Guacamole


Guacamole er í miklu uppáhaldi hér á heimilinu. Ég kaupi aldrei þetta tilbúna í krukkum, það er bara alls ekki gott! Enda minnir mig að það standi í innhaldslýsingu að í krukkunni sé 1% avókadó! Yngstu krökkunum finnst reyndar best þegar ég stappa saman fersku avókadó og blanda við tilbúna guacamole kryddblöndu. En okkur hinum finnst þessi uppskrift best. Það er hægt að nota hana með meiru en bara tortillas vefjum eða tortilla flögum. Það getur verið gott að bera fram guacamole með grilluðum mat, hamborgurum og ekki síst með þessum rétti. Eins og alltaf með avókadó þá er mikilvægt að það sé orðið rétt þroskað. Til að hraða fyrir þroskanum er hægt að setja avókadó í lokaðan bréfpoka með eplum og/eða banönum sem gefa frá sér etýl gas sem hraðar fyrir þroskanum. Það er misjafn smekkur fólks hversu gróft það vill hafa guacamole maukið. Ég vil hafa bita í því en það er líka hægt að mauka það alveg saman fyrir þá sem vilja. Hér að neðan gef ég upp hlutföll í uppskriftinni en það er mikilvægt að smakka maukið til. Til dæmis geta chili-aldin verið misjafnlega bragðsterk og gæti þurft að minnka eða auka magnið af þeim sem og af öðrum hráefnum.

Uppskrift:

  • 2 vel þroskuð avókadó, skorin í litla bita
  • 2 stórir tómatar, skornir mjög smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt (má sleppa)
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 fersk rauð chili, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • 1-2 búnt ferskt kóríander, saxað smátt
  • 1/2 tsk salt

Blandið saman öllum hráefnunum og setjið í skál, lokið skálinni mjög þétt með plastfilmu og geymið í ísskáp í minnst korter áður en hún er borin fram. Guacamole geymist illa og ætti því að vera borið fram strax.