Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku


Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Dagarnir líða svo ótrúlega hratt hjá mér nú um mundir. Á hverjum degi finnst mér ég rétt komin á fætur þegar það er komið aftur kvöld. Ég á það til að taka að mér of mikið af verkefnum. Það er mikið að gera í aðalvinnunni minni, nóg að gera í aukavinnunni og komið að skiladögum í auka-aukavinnunni minni. Ég á erfitt með að segja nei við verkefnum og þegar ég hef tekið þau að mér þá vil ég gera þau 110% og tímarnir í sólarhringnum duga ekki til. Ég er samt að æfa mig að segja nei og tekst það öðru hverju! 🙂 Núna er sérstaklega mikið að gera því ég er að auki að undirbúa og pakka fyrir ferðalag okkar Elfars sem hefst á morgun. Hann er að fara að flytja fyrirlestur á ráðstefnu á Rhodos og ég gat ekki staðist mátið að fara með. Mikið verður gott að fara í sólina í nokkra daga eftir sólarlaust sumar hér á Íslandi! Amman og afinn eru svo góð að flytja inn til barnanna á meðan þannig að við getum notið þess að vera í fríi áhyggjulaus – mikið hlakka ég til! 🙂

Áður en ég vík að uppskrift dagsins þá langar mig að benda á frábæra bók sem kom út í síðustu viku. Steingrímur Sigurgeirsson rekur vefinn Vínótek sem er dæmalaust öflugur og flottur uppskriftavefur en að auki eru þar umfjöllun og dómar um vín og veitingastaði ásamt vefverslun með til dæmis vínglösum. Steingrímur var að gefa út bókina „Vín – frá þrúgu í glas„, bók sem hefur að geyma margvíslegan fróðleik um vín. Ég hef ekkert vit á vínum, vel oftar en ekki vín út frá fallegum myndum á flöskunni, finnst sæt hvítvín best því þau bragðast eins og ávaxtasafi og býð gestum mínum blygðunarlaust upp á rauðvín af „belju“ ef því er að skipta. Botninum náði ég þó í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Þá var ég að vinna á sjúkrahúsinu með íslenskum lækni sem leysti af á deildinni minni um tíma. Við buðum honum í mat og ég eldaði góða máltíð. Rétt áður en hann kom þá datt mér allt í einu í hug að kannski væri huggulegt að bjóða upp á rauðvínslögg með kjötinu. Við áttum eina ræfilslega rauðvínsflösku frá Californiu sem hafði kostað 50 sænskar krónur, sem sagt ekkert gæðavín þar á ferðinni en ég ákvað að láta það duga. Rétt áður en gesturinn mætti þá tók ég eftir því að eiginmaðurinn hafði lagt hvítvínsglös á borðið, ég ætlaði að láta hann skipta um glös en gleymdi því. Því fór svo að gestinum var boðið upp á 50 króna bandarískt rauðvín í hvítvínsglösum. Gesturinn var svo ljúfur og hógvær að hann hrósaði máltíðinni bak og fyrir og lét eins og honum hefði verið boðið eðalvín. Það var ekki fyrr en alllöngu seinna að við komumst að því að hann er einn helsti og besti hvítvínssérfræðingur landsins! Eftirleiðis þegar hann kom til okkar í mat þá lét ég hann um að koma með vínið með sér og einbeitti mér að því sem ég kann betur, að elda mat! Það mætti halda að þessi saga hefði frést út því ég fékk sent eintak af bókinni „Vín – frá þrúgu í glas“ í síðustu viku – kærar þakkir Forlagið, ég þurfti á henni að halda! 😉 Ég er heilmikið búin að lesa í bókinni sem er algjörlega frábær. Upplýsingarnar eru afar aðgengilegar, jafnvel fyrir einhvern eins og mig sem kann ekkert um vín, og settar fram á skemmtilegan hátt. Nú veit ég til dæmis hver er munurinn á Reserva og Grand Reserva! 🙂 Lesturinn æsir upp í mér enn frekar löngunina að fara í matar- og vínferð til Frakklands og Ítalíu, draumur sem ég mun láta rætast einn daginn!

IMG_0037Mér finnst rauðvínsglasahringirnir á bókakápunni og inni í bókinni svo flottir og vel til fundnir!

Það er skemmtileg tilviljun að rauðvínshringirnir á bókinni eru einmitt í sama lit og rétturinn sem ég ætla að gefa uppskrift að í dag – þetta er vinsæll litur! Í afmælisveislu Jóhönnu um daginn bauð ég upp á rúllutertubrauð sem ég hef ekki prófað áður en uppskriftina sá ég í Gestgjafanum og breytti henni, notaði annarskonar ost og sultu. Það verður að segjast að brauðrétturinn var ákaflega sérstakur á litinn en góður var hann. Anna vinkona benti mér pent á að brauðrétturinn og buxurnar hennar og hálsmenið voru nákvæmlega eins á litinn og ég held ég geti fullyrt að það sé sjaldgæft að afmælisgestir klæði sig í stíl við brauðrétti eða að brauðréttir séu í tískulitunum! Þrátt fyrir sérstakan lit þá var þessi brauðréttur mjög góður og skemmtileg tilbreyting í brauðréttaflóruna. Þar sem að brauðrétturinn var ekkert sérstaklega aðlaðandi fyrir myndartöku af tók ég fáar myndir af honum en hér flikkar Anna vinkona verulega upp á eina brauðréttamyndina – allt í stíl! 🙂

IMG_7001

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 200 g hindberjasulta
  • skinkusneiðar (ég notaði tæpt box af silkiskorni reyktri skinku frá Ali)
  • 1 Gullostur, mjög kaldur (gott að setja í frysti í 3-4 tíma – ég mundi þetta auðvitað ekkert þannig að ég setti ostinn bara í frysti í 1 tíma og það var í lagi)

Ofn hitaður í 180 gráður. Penslið rúllutertubrauðið með sultu og leggið skinku ofan á. Skerið kalda ostana í sneiðar og leggið á rúlluna. Brauðinu er rúllað upp og hjúpnum (sjá uppskrift hér neðar) smurt á brauðið. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 15 mínútur.

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Hjúpur:

  • 3 msk. bláberjasulta
  • 3 msk rjómaostur
  • 1 eggjarauða

Sultu og rjómaosti hrært vel saman í potti og hitað upp.  Því næst er blandan kæld og eggjarauðunni hrært út í.