Þessir hafraklattar eru ofsalega góðir og ef maður einbeitir sér eingöngu að haframjölinu í uppskriftinni er jafnvel hægt að ímynda sér að þeir séu bráðhollir! Það er mikilvægt að baka klattana ekki of lengi. Ekki láta ykkur bregða þó þeir séu enn dúnmjúkir eftir baksturinn. Leyfið þeim að kólna og þá dökkna þeir aðeins og harðna en verða samt enn lungnamjúkir að innan. Jóhanna Inga beið spennt eftir að myndartökunni lyki (börnin eru farin að spyrja alltaf núna: ,,ertu búin að taka mynd, megum við borða?“ 😉 ) og hámaði svo í sig hafraklatta á mettíma!
Uppskrift:
- 500 gr smjör (lint)
- 100 gr sykur/hrásykur
- 300 gr púðursykur
- 4 tsk vanillusykur
- 4 egg
- 350 gr hveiti/spelt
- 2 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 1 tsk kanill
- 550 gr haframjöl
- 100 gr. smátt skorið suðusúkkulaði (má auka, minnka eða sleppa)
- 1 bolli rúsínur (má auka, minnka, sleppa)
Aðferð:
Smjör, sykur og púðursykur þeytt þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í einu og einu í senn ásamt vanillusykri. Þurrefnum bætt út í, hveiti, matarsóda, salti og kanil, og í lokin er haframjöli, rúsínum og súkkulaði bætt við.
Á þessu stigi er deigið mjög blautt. Búið til kúlur í höndunum, ca. á stærð við tómata/plómur, setjið á plötu og fletjið lítillega út. Ég næ um það bil 9 stykkjum á plötu. Athugið að klattarnir stækka í ofninum.
Bakað í miðjum ofni við 200° í ca 8-10 mínútur. Mikilvægt að baka ekki klattana of lengi, þeir eiga rétt að vera ljósbrúnir. Úr þessari uppskrift fékk ég ca. 30 klatta.