Gullterta með vanillukremi og hindberjamauki


Amma bakar stundum köku sem hún kallar gulltertu. Það eru tveir svampbotnar bakaðir með marengs ofan á sem eru síðan lagðir saman með rjóma á milli. Mér hefur alltaf fundist þetta svo góð terta og hef verið að hugsa um það undanfarið að baka svipaða tertu. Ég ákvað að bæta við tveimur hráefnum sem eru afar sænsk, það er vanillukrem annars vegar og hindberjamauk hinsvegar. Vanillukrem og vanillusósur eru eiginlega uppstaðan í bakelsi hjá Svíum. Þessi svampbotn afar gómsætur og ekkert líkur svampbotnum sem hægt er að kaupa tilbúna. Það þarf að skipta honum í þrjá hluta en ég er ægilegur klaufi að skera beint! Það kom sér því vel að ég hafði keypt fyrir nokkru voða sniðugt og einfalt tæki til þess einmitt að skera tertubotna (í Íkea) og það þrælvirkaði. Mér fannst þessi terta ljúffeng og mér skilst að sama hafi átt við um þá sem nutu hennar með mér!

Uppskrift:

Svampbotn:

  • 3 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl kartöflumjöl
  • 1 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft

Hitið ofninn í 175 gráður. Þeytið saman egg og sykur þar til það verður létt og ljóst. Bætið við kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti. Hellið deginu í smurt smelluform (ég notaði 20 cm form til að fá hæð í kökuna) og bakið við 175 gráður í ca. 35 mínútur. Látið botninn kólna og skiptið honum svo í þrjá hluta.

Vanillukrem:

Heimatilbúið vanillukrem á sænska vísu er hrikalega gott og til margvíslegra nota. Kremið er afar einfalt að búa til, það mikilvægasta er að láta það ekki sjóða eða brenna við botninn.

  • 2 eggjarauður
  • 3 dl mjólk
  • 3 msk sykur
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 vanillustöng

Kljúfið vanillustöng í tvennt, skafið fræin innan úr og setjið í lítinn pott. Bætið í restinni af hráefnunum út í pottinn. Pískið stöðugt á meðan suðan kemur upp og kremið er að þykkna. Kremið má alls ekki sjóða og það þarf að passa að það brenni ekki við botninn. Þegar passlegri þykkt er náð (þannig að kremið sé hægt að setja á kökubotn án þess að það leki) er kreminu helt úr pottinum og það látið kólna. Þetta vanillukrem er hægt að nota á kökur, í tertur og í snúða svo eitthvað sé nefnt.

Hindberjamauk:

  • 3 dl hindber (afþýdd)
  • 2 msk flórsykur
  • 1 msk kartöflumjöl

Setjið öll hráefnin í pott á meðalhita og hrærið þar til að blandan er orðin að föstu mauki. Látið kólna.

Marengs:

  • 3 eggjahvítur
  • 1/2 tsk edik
  • 1/2 tsk salt
  • 1 dl sykur
  • +1 peli rjómi, þeyttur

Skiptið svampbotninum í þrjá hluta. Setjið vanillukremið á neðsta botninn og setjið miðjubotninn yfir. Ofan á hann er svo sett hindberjamaukið. Ofan á hindberjamaukið er settur þeyttur rjómi. Eggjahvíturnar eru þeyttar ásamt ediki og salti. Sykri bætt við smátt og smátt og þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Efsti hluti svampbotnsins er lagður á ofnplötu með smjörpappír á og marengsinn er settur yfir botninn. Gerið toppa í marengsinn hér og þar. Bakið í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur eða þar til marengsinn hefur fengið smá lit. en hann á að vera mjúkur í miðjunni. Þegar marengsbotninn hefur kólnað er hann lagður ofan á tertuna. Þetta er terta sem er jafnvel enn betri daginn eftir.

4 hugrenningar um “Gullterta með vanillukremi og hindberjamauki

  1. Is there an English translation for this recipe? Is this Icelandic? If so, I would like to make this for my Icelandic Granddaughter when she comes to the States to visit. It would be a nice surprise for her.

    • Sorry, I just have this recipe in Icelandic. You could try Google translate and see if the translation makes sense! 🙂 Notice that „kartöflumjöl“ is potato starch or potato flour in English and „vanillustöng“ are the beans from dried vanilla fruits.

  2. Þessi er mjög góð, ég hefði fengið mér meira ef ég hefði ekki verið búin að prófa allar hinar kræsingarnar sem voru á sama borði og þessi. Það komst bara ekki meira fyrir!

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.