sigtað
 • 60 gr hveiti, sigtað

Hitið ofninn í 220 gráður (ekki nota blástur). Smyrjið 6 lítil souffléform mjög vel með smjöri. Setjið smjör og súkkulaði í pott og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út í og þeytið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan og hrærið að lokum hveitinu saman við. Skiptið deiginu jafnt í formin (rúmlega 1 dl í hvert form) og gætið þess að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu eða í ofnskúffu og bakið kökurnar í ca. 11-12 mínútur. Takið þær út og látið kólna í u.þ.b. 3 mínútur. Rennið hnífsblaði í kringum kökurnar til að losa betur um þær og hvolfið þeim á diska. Það er gott að leggja disk yfir formið og hvolfa því síðan, þá er minni hætta á að kakan brotni í sundur en ef forminu er hvolft beint á diskinn. Sigtið flórsykur yfir og berið kökurnar fram t.d. með hindberjasósu, þeyttum rjóma og/eða vanilluís. Skreytið með hindberjum eða jarðaberjum.

Hindberjasósa

 • 200 g hindber, fersk eða fryst
 • 3 msk. sykur
 • 2-3 tsk vatn

Látið berin þiðna ef þau eru frosin. Setjið þau síðan í matvinnsluvél eða blandara ásamt sykri og vatni og maukið þau (líka hægt að mauka þau með gaffli). Smakkið sósuna, bragðbætið hana með meiri sykri ef þarf og berið hana síðan fram með kökunum.

Kjúklingavefjur með beikoni, mangósalsa og avókadósósu


Ég átti afgang af hráefninu frá því að ég bjó til guacamole auk þess að eiga þroskað mangó. Þar sem að mér finnst þetta afar ljúffeng hráefni, mangó og avókadó, langaði mig að gera eitthvað dásamlega gott í kvöldmatinn úr því. Ég leitaði að uppskriftum en fann ekkert spennandi nema auðvitað mangó/avókadó salsa eins og ég bjó til um daginn en mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Að lokum ákvað ég að spinna bara eitthvað gott úr þessu ásamt því að grilla kjúkling. Úr þeirri tilraun spruttu þessar ljúffengu kjúklingavefjur.

Uppskrift:

Mangósalsa:

 • 1 mangó, skorið í bita
 • 1-2 rauð chili-aldin, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
 • safi úr 1/2 lime

Öllu blandað saman í skál.

Avókadósósa:

 • 1 stórt avókadó eða 2 lítil
 • 3 dl. grísk jógúrt
 • 1-2 hvítlauksrif
 • safi úr 1/2 lime

Öllu maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Geymt í ísskáp í minnst 15 mínútur.

Annað hráefni í vefjurnar:

 • tómatar, skornir smátt
 • salatblöð
 • klettasalat
 • rauðlaukur, saxaður (má sleppa)
 • steikt beikon
 • grillaðar kjúklingabringur, kryddaðar með Kjúklingakryddi frá Pottagöldrum.
 • tortillas pönnukökur

Avókadósósan og mangósalsa er undirbúið á meðan kjúklingurinn er grillaður. Auk þess sem beikonið er steikt á pönnu þar til það verður stökkt, lagt á eldhúspappír og umfram fita látin renna af því. Tómatar eru skornir smátt, salat rifið niður og tortilla pönnukökurnar hitaðar á pönnu. Þegar kjúklingabringurnar eru hér um bil alveg grillaðar í gegn eru þær settar á disk og vafðar þétt inn í álpappír með hröðum handtökum. Þá haldast þær áfram að eldast hægt í eigin hita (sem kemur í veg fyrir að þær verði ofgrillaðar og þurrar) og verða safaríkar og lungnamjúkar. Þegar bringurnar hafa fengið að jafna sig eru þær sneiddar niður.

Inn í tortillas pönnukökuna er svo settur kjúklingur, mangósalsa, avókadósósa, beikon og grænmeti, það er gott að setja mikið af avókadósósunni og mangósalsanu! Það var afgangur þannig að ég útbjó vefjur og geymdi í álpappír í ísskáp. Ég held svei mér þá að þær hafi verið jafnvel enn betri kaldar daginn eftir, allavega jafn góðar!

Hafraklattar


Þessir hafraklattar eru ofsalega góðir og ef maður einbeitir sér eingöngu að haframjölinu í uppskriftinni er jafnvel hægt að ímynda sér að þeir séu bráðhollir! Það er mikilvægt að baka klattana ekki of lengi. Ekki láta ykkur bregða þó þeir séu enn dúnmjúkir eftir baksturinn. Leyfið þeim að kólna og þá dökkna þeir aðeins og harðna en verða samt enn lungnamjúkir að innan. Jóhanna Inga beið spennt eftir að myndartökunni lyki (börnin eru farin að spyrja alltaf núna: ,,ertu búin að taka mynd, megum við borða?“ 😉 ) og hámaði svo í sig hafraklatta á mettíma!

Uppskrift:

 • 500 gr smjör (lint)
 • 100 gr sykur/hrásykur
 • 300 gr púðursykur
 • 4 tsk vanillusykur
 • 4 egg
 • 350 gr hveiti/spelt
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk kanill
 • 550 gr haframjöl
 • 100 gr. smátt skorið suðusúkkulaði (má auka, minnka eða sleppa)
 • 1 bolli rúsínur (má auka, minnka, sleppa)

Aðferð:

Smjör, sykur og púðursykur þeytt þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í einu og einu í senn ásamt vanillusykri. Þurrefnum bætt út í, hveiti, matarsóda, salti og kanil, og í lokin er haframjöli, rúsínum og súkkulaði bætt við.

Á þessu stigi er deigið mjög blautt. Búið til kúlur í höndunum, ca. á stærð við tómata/plómur, setjið á plötu og fletjið lítillega út. Ég næ um það bil 9 stykkjum á plötu. Athugið að klattarnir stækka í ofninum.

Bakað í miðjum ofni við 200° í  ca 8-10 mínútur. Mikilvægt að baka ekki klattana of lengi, þeir eiga rétt að vera ljósbrúnir. Úr þessari uppskrift fékk ég ca. 30 klatta.

Guacamole


Guacamole er í miklu uppáhaldi hér á heimilinu. Ég kaupi aldrei þetta tilbúna í krukkum, það er bara alls ekki gott! Enda minnir mig að það standi í innhaldslýsingu að í krukkunni sé 1% avókadó! Yngstu krökkunum finnst reyndar best þegar ég stappa saman fersku avókadó og blanda við tilbúna guacamole kryddblöndu. En okkur hinum finnst þessi uppskrift best. Það er hægt að nota hana með meiru en bara tortillas vefjum eða tortilla flögum. Það getur verið gott að bera fram guacamole með grilluðum mat, hamborgurum og ekki síst með þessum rétti. Eins og alltaf með avókadó þá er mikilvægt að það sé orðið rétt þroskað. Til að hraða fyrir þroskanum er hægt að setja avókadó í lokaðan bréfpoka með eplum og/eða banönum sem gefa frá sér etýl gas sem hraðar fyrir þroskanum. Það er misjafn smekkur fólks hversu gróft það vill hafa guacamole maukið. Ég vil hafa bita í því en það er líka hægt að mauka það alveg saman fyrir þá sem vilja. Hér að neðan gef ég upp hlutföll í uppskriftinni en það er mikilvægt að smakka maukið til. Til dæmis geta chili-aldin verið misjafnlega bragðsterk og gæti þurft að minnka eða auka magnið af þeim sem og af öðrum hráefnum.

Uppskrift:

 • 2 vel þroskuð avókadó, skorin í litla bita
 • 2 stórir tómatar, skornir mjög smátt
 • 1-2 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt (má sleppa)
 • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 1-2 fersk rauð chili, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
 • safi úr einni límónu (lime)
 • 1-2 búnt ferskt kóríander, saxað smátt
 • 1/2 tsk salt

Blandið saman öllum hráefnunum og setjið í skál, lokið skálinni mjög þétt með plastfilmu og geymið í ísskáp í minnst korter áður en hún er borin fram. Guacamole geymist illa og ætti því að vera borið fram strax.

Brauðhleifur með ítalskri fyllingu


Ég sá þessa uppskrift á sænsku matarbloggi sem ég fylgist reglulega með. Þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn var ég svolítið vantrúuð á að hann væri góður. En annað kom á daginn, rétturinn var voða góður og það sem enn betra var, meira að segja krökkunum fannst þetta góður matur! Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar maður dettur niður á kvöldmat sem yngstu krakkarnir fúlsa ekki við! Ég hef prófað að nota allskonar brauðhleifa fyrir þennan rétt, aðallega reyni ég að hafa brauðið frekar stórt og að skorpan sé föst í sér. Ef ég sé stóran og girnilegan brauðhleif úti í búð þá enda ég oft á að hafa þennan rétt um kvöldið. Nettó og Hagkaup eru til dæmis matvöruverslanir sem selja brauð sem ekki er niðursneitt og passa vel fyrir þessa uppskrift. Ef krakkarnir myndu borða sveppi þá myndi ég klárlega bæta þeim við þessa uppskrift. Það myndi passa best að steikja þá með lauknum í upphafi. Innvolsið úr brauðinu er fjarlægt en mér er illa við sóun á mat. Ég legg því stundum innvolsið í lítið eldfast mót, bræði smjör með hvítlauk í og helli yfir, strái svo dálitum osti yfir brauðið að lokum. Þetta hita ég í ofninum þar til osturinn tekur lit og krakkarnir borða af bestu lyst.

Uppskrift f. 4

 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 tsk (eða teningur) kjötkraftur
 • 10 sólþurrkaðir tómatar
 • 6-700 gr nautahakk
 • smjör til steikingar
 • 1 dós niðursoðnir tómatar, gjarnan með basiliku eða hvítlauk
 • vænn skammtur af ferskri basiliku, söxuð (má nota 2 msk af þurrkaðri basiliku)
 • salt og pipar
 • góð kryddblanda með ítölskum kryddum, t.d. Best á allt
 • 1 tsk sykur
 • 1 dl steinlausar ólífur, svartar eða grænar
 • 125 g mozzarella ostur
 • 150 g rifinn ostur, gjarnan bragðsterkur
 • 1 brauðhleifur

Aðferð:

Saxið laukinn smátt, hakkið hvítlaukinn og skerið sólþurrkuðu tómatana í litla bita. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu og bætið svo hakkinu og kjötkrafti út í Bætið síðan við niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basilku Látið malla í 10 mínútur og kryddið með ítalskri kryddblöndu, salti, pipar og sykri.

Skerið brauðhleifinn á lengdina þannig að neðri hlutinn sé töluvert hærri en lokið. Takið innvolsið innan úr brauðinu, skiljið eftir ca tveggja cm kant. Yfirleitt tek ég líka aðeins innan úr lokinu. Þegar kjötsósan hefur mallað í 10 mínútur er pannan tekin af hellunni. Mozzarella skorinn í bita og ólífurnar saxaðar gróft. Hvort tveggja er bætt út á pönnuna ásamt rifnum osti. Hrærið ostinum og ólífunum saman við kjötsósuna og hellið svo blöndunni í brauðið. Brauðinu er svo vafið inn í álpappír og bakað inní ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur eða þangað til brauðið er vel heitt í gegn. Berið fram með salati.

Eggjahræra með ostum og innkaup í eldhúsið


Áður en ég set inn uppskrift dagsins ætla ég að setja inn nokkrar myndir af því sem ég keypti fyrir eldhúsið í Stokkhólmsferðinni. Fyrst fór ég í Drömhuset en það er voða sæt búð sem kemur oft fyrir í þeim sænsku bloggum sem ég les reglulega og mig hefur lengi langað að kíkja í. Þar féll ég fyrir þessu fallega formi.

Ég les reglulega bloggið hjá Pernillu Wahlgren sem er þekkt söngkona í Svíþjóð. Hún var að koma með sína eigin kjólalínu sem meðal annars er seld í Drömhuset. Ég veit að Svava vinkona mín les bloggið hennar líka og ég tók þessa mynd sérstaklega fyrir þig Svava! 🙂

Ég er lengi búin að leita að fallegum hvítum trébakka og fann nákvæmlega rétta bakkann í Hemtex.

Ég keypti svo tvær grænar Margrethe skálar, en ég átti nokkrar fyrir. Margrethe skálarnar voru hannaðar árið 1954 af Sigvard Bernadotte. Sigvard var hönnuður en jafnframt sænskur prins, föðurbróðir núverandi Svíakonungs og hann nefndi skálarnar eftir frænku sinni, núverandi Danadrottningu. Svíar eigna sér þar með hönnunina af þessum skálum en danir eru hins vegar duglegir að minnast þess að í raun var það Daninn Jacob Jensen, sem starfaði hjá Sigvard, sem hannaði skálarnar. Þessar skálar eru klassískar og eru ódrepandi, enda margir sem eiga svona skálar sem eru orðnar kannski 40-50 ára og enn í notkun!

En svo ég víki að uppskrift dagsins. Um daginn setti ég inn uppskrift af eggjaköku en mér finnst eggjakökur afskaplega góðar. Eins eru ostar í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst því þessi uppskrift súper góð þar sem þessu hvor tveggja er blandað saman! Þetta er sniðugur réttur til að bjóða í veislum, afmælum, saumaklúbbum eða við sambærileg tilefni og er skemmtileg tilbreyting frá heitum réttum, ostasalötum og slíku. Hér bar ég hræruna fram á snittubrauði sem ég var búin að rista í ofni en það er líka gott að bera hana fram á hefðbundnu ristuðu brauði eða jafnvel kexi. Það er svo ómissandi setja rifsberjahlaup á hræruna eða jafnvel chilisultu.

Uppskrift

 • 1/2 stk Gullostur
 • 1/2 stk Brie ostur
 • 6 sneiðar Goudaostur
 • 6 egg
 • 1 dl mjólk
 • 1 tsk basilika
 • salt og pipar

Aðferð:

Skerið Brieostinn og Gullostinn í bita og rífið eða skerið Goudaostinn smátt. Sláið saman eggi og mjólk og kryddið með salti og pipar. Hellið eggjablöndunni á pönnu og látið taka sig, setjið ostinn saman við og hrærið stöðugt í. Bakið ekki of lengi því eggjahræran á að vera dálítið blaut. Berið hana fram, heita eða kalda, með ristuðu brauði og rifsberjahlaupi.

Kjúklingur í sweet chili sósu


Það er gott að vera komin heim og í rútínu. Eða reyna að komast í rútínu allavega, ég er greinilega ekki alveg komin í gírinn! Mig langaði að elda kjúklingarétt með sweet chilisósu í kvöldmat í gærkvöldi og skoðaði ótal slíkar uppskriftir. Ég fann nokkrar sem mér leist vel á og ákvað að slá saman því besta úr þremur uppskriftum og búa til mína eigin. Ég skrifaði samviskusamlega innkaupalista en kom svo heim með bara hluta af því sem ég ætlaði að kaupa, heilinn enn í sumarfríi! Það átti því sér stað enn meiri spuni í eldhúsinu í gærkvöldi en áætlað var frá upphafi. Hins vegar lukkaðist þetta bara ljómandi vel og úr varð hinn ágætis kjúklingaréttur! Ég stefni hins vegar á að vera skipulagðari í matseðlagerð fyrir vikuna og í innkaupum. Þegar ég bjó úti í Svíþjóð skipulagði ég alltaf vikumatseðil og verslaði inn fyrir vikuna. Hér á Íslandi er ég óduglegri við það. Ég held að það sé aðallega útaf tvennu, fjölskyldan er orðin svo stór (og það er seint hægt að segja að við séum matgrönn!) að vikuinnkaup kæmust aldrei fyrir í ísskápnum! Að auki þá kaupi ég allt öðruvísi inn hér en úti. Hér fer ég í fiskbúð einu sinni eða tvisvar í viku, kaupi kjöt í kjötbúðum og svo þarf ég oft að fara í margar verslanir til að fá þær vörur sem mig vantar. En ég reyni þó oftast að kaupa inn fyrir tvær eða þrjár kvöldmáltíðir í einu. Fyrstu sjö árin okkar í Svíþjóð vorum við blönk og áttum ekki bíl. Þá þurftu matarinnkaupin að komast í fjóra poka (svo allt kæmist undir barnavagninn), maturinn duga í viku og ekki kosta meira en 500 sek! 🙂 Það var mjög góður skóli í sparnaði og útsjónarsemi! Ég ætla sem sagt að hrista rykið af þeirri lexíu og markmiðið fyrir veturinn verður að skipuleggja matarinnkaupin betur!

Uppskrift:

 • 800 gr kjúklingabringur
 • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur eða einn teningur
 • 1 rauðlaukur, skorin smátt
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • engifer, rifið, ca. 5 cm bútur
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 1 kúrbítur, skorinn í bita
 • 3-4 gulrætur, sneiddar
 • 2 dl sweet chilisósa
 • 1 tsk chilimauk
 • 1 ferna matargerðarjómi
 • 1 dós sýrður rjómi

Aðferð:

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu, bætið við kjúklingakrafti, salti og pipar. Bætið lauk og hvítlauk út í ásamt papriku, kúrbít og gulrótum, chilimauki og engifer og steikið áfram. Þegar kjúklingur og grænmetið hefur tekið lit er hvor tveggja fært yfir í stóran pott (nema notuð sé þess stærri panna). Þá er matargerðarjóma, sýrðum rjóma og chilisósu bætt út í. Leyfið réttinum að malla í 15 mínútur. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús.

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu


Fyrr í sumar var ég að kaupa kjöt í versluninni ,,Til sjávar og sveita“ þegar ég sá þar krukku af Dulce de leche. Ég vissi ekki hvers konar sósa þetta var en keypti eina krukku fyrir forvitnissakir (Sósan fæst líka í Þinni verslun). Núna lét ég loksins verða af því að skoða þessa sósu betur. Þá kom berlega í ljós að ég er jú bara leikmaður á matargerðarsviðinu því þessi sósa er vel þekkt. Dulce de leche er karmellusósa búin til úr niðursoðinni sætri mjólk. Hún er upprunnin frá Suður Ameríku og var fyrst framleitt þar fyrir yfir 100 árum til að varðveita mjólk yfir sumarmánuðina.  Sósuna er hægt að nota á marga mismunandi vegu, gott er að nota hana á pönnukökur t.d. með ís og svo fer hún líka sérlega vel með marengsbotni eða í bökur með rjóma og ferskum ávöxtum.  Það er sem sagt hægt að kaupa karmellusósuna tilbúna, eins og ég gerði að þessu sinni, eða búa hana til með því að setja niðursoðna sætmjólk í dós í pott með vatni og sjóða.

Niðursoðnu sætmjólkina er hægt að fá í Kosti og í verslunum með asíska matvöru. Miðinn er tekinn af dósinni og hún er sett í pott og hann fylltur vatni, það þarf að vera vatn yfir dósinni.  Látið suðuna koma upp og lækkið svo niður um helming þannig að vatnið rétt bárast. Látið sjóða í þrjár klukkustundir, því lengur sem mjólkin er soðin þess mun þykkari verður karamellan. Það þarf að sjá til þess að það sé alltaf vatn yfir dósinni á meðan suðu stendur gott er að snúa dósinni einstaka sinnum. Dósin er svo tekin úr pottinum og hún látin standa á borði í svona 20 mínútur áður en hún er opnuð. Það er líka hægt að geyma hana í ísskáp yfir nótt ef ekki á að nota hana strax.  Ef karamellan er of stíf er hægt að velgja aðeins í henni í potti eða örbylgjuofni.

Í Englandi var farið að gera ,,Banoffee pie“ fyrir um það bil 40 árum. Það er baka með kexbotni, Dulce de leche karamellusósu, banönum og rjóma. ,,Banoffee“ er orð sem hefur meira að segja fest sig í sessi í ensku yfir allt sem bragðast eða lyktar eins og blanda af banönum og karamellu! Hér er ég með uppskrift af sambærilegri böku og það er vel hægt að skipta út karamellusósunni í þessari böku fyrir Dulce de leche karamellusósuna. Mig langaði að gera böku úr þessari Dulce de leche karamellusósu sem ég hafði keypt en langaði ekki að gera ,,Banoffee“ böku þar sem ég gerði sambærilega slíka böku nýlega. Ég ákvað því að nota hindber í stað banana. Karamellan er sæt en hindberin eru súrsæt og með mildum rjómanum þá getur þessi blanda varla klikkað! Uppskrift:

 • 200 gr Digestive
 • 100 gr smjör
 • 500 gr hindber (má nota frosin hindber sem hafa verið afþýdd)
 • 400 gr Dulce de leche karamellusósa (eða ein dós niðursoðin sætmjólk soðin eftir leiðbeiningunum hér að ofan)
 • 300 ml rjómi
 • súkkulaðispænir til skreytingar

Aðferð: Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Blöndunni þrýst í botninn á forminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna áður en karamellusósan er sett á botninn. Þegar karamellusósunni hefur verið hellt yfir botninn er hindberjunum raðað yfir og að lokum þeyttum rjóma. Skreytt með súkkulaðispæni. Leyfið bökunni gjarnan að brjóta sig í ísskáp í nokkrar klukkustundir áður en hún er borin fram.

Eggjakaka frá smálöndum og Svíþjóðartal!


Síðastliðna nótt komum við heim úr frábærri tveggja vikna Svíþjóðarferð með yngstu börnunum tveimur og Ingu frænku. Ósk var líka í Stokkhólmi með íslenskum vinkonum sínum fyrstu vikuna en er núna með sænskum vinkonum á Krít og fer svo aftur til Stokkhólms í viku! Ekki nóg með það heldur þá er Alexander á ferðalagi um Japan! Lukkunnar pamfílar! 🙂

Við erum sem sagt búin að vera þrjár vikur að heiman, því vikuna fyrir Svíþjóðarferðina vorum við á Patró. Ég byrjaði að blogga hér fyrir tveimur mánuðum, þar af hef ég bloggað í tæpan mánuð annarsstaðar en að heiman. Það hefur verið áskorun! Ég hef eldað í eldhúsum sem eiga ekki kryddin mín eða áhöld sem ég er vön að nota og notað eldavélar sem ég þekki ekki inn á. Netsamband á Vestfjörðum, í sumarbústað á suðurlandi, í Stokkhólmi eða í smálöndum Svíþjóðar hefur verið skrikkjótt, hægvirkt og stundum alls ekkert. Eitt sinn hrundi þessi vefsíða þegar ég breytti útlitinu og það var ekki hægt að setja inn færslur og í annað sinn þurfti ég að nota lánstölvu sem var ekki hægt að stilla inn á íslenskt letur (ctrl-c og ctrl-p mikið notað í þeirri færslu)! Ég er því frekar ánægð með að hafa tekist að blogga daglega þrátt fyrir allt. 🙂

En Svíþjóðarferðin var frábær! Við búum svo vel að eiga marga góða íslenska vini í hverfinu í Stokkhólmi þar sem við bjuggum í rúm 15 ár. Við fengum því bæði lánsíbúð og lánsbíl og gátum dvalið í gamla hverfinu okkar. Stokkhólmur er dásamleg borg sem hefur upp á feykimargt skemmtilegt að bjóða, sérstaklega fyrir börn. Í meistaranámi mínu í bókasafns-og upplýsingafræði fékk ég verkefni þar sem ég átti að forrita heimasíðu. Á heimasíðunni þurfti ég að setja fram 15 tengla um ákveðið efni eftir ákveðnum reglum. Ég valdi auðvitað tengla um Stokkhólm og forritaði þessa síðu hér! Reyndar held ég að einhverjir tenglar séu úreldir en þarna eru samt einhverjar upplýsingar um borgina.

Það sem stóð upp úr hjá krökkunum í ferðinni og var efst á þeirra óskalista var tívolíið Gröna Lund, Tom Tit vísindasafnið sem er algjörlega frábært og engin barnafjölskylda ætti að láta framhjá sér fara í Stokkhólmsheimsókn. Einnig er tónlistarsafnið einstaklega barnvænt og skemmtilegt, við höfum heimsótt það reglulega og gerðum það einnig í þessari ferð. Að þessu sinni var líka fjórvíddarbíóið Cosmonova í Náttúrfræðisafninu sótt heim við mikla hrifningu auk Fiðrildahússins í Hagagarðinum.

Við fórum líka í mörg matarboð bæði til íslenskra og sænskra vina, í bátsferð um skerjagarðinn með Elfari frænda og svo var auðvitað verslað svolítið! Toppurinn á ferðinni var svo ferðalag í dýragarðinn Kolmården sem er sá stærsti á Norðurlöndunum og í smálöndin þar sem garðurinn ,,Astrids Lindgrens värld” var heimsóttur. Þetta var líklega í fimmta sinn sem við förum í svona ferð þar sem við tvinnum saman dýragarðsferð og Vimmerby, en það er alltaf jafn gaman! Það tekur einn og hálfan tíma að keyra til Kolmården frá Stokkhólmi en það þarf að mæta við opnun og vera til lokunnar til þess að ná að skoða allan garðinn sem er afar stór og flottur. Um kvöldið keyrðum við svo til Vimmerby, fæðingarbæjar Astridar Lindgren. Daginn eftir dvöldum við allan daginn í Astrids Lindgrens värld sem er stórkostlegur garður í Vimmerby, byggður á flestum sögum Astridar.

Við heimsóttum þennan garð fyrst árið 1998 þegar Ósk og Alexander voru lítil og það er gaman að sjá hvað hann verður flottari með ári hverju. Í garðinum er allt morandi af leikurum í hlutverkum söguhetja Astridar. Sá yngsti var líklega ekki meira en 6 ára, það var ”Lillebror” vinur Kalla á þakinu, og það var dásamlegt að sjá samspil hans og Kalla en leikararnir fara aldrei úr karakter. Reglulega sýna leikararnir æfð leikrit en þess á milli eru þeir í karakter meðal gesta garðsins og spinna með þeim í anda sinna persóna. Leikritin eru afar metnaðarfull og umgjörðin verður flottari með hverju árinu. Til dæmis er Matthíasarborg Ronju Ræningjadóttur orðin stórglæsileg og í leikritinu kemur alvöru elding, kastalinn klofnar raunverulega í tvennt og myndar Helvítisgjánna. Jafnframt ríða ræningjarnir á lifandi hestum, alvöru þoka læðist yfir svið og áhorfendur auk snjókomu. Einnig stíga rassálfar, grádvergar og skógarnornir á stokk. Gestir garðsins geta svo leikið sér í húsum og umhverfi söguhetjanna, milli þess sem þar eru sýnd leikrit, og átt í samskiptum við söguhetjurnar. Þarna er líka alvöru Ólátagata þar sem kvikmyndin um Lottu var tekin upp. Þar er hægt að skoða húsið hennar  Lottu og Tant Berg. Ég gæti endalaust haldið áfram að tala um þennan garð en ég hvet alla aðdáendur Astridar, jafnt börn sem fullorðna að heimsækja Astrids Lindgrens värld! Ég mæli samt með því að fara ekki í júlí því þá er ofsalega mikið af fólki í garðinum.

Við höfum prófað nokkra gistimöguleika í Vimmerby. Hótel Ronja er ágætis íbúðarhótel, við vorum þar fyrir þremur árum og vorum mjög sátt við það. Núna gistum við í Smålandsbyn (áður Pippis hotell en afkomendur Astridar hafa lagt eignarhald á það nafn og þeir fá ekki að heita það lengur né nefna húsin sín eftir söguhetjum hennar!). Þetta er rétt fyrir utan Vimmerby, þaðan tekur bara 5 mínútur að keyra í garðinn. Þarna er skemmtilegt safn húsa í eftirlíkingu húsa söguhetja Astridar og með frábæru leiksvæði fyrir börn. Stóra gula húsið er hótel en við bjuggum útaf fyrir okkur í Maddittar húsi (bláa húsinu) með góða aðstöðu og húsið var afar snyrtilegt og hlýlegt. Mæli með þessum gistimöguleika! Athugið að gistingu í Vimmerby yfir hásumar þarf að bóka með margra mánaða fyrirvara, ég pantaði með hálfs árs fyrirvara. Og fyrst ég er byrjuð á þessu þá mæli ég líka með veitingastaðnum Brygghuset í Vimmerby sem er í veitingastaður Åbro verksmiðjunnar, afar góður matur þar!

Og þá er ég komin að því sem ég ætlaði að skrifa um áður en þessi færsla breyttist í færslu um hvað væri hægt að gera skemmtilegt með börnum í Svíþjóð og í Stokkhólmi! 🙂 Í húsinu þeirra Madditar og Betu (sem var mín uppáhaldssaga þegar ég var lítil og er núna uppáhalds hjá Jóhönnu minni!) eldaði ég sem sagt eggjaköku! Ég hef mjög sjaldan eldað eggjakökur í gegnum árin en þegar við vorum í Tyrklandi fyrir ári síðan var allur matur innifalinn á hótelinu og góður var hann! Á morgnana var hlaðborð með allskonar morgunmat en þar sem ég er lítið fyrir að borða morgunmat þá átti ég erfitt með að finna eitthvað sem ég hafði lyst á. Það var ekki fyrr en ég uppgötvaði kokkana sem stóðu í einu horninu og elduðu eggjakökur eftir pöntun að ég fór hreinlega að hlakka til að borða morgunmat! Eftir að hafa horft á kokkana elda gómsæta eggjaköku ofan í mig daglega í tvær vikur fór ég heim til Íslands og hef eldað sambærilega eggjaköku ótal sinnum síðan þá. Ég get meira að segja snúið henni við í loftinu eins og kokkarnir gerðu! 😉 En eiginmaðurinn var ekki nógu viðbragðssnöggur til að ná því á filmu þannig að þið verðið bara að taka mig trúanlega! 🙂

Eggjakaka er afar fitusnauður, saðsamur og góður matur. Það er hægt að nota næstum því hvaða grænmeti sem er, hvaða álegg sem er og hvaða ost sem er í eggjakökuna. Ég nota meira af eggjahvítum en rauðum, kakan verður hollari og próteinríkari þannig. Það er mjög sniðugt að kaupa eggjahvítur á brúsa eins og er seldur í matvöruverslunum, þær geymast í 7 daga í kæli en má frysta og því hægt að frysta þær í litlum, passlegum skömmtum.

Uppskrift:

 • 2 egg
 • 3 eggjahvítur
 • 2/3 dl mjólk (vill maður gera vel við sig er hægt að nota matreiðslurjóma eða rjóma!)
 • sveppir
 • skinka
 • ferskt brokkolí
 • rifinn ostur (líka hægt að nota ferskan mozzarella ost eða brie ost, skorið í bita)
 • smör eða olía til steikingar
 • 1/2 tsk basilka
 • 1/2 tsk oregano
 • salt og pipar

Aðferð:

Setjið egg og eggjahvítur í skál ásamt mjólk, pískið þessu létt saman, bætið kryddinu út í. Skerið sveppina fremur gróft og steikið þá á pönnu. Því næst er eggjahrærunni hellt út á pönnuna. Skinkan er skorin niður í bita ásamt brokkolíi og hvoru tveggja bætt út í ásamt ostinum Látið eggjakökuna malla á meðalhita, gætið þess að hafa hann ekki of háan þannig að eggjakakan brenni ekki. Pikkið í hræruna á meðan hún er að þykkna til að flýta fyrir.

Þegar kakan hefur stífnað vel er henni snúið við og hún steikt á hinni hliðinni í nokkrar mínútur. Það er hægt að snúa við kökunni til hálfs (í hálfmána) ef maður treystir ekki til að snúa henni við í heilu. Einnig er hægt að sleppa því að snúa henni við, setja lok á pönnuna og fullelda eggjakökuna þannig á annarri hliðinni. Einnig er gott að klára eldunina inni í bakarofni í nokkrar mínútur ef pannan kemst inni í ofn.

Ostasalat


Mér finnst ostar í öllum útgáfum ægilega góðir. Það eru til mjög margar útgáfur af ostasalötum en ég held að mér þyki þetta best. Líkt og með heitu brauðréttina þá held ég að svona ostasalöt séu íslensk fyrirbrigði. Ég man allavega ekki eftir að hafa séð sambærilegar uppskriftir erlendis frá. Annars er það íslenskur spinningkennari sem hefur eignað sér heiðurinn af því að hafa fundið upp ostasalatið!

Uppskrift:

 • 1 jalapeno ostur
 • 1 villisveppa ostur
 • 1 Bóndabrie
 • 1/2 púrrlaukur
 • 100 gr. vínber
 • 1 paprika
 • 180 gr. sýrður rjómi
 • 2 kúfaðar matskeiðar grísk jógúrt

Skorið smátt , blandað saman og kælt í ísskáp áður en það er borið fram með kexi og/eða snittubrauði.