
Annar sunnudagur í aðventu … tíminn þýtur svo sannarlega áfram. Í dag fórum við í árlegt aðventukaffi til Ingu frænku í tilefni afmælis hennar. Að vanda bauð hún upp á gómsætar veitingar, uppskriftir að flestum þeirra er einmitt að finna hér á Eldhússögum! 🙂 Jóhanna Inga tók rafmagnsgítarinn sinn með og tróð upp með afmælissöng og jólalögum. Hún er ansi dugleg á gítarinn þrátt fyrir að hafa bara lært á hann í eina önn. Ég hins vegar er orðin liðtækur rótari og get meira að segja stillt gítarinn fullkomlega þökk sé snilldar gítarstillingar-appi á símanum mínum, eins gott að það er til, annars væri lítið gagn í mér. Því miður varð Jóhanna Inga veik í boðinu og núna er hún komin með háan hita og er slöpp, vonandi jafnar hún sig fljótt af því.
Fyrir utan allar gómsætu veitingarnar sem Inga útbjó sjálf þá gerði ég einn brauðrétt auk þess sem Inga keypti gómsætar vestfirskar hveitikökur (sem eru ómótstæðilegar með smjöri og reyktum silungi!) af Önnu frænku okkar, sem er snilldar konditor, ásamt ljúffengum mömmukökum . Ég mæli sannarlega með því að þið kíkið á básinn hjá Önnu konditorí í jólaþorpinu í Hafnarfirði eða í bakaríið hennar og kaupið ykkur jólagott.

Brauðrétturinn sem ég gerði er ein af þeim uppskriftum sem var næstum því fallinn í gleymskunnar dá þótt að þetta sé „æðislegur brauðréttur“ eins og segir í titlinum. Mér finnst dálítið kjánalegt að láta einhvern rétt heita „æðislegur“ en ákvað bara að láta titilinn standa eins og hann stendur í gömlu uppskriftabókinni minni. Um daginn minnti Hildur vinkona mín mig á þennan brauðrétt og sagðist hafa fengið uppskriftina hjá mér. Hún fór að tala um að rétturinn hefði slegið í gegn hjá henni í saumaklúbbi. Ég mundi ómögulega eftir þessum brauðrétti og fletti í gegnum gömlu uppskriftabókina mína en ég hélt mig hafa fært allar uppskriftirnar hingað inn á bloggið. Svo var greinilega ekki því ég fann þessa uppskrift á snjáðri síðu í bókinni og það rifjaðist upp fyrir mér hversu vinsæll þessi brauðréttur hefur verið í veislum hjá mér í gegnum tíðina. Það er svo skemmtilegt við þennan rétt að það er ekki á honum rifinn ostur heldur þeyttar eggjahvítur með dálitlu majónesi og kryddum.
Uppskrift í fremur lítið eða meðalstórt form (á myndinni er ég með tæplega tvöfalda uppskrift í stóru formi):
- ca. 12-14 brauðsneiðar skornar í teninga (ég sker skorpuna af)
- 2 dl majónes
- 1 dós sýrður rjómi
- 200 g skinka, skorin í sneiðar
- aspas í dós (ca. 400 gramma dós)
- 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða sett í hvítlaukspressu
- ca 150 g sveppir, skornir í sneiðar
- 1 stór rauð paprika, skorin í bita
- ca. 1 tsk karrí
- 1/4 tsk cayanne pipar
- salt & pipar
Ofan á brauðréttinn:
- ca. 2-4 eggjahvítur (fer eftir stærð formsins)
- 3 msk majónes
- hnífsoddur karrí
- hnífsoddur cayanne pipar
Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningunum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í því með aspassafanum.
Majónesi, sýrðum rjóma, skinku, aspas, sveppum og hvítlauki er hrært saman.
Kryddað með cayanne pipar, karrí, salti og pipar. Gott er að byrja með minna en meira af karrí og cayanne pipar og smakka sig svo áfram. Blöndunni er svo dreift yfir brauðið.
Eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Því næst er majónesi og örlítið af cayanne pipar og karrí hrært varlega saman við og blöndunni smurt yfir brauðréttinn.
Hitað í ofni í ca. 25-30 mínútur.
Borið fram heitt.
Líkar við:
Líkar við Hleð...