Eggjakaka frá smálöndum og Svíþjóðartal!


Síðastliðna nótt komum við heim úr frábærri tveggja vikna Svíþjóðarferð með yngstu börnunum tveimur og Ingu frænku. Ósk var líka í Stokkhólmi með íslenskum vinkonum sínum fyrstu vikuna en er núna með sænskum vinkonum á Krít og fer svo aftur til Stokkhólms í viku! Ekki nóg með það heldur þá er Alexander á ferðalagi um Japan! Lukkunnar pamfílar! 🙂

Við erum sem sagt búin að vera þrjár vikur að heiman, því vikuna fyrir Svíþjóðarferðina vorum við á Patró. Ég byrjaði að blogga hér fyrir tveimur mánuðum, þar af hef ég bloggað í tæpan mánuð annarsstaðar en að heiman. Það hefur verið áskorun! Ég hef eldað í eldhúsum sem eiga ekki kryddin mín eða áhöld sem ég er vön að nota og notað eldavélar sem ég þekki ekki inn á. Netsamband á Vestfjörðum, í sumarbústað á suðurlandi, í Stokkhólmi eða í smálöndum Svíþjóðar hefur verið skrikkjótt, hægvirkt og stundum alls ekkert. Eitt sinn hrundi þessi vefsíða þegar ég breytti útlitinu og það var ekki hægt að setja inn færslur og í annað sinn þurfti ég að nota lánstölvu sem var ekki hægt að stilla inn á íslenskt letur (ctrl-c og ctrl-p mikið notað í þeirri færslu)! Ég er því frekar ánægð með að hafa tekist að blogga daglega þrátt fyrir allt. 🙂

En Svíþjóðarferðin var frábær! Við búum svo vel að eiga marga góða íslenska vini í hverfinu í Stokkhólmi þar sem við bjuggum í rúm 15 ár. Við fengum því bæði lánsíbúð og lánsbíl og gátum dvalið í gamla hverfinu okkar. Stokkhólmur er dásamleg borg sem hefur upp á feykimargt skemmtilegt að bjóða, sérstaklega fyrir börn. Í meistaranámi mínu í bókasafns-og upplýsingafræði fékk ég verkefni þar sem ég átti að forrita heimasíðu. Á heimasíðunni þurfti ég að setja fram 15 tengla um ákveðið efni eftir ákveðnum reglum. Ég valdi auðvitað tengla um Stokkhólm og forritaði þessa síðu hér! Reyndar held ég að einhverjir tenglar séu úreldir en þarna eru samt einhverjar upplýsingar um borgina.

Það sem stóð upp úr hjá krökkunum í ferðinni og var efst á þeirra óskalista var tívolíið Gröna Lund, Tom Tit vísindasafnið sem er algjörlega frábært og engin barnafjölskylda ætti að láta framhjá sér fara í Stokkhólmsheimsókn. Einnig er tónlistarsafnið einstaklega barnvænt og skemmtilegt, við höfum heimsótt það reglulega og gerðum það einnig í þessari ferð. Að þessu sinni var líka fjórvíddarbíóið Cosmonova í Náttúrfræðisafninu sótt heim við mikla hrifningu auk Fiðrildahússins í Hagagarðinum.

Við fórum líka í mörg matarboð bæði til íslenskra og sænskra vina, í bátsferð um skerjagarðinn með Elfari frænda og svo var auðvitað verslað svolítið! Toppurinn á ferðinni var svo ferðalag í dýragarðinn Kolmården sem er sá stærsti á Norðurlöndunum og í smálöndin þar sem garðurinn ,,Astrids Lindgrens värld” var heimsóttur. Þetta var líklega í fimmta sinn sem við förum í svona ferð þar sem við tvinnum saman dýragarðsferð og Vimmerby, en það er alltaf jafn gaman! Það tekur einn og hálfan tíma að keyra til Kolmården frá Stokkhólmi en það þarf að mæta við opnun og vera til lokunnar til þess að ná að skoða allan garðinn sem er afar stór og flottur. Um kvöldið keyrðum við svo til Vimmerby, fæðingarbæjar Astridar Lindgren. Daginn eftir dvöldum við allan daginn í Astrids Lindgrens värld sem er stórkostlegur garður í Vimmerby, byggður á flestum sögum Astridar.

Við heimsóttum þennan garð fyrst árið 1998 þegar Ósk og Alexander voru lítil og það er gaman að sjá hvað hann verður flottari með ári hverju. Í garðinum er allt morandi af leikurum í hlutverkum söguhetja Astridar. Sá yngsti var líklega ekki meira en 6 ára, það var ”Lillebror” vinur Kalla á þakinu, og það var dásamlegt að sjá samspil hans og Kalla en leikararnir fara aldrei úr karakter. Reglulega sýna leikararnir æfð leikrit en þess á milli eru þeir í karakter meðal gesta garðsins og spinna með þeim í anda sinna persóna. Leikritin eru afar metnaðarfull og umgjörðin verður flottari með hverju árinu. Til dæmis er Matthíasarborg Ronju Ræningjadóttur orðin stórglæsileg og í leikritinu kemur alvöru elding, kastalinn klofnar raunverulega í tvennt og myndar Helvítisgjánna. Jafnframt ríða ræningjarnir á lifandi hestum, alvöru þoka læðist yfir svið og áhorfendur auk snjókomu. Einnig stíga rassálfar, grádvergar og skógarnornir á stokk. Gestir garðsins geta svo leikið sér í húsum og umhverfi söguhetjanna, milli þess sem þar eru sýnd leikrit, og átt í samskiptum við söguhetjurnar. Þarna er líka alvöru Ólátagata þar sem kvikmyndin um Lottu var tekin upp. Þar er hægt að skoða húsið hennar  Lottu og Tant Berg. Ég gæti endalaust haldið áfram að tala um þennan garð en ég hvet alla aðdáendur Astridar, jafnt börn sem fullorðna að heimsækja Astrids Lindgrens värld! Ég mæli samt með því að fara ekki í júlí því þá er ofsalega mikið af fólki í garðinum.

Við höfum prófað nokkra gistimöguleika í Vimmerby. Hótel Ronja er ágætis íbúðarhótel, við vorum þar fyrir þremur árum og vorum mjög sátt við það. Núna gistum við í Smålandsbyn (áður Pippis hotell en afkomendur Astridar hafa lagt eignarhald á það nafn og þeir fá ekki að heita það lengur né nefna húsin sín eftir söguhetjum hennar!). Þetta er rétt fyrir utan Vimmerby, þaðan tekur bara 5 mínútur að keyra í garðinn. Þarna er skemmtilegt safn húsa í eftirlíkingu húsa söguhetja Astridar og með frábæru leiksvæði fyrir börn. Stóra gula húsið er hótel en við bjuggum útaf fyrir okkur í Maddittar húsi (bláa húsinu) með góða aðstöðu og húsið var afar snyrtilegt og hlýlegt. Mæli með þessum gistimöguleika! Athugið að gistingu í Vimmerby yfir hásumar þarf að bóka með margra mánaða fyrirvara, ég pantaði með hálfs árs fyrirvara. Og fyrst ég er byrjuð á þessu þá mæli ég líka með veitingastaðnum Brygghuset í Vimmerby sem er í veitingastaður Åbro verksmiðjunnar, afar góður matur þar!

Og þá er ég komin að því sem ég ætlaði að skrifa um áður en þessi færsla breyttist í færslu um hvað væri hægt að gera skemmtilegt með börnum í Svíþjóð og í Stokkhólmi! 🙂 Í húsinu þeirra Madditar og Betu (sem var mín uppáhaldssaga þegar ég var lítil og er núna uppáhalds hjá Jóhönnu minni!) eldaði ég sem sagt eggjaköku! Ég hef mjög sjaldan eldað eggjakökur í gegnum árin en þegar við vorum í Tyrklandi fyrir ári síðan var allur matur innifalinn á hótelinu og góður var hann! Á morgnana var hlaðborð með allskonar morgunmat en þar sem ég er lítið fyrir að borða morgunmat þá átti ég erfitt með að finna eitthvað sem ég hafði lyst á. Það var ekki fyrr en ég uppgötvaði kokkana sem stóðu í einu horninu og elduðu eggjakökur eftir pöntun að ég fór hreinlega að hlakka til að borða morgunmat! Eftir að hafa horft á kokkana elda gómsæta eggjaköku ofan í mig daglega í tvær vikur fór ég heim til Íslands og hef eldað sambærilega eggjaköku ótal sinnum síðan þá. Ég get meira að segja snúið henni við í loftinu eins og kokkarnir gerðu! 😉 En eiginmaðurinn var ekki nógu viðbragðssnöggur til að ná því á filmu þannig að þið verðið bara að taka mig trúanlega! 🙂

Eggjakaka er afar fitusnauður, saðsamur og góður matur. Það er hægt að nota næstum því hvaða grænmeti sem er, hvaða álegg sem er og hvaða ost sem er í eggjakökuna. Ég nota meira af eggjahvítum en rauðum, kakan verður hollari og próteinríkari þannig. Það er mjög sniðugt að kaupa eggjahvítur á brúsa eins og er seldur í matvöruverslunum, þær geymast í 7 daga í kæli en má frysta og því hægt að frysta þær í litlum, passlegum skömmtum.

Uppskrift:

 • 2 egg
 • 3 eggjahvítur
 • 2/3 dl mjólk (vill maður gera vel við sig er hægt að nota matreiðslurjóma eða rjóma!)
 • sveppir
 • skinka
 • ferskt brokkolí
 • rifinn ostur (líka hægt að nota ferskan mozzarella ost eða brie ost, skorið í bita)
 • smör eða olía til steikingar
 • 1/2 tsk basilka
 • 1/2 tsk oregano
 • salt og pipar

Aðferð:

Setjið egg og eggjahvítur í skál ásamt mjólk, pískið þessu létt saman, bætið kryddinu út í. Skerið sveppina fremur gróft og steikið þá á pönnu. Því næst er eggjahrærunni hellt út á pönnuna. Skinkan er skorin niður í bita ásamt brokkolíi og hvoru tveggja bætt út í ásamt ostinum Látið eggjakökuna malla á meðalhita, gætið þess að hafa hann ekki of háan þannig að eggjakakan brenni ekki. Pikkið í hræruna á meðan hún er að þykkna til að flýta fyrir.

Þegar kakan hefur stífnað vel er henni snúið við og hún steikt á hinni hliðinni í nokkrar mínútur. Það er hægt að snúa við kökunni til hálfs (í hálfmána) ef maður treystir ekki til að snúa henni við í heilu. Einnig er hægt að sleppa því að snúa henni við, setja lok á pönnuna og fullelda eggjakökuna þannig á annarri hliðinni. Einnig er gott að klára eldunina inni í bakarofni í nokkrar mínútur ef pannan kemst inni í ofn.