Uppáhalds í eldhúsinu


Ég fór að velta því fyrir mér um daginn hvaða áhöldum og tækjum í eldhúsinu ég gæti ekki verið án þegar kemur að matargerð. Hér er topp 10 listi yfir það sem ég er ánægðust með!

1. Í fyrsta sæti eru klárlega góðir hnífar (og eiginlega þar með skurðarbretti líka). Ég held að það að það gerist hér um bil aldrei að ég byrji ekki matarundirbúning án þess að draga fyrst fram hnífa og skurðarbrettið (plast, þoli ekki tréskurðarbretti, finnst lyktin setjast svo í þau). Við fengum fyrsta Global hnífinn að gjöf frá góðum vinum okkar fyrir sex árum síðan. Það var ekki aftur snúið! Global hnífasafnið okkar samanstendur í dag af fjórum hnífum og svo Global hnífastandinum. Ég er ánægðust með G-2 hnífinn og svo brauðhnífinn, maður kemst mjög langt bara með þessa tvo. Það er líka mikilvægt að eiga demantsbrýni til að halda við skerpunni í hnífunum.   Vissulega kosta hnífarnir töluvert en miðað við notkunina og hvað þeir létta eldhússtörfin mikið þá sú fjárfesting algjörlega þess virði.

2. Spanhelluborð! Ég hefði líklega ekki sett helluborð ofarlega á listann áður en ég eignaðist Siemens spanhelluborðið mitt fyrir fjórum árum. Það er með ólíkindum hvað það er þægilegt að elda á spanhellum, algjörlega hægt að stjórna hitanum og hellurnar hitna til fullnustu á bara sekúndum. Svo er ég með helluborð sem er 80 cm í stað 60 cm sem er algengast, afskaplega gott að hafa svona rúmt pláss. Spanhelluborð, elska’ða!!

3. Teflonpanna. Góðar steikarpönnur eru lífsnauðsynlegar í eldhúsinu. Það er fátt jafn leiðinlegt í eldamennsku og þegar allt festist á pönnunni eða pönnur sem steikja ójafnt! Ég vil líka eiga góða stærð á pönnum þar sem ég elda yfirleitt fyrir marga. En svo er líka gott að eiga minni pönnu fyrir annað, stærðirnar sem ég á eru 26 cm og 32 cm. Ég er ekki með dýran pönnusmekk, finnst fínar þessar venjulegu teflonpönnur frá Tefal.

4. Matarstell. Við keyptum 4 hvíta matardiska í Hagkaup þegar ég var 19 ára og við byrjuðum að búa. Þetta voru svo sem ágætisdiskar frá Arabia. Tveimur árum síðar bjuggum við í Stokkhólmi og áttum von á þremur matargestum. Ég sendi Elfar í Åhlens að kaupa einn disk í viðbót en þeir áttu þetta sama merki. Hann kom heim með eins disk en óvart í næstu stærð fyrir ofan. Í viðbót við allskonar Íkea stell notuðum við þessa fimm matardiska (þar af einn stærri en hinir!) hversdags næstu 15 árin. Þegar við fluttum heim frá Stokkhólmi fyrir fjórum árum ákvað ég að kaupa almennilegt hversdagsstell til að taka með okkur heim til Íslands, stell sem væri í stíl! Ég keypti þetta sænska stell, Blå herrgård, frá Fyrklövern á Blocket (sem er sænska Bland) á afar góðum kjörum, hér um bil ónotað. Inni í því voru 12 matardiskar, 12 djúpir diskar, tarína, kökudiskur á þremur hæðum, kaffistell, skálar, pæform og ótal fleira. Ég er enn í skýjunum með þessi góðu kaup. Þetta er voða sænskt stell og passar vel í litla timburhúsið okkar sem er dálítið í sveitalegum stíl.

4. Ég lét ekki þar við sitja heldur keypti líka á Blocket frá sama merki, Fyrklövern, jólastell, Gammaldags jul heitir það en ég leyfi því að fljóta með í 4. sætið ásamt hversdagsstellinu. Ég lét nægja að kaupa bara jólakaffistell en það er ó svo fallegt! Þetta jólastell verður stellið sem börnin munu rífast yfir eftir minn dag því þeim mun finnast óhugsandi að halda jól öðruvísi en að drekka kakó úr jólabollunum og borða smákökur af jóladiskunum af æskuheimilinu! 🙂

5. Næst er það að sjálfsögðu Kitchen Aid hrærivélin. Hún er auðvitað ómissandi í baksturinn. Eitt af því sem mér líkar hvað best við hana er hnoðarinn. Ég hnoða allt gerdeig í hrærivélinni. Eins er frábært hvað hún er fljót að þeyta. Gallinn við hana er að deigið fer mikið út í hliðarnar á skálinni. En það er bara smávægilegur galli miðað við alla kostina. Mér finnst allar þessar marglitu Kitchain Aid vélar sem eru komnar núna afar fallegar. En við fengum okkar í brúðargjöf frá foreldrum mínum fyrir 19 árum og þá voru ekki margir litir að velja úr. Okkar er hvít en ég held reyndar að ég myndi velja hvíta aftur þrátt fyrir alla fallegu litina sem hægt er að velja úr núna.

6. Ég verð eiginlega að nefna matvinnsluvélina á þessum tímapunkti. Matvinnsluvélin sem við eigum er svo sem ekkert merkilegt merki né sérstaklega öflug en ég nota hana rosalega mikið og þegar ég hugsa um það þá væri ég hreinlega hálf handlama án hennar í eldhúsinu. Ég nota hana oft í viku við allskonar matargerð og bakstur.

7. Nýji blenderinn okkar, Vitamix, kemur næstur þó fyrr hefði verið. Hann er notaður daglega í allskonar boozt gerð. Ég get ekki lýst því hvað það munaði miklu að fara frá venjulegum blender yfir í þessa græju! Hann er vissulega ljótur, hávær og alltof klossaður og stór (týpískt fyrir amerískt tæki) en gerir svo sannarlega sitt gagn. Það þarf ekkert að passa upp á klaka eða frosin ber, hann mylur þetta allt eins og ekkert sé á methraða. Svo er líka mjög þægilegt að þrífa könnuna, annað en glerkönnuna sem við vorum með áður.

8. Næst eru það bökunarform, þau skipta afar miklu máli! Ég nota mjög mikið silikon bökunarform og finnst þau frábær. Það þarf varla að smyrja þau og það er alltaf auðvelt að losa kökuna úr silikon formi. Annað kökuform sem ég er einstaklega ánægð með er kökuform/diskur sem ég fékk í Duka fyrir nokkrum árum. Þetta er hvítur kökudiskur sem þolir bæði ofn og frysti og á hann er hægt að smella kökuformi. Alveg tilvalið til dæmis fyrir ostakökur sem er erfitt að flytja úr formi yfir á kökudisk. Þá er bara hægt að smella forminu af og bera svo fram kökuna beint fram á disknum.

9. Ég verð eiginlega að nefna steikaráhöld. Mér finnst mjög mikilvæg að vera með góða steikarspaða, písk og svo nota ég mikið steikartöng. Ég keypti steikaráhöld frá Fiskars í fyrra í Svíþjóð og ég er afskaplega ánægð með þau áhöld.

10. Ísskápur! Þegar rafmagnið fer af er maður harkalega minntur á hvað ísskápur gegnir veigamiklu hlutverki á heimilinu þegar kemur að mat! Í Svíþjóð er á flestum heimilum heill stór ísskápur og heill stór frystiskápur og yfirleitt gert ráð fyrir því í eldhúsinnréttingum. Ég sakna þess rosalega mikið! Þó ég sé með auka frystiskáp úti í skúr þá er það ekki það sama og að hafa hann inni í eldhúsi. Það að hafa svona gott pláss bæði í frysti og ísskáp gerir manni keyft að kaupa inn mikið skipulegra og hagkvæmar. Þegar við fluttum til Íslands keyptum við hús og gerðum upp meðal annars eldhúsið. Það er fremur lítið og það var sama hvernig ég reyndi, það var ekki möguleiki að koma fyrir heilum íssskáp og heilum frystiskáp. Mér líkar ekki vel við ameríska ísskápa (fyrir utan klakavélina), finnst bæði ísskápurinn og frystirinn í þeim afskaplega mjór og leiðinlegur. En við fórum milliveginn, keyptum 75 cm breiðan Liebherr ísskáp. Hefðbundnir ísskápar eru 60 cm og ég hefði aldrei trúað því hvað það munar miklu um þess 15 cm! Reyndar er ég ekki alveg sátt við ísskápinn þó að Liebherr eigi að vera ægilega gott merki. Mér finnst þeir hlutar af skúffum og hillum sem eru úr plasti inni í ísskápnum vera afar viðkvæmir og það hafa komið svolítið af sprungum í plastið sem mér finnst ekki eðlilegt fyrir svona nýjan ísskáp. En í það heila er ég mjög ánægð með ísskápinn og þá sérstaklega að hafa fengið extra stóran ísskáp þrátt fyrir allt. Ég er lítið gefin fyrir stál enda passar það illa inn í húsið okkar þannig að við völdum hvítan ísskáp.

Þá er ég komin upp í tíu hluti en er sífellt að detta fleira og fleira í hug! Ég gæti alveg bætt við bökunarhorninu mínu sem er með granítplötu, meiraháttar þægilegt til að hnoða deig á og hafa möguleika á að setja heit form úr ofninum beint á granítið. Simenz bakarofninn minn er mjög góður, hann er með frábæra kosti eins og sjálfvirkt hreinsikerfi, hann er einnig með þægilegum tímastillingum og fleira. Eins er það kaffivélin sem ég er svo ánægð með því hún er afskaplega falleg, en þar sem ég drekk ekki kaffi þá fær hún ekki að komast á listann. Margrethe skálarnar eru bæði fallegar og praktískar en kannski ekki lífsnauðsynlegar og komast því ekki á topp 10. Svo eru það lúxustækin, brauðristin, vöfflujárnið, belgíska vöfflujárnið, Crepes pannan, pönnukökupannan og samlokugrillið.  Allt eru þetta tæki sem ég vildi ekki vera án en eru samt ekki nógu mikilvæg til að komast á topplistann. Hvaða tæki/áhöld í eldhúsinu eru í uppáhaldi hjá ykkur?

(Myndirnar í þessu innleggi eru teknar af heimasíðum viðkomandi fyrirtækja, fyrir utan myndina af bökunarforminu sem er tekin af mér.)

Eggjahræra með ostum og innkaup í eldhúsið


Áður en ég set inn uppskrift dagsins ætla ég að setja inn nokkrar myndir af því sem ég keypti fyrir eldhúsið í Stokkhólmsferðinni. Fyrst fór ég í Drömhuset en það er voða sæt búð sem kemur oft fyrir í þeim sænsku bloggum sem ég les reglulega og mig hefur lengi langað að kíkja í. Þar féll ég fyrir þessu fallega formi.

Ég les reglulega bloggið hjá Pernillu Wahlgren sem er þekkt söngkona í Svíþjóð. Hún var að koma með sína eigin kjólalínu sem meðal annars er seld í Drömhuset. Ég veit að Svava vinkona mín les bloggið hennar líka og ég tók þessa mynd sérstaklega fyrir þig Svava! 🙂

Ég er lengi búin að leita að fallegum hvítum trébakka og fann nákvæmlega rétta bakkann í Hemtex.

Ég keypti svo tvær grænar Margrethe skálar, en ég átti nokkrar fyrir. Margrethe skálarnar voru hannaðar árið 1954 af Sigvard Bernadotte. Sigvard var hönnuður en jafnframt sænskur prins, föðurbróðir núverandi Svíakonungs og hann nefndi skálarnar eftir frænku sinni, núverandi Danadrottningu. Svíar eigna sér þar með hönnunina af þessum skálum en danir eru hins vegar duglegir að minnast þess að í raun var það Daninn Jacob Jensen, sem starfaði hjá Sigvard, sem hannaði skálarnar. Þessar skálar eru klassískar og eru ódrepandi, enda margir sem eiga svona skálar sem eru orðnar kannski 40-50 ára og enn í notkun!

En svo ég víki að uppskrift dagsins. Um daginn setti ég inn uppskrift af eggjaköku en mér finnst eggjakökur afskaplega góðar. Eins eru ostar í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst því þessi uppskrift súper góð þar sem þessu hvor tveggja er blandað saman! Þetta er sniðugur réttur til að bjóða í veislum, afmælum, saumaklúbbum eða við sambærileg tilefni og er skemmtileg tilbreyting frá heitum réttum, ostasalötum og slíku. Hér bar ég hræruna fram á snittubrauði sem ég var búin að rista í ofni en það er líka gott að bera hana fram á hefðbundnu ristuðu brauði eða jafnvel kexi. Það er svo ómissandi setja rifsberjahlaup á hræruna eða jafnvel chilisultu.

Uppskrift

  • 1/2 stk Gullostur
  • 1/2 stk Brie ostur
  • 6 sneiðar Goudaostur
  • 6 egg
  • 1 dl mjólk
  • 1 tsk basilika
  • salt og pipar

Aðferð:

Skerið Brieostinn og Gullostinn í bita og rífið eða skerið Goudaostinn smátt. Sláið saman eggi og mjólk og kryddið með salti og pipar. Hellið eggjablöndunni á pönnu og látið taka sig, setjið ostinn saman við og hrærið stöðugt í. Bakið ekki of lengi því eggjahræran á að vera dálítið blaut. Berið hana fram, heita eða kalda, með ristuðu brauði og rifsberjahlaupi.