Eplakaka með rjómaosti


Eplakaka með rjómaosti

Jóhanna Inga dóttir mín er ekkert sérstaklega hrifin af súkkulaðikökum. Helst vill hún þá bara hafa kökuna án súkkulaðikrems. Það kom því ekki annað til greina á afmælinu hennar um daginn en að baka líka uppáhaldskökuna afmælisbarnsins, eplaköku. Við mæðgur deilum þessari ást á eplakökum. Reyndar þá finnst mér eplakökur og flestar aðrar kökur sem byggðar eru á einhverskonar sandkökugrunni ekkert henta sérstaklega vel á afmælishlaðborð. Slíkar kökur eru hins vegar himneskar einar og sér sem til dæmis sunnudagskaka eða til þess að bjóða í kaffiboði þar sem bara ein eða tvær kökur eru á borðum. Í afmælisboðum er ég hrifnari af því að vera með marengstertur, súkkulaðikökur, ostakökur og aðrar slíkar kökur sem eru meira svona gúmmelaði. Ég tek líka eftir því að þær kökur eru vinsælli í afmælum heldur en sandkökur. Þessari eplaköku var reyndar gerð afar góð skil í afmælinu. Að þessu sinni prófaði ég að gera hana rjómaosti og það gerði hana ákaflega safaríka og mjúka.

IMG_6984

Uppskrift:

 • 2 dl sykur
 • 120 ml olía
 • 1 tsk vanillusykur
 • 200 g rjómaostur
 • 2 stór egg
 • 2 dl hveiti
 • 1.5 tsk lyftiduft
 • kanelsykur
 • 3 epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í báta

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og ca. 24 cm smelluform smurt að innan. Sykur, olía, vanillusykur og rjómaostur er hrært vel saman. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært vel. Því næst er hveiti og lyftidufti bætt út í og hrært við lágan hraða þar deigið hefur blandast vel saman. Deiginu er svo hellt í smurt formið. Eplabátunum er velt vel upp úr kanelsykri og því næst stungið hér og þar ofan í deigið. Að síðustu er dálítið af kanelsykrinu stráð yfir kökuna. Bakað í ofni í ca 50-60 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn í miðjunni og farin að losna frá forminu. Ef kakan fer að verða dökk í ofninum áður en hún er bökuð í gegn er gott að setja álpappír yfir hana. Best borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_7078

Eplakaka með karamelliseruðum eplum


IMG_7974Við Jóhanna bökuðum þessa gómsætu eplaköku í vikunni. Jóhanna er svo hrifin af eplakökum að hún er alltaf að ítreka við mig að hún vilji ekki súkkulaði afmælisköku heldur eplaköku á afmælinu sínu – hún á afmæli í ágúst! 🙂 Þessi kaka er dásamlega mjúk og bragðgóð. Uppskriftin er frekar stór, hún passar í form sem er ca. 25 x 35 cm. Hún var hrikalega góð sjóðandi heit en ég ákvað að taka myndir af kökusneiðinni þegar hún væri orðin köld og auðveldara væri að skera hana. Þessi ákvörðun varð til þess að ég náði ekki neinni mynd af stakri kökusneið! Nokkrum tímum eftir að við mæðgur bökuðum kökuna og ég ætlaði að mynda hana var kakan hér um bil búin! Það má því með sanni segja að fjölskyldan hafi verið ánægð með kökuna, Vilhjálmur sagði til dæmis að þetta væri besta eplakakan sem hann hefði smakkað! Það gerir hana sérstaklega góða að nota eplabáta sem hafa verið karamelliseraðir áður.

IMG_7961

Uppskrift:

 • 4 egg
 • 4 dl + 4 msk sykur
 • 200 g + 1 msk smjör
 • 2 msk púðursykur (má líka nota sykur)
 • 2 dl mjólk
 • 6 dl hveiti
 • 4 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • ca 5 epli
 • 4 tsk kanill

Ofninn er hitaður í 200 gráður undir/yfirhita. Smjörið er brætt í potti, hann svo tekinn af hellunni, smjörinu leyft að kólna örlítið og mjólkinni svo bætt út í. Epli eru afhýdd, kjarnhreinsuð, skorin í báta og þeim svo velt upp úr 4 msk sykri og 4 tsk kanilssykri. Þá er 1 msk smjör og púðursykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað. Því næst er eplunum bætt út í og þeim velt vel upp úr heitu sykurblöndunni við meðalhita þar til eplabátarnir hafa náð góðri karamelliseringu. Egg og 4 dl sykur þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, vanillusykri og lyftidufti bætt út í og því næst mjólkinni og smjörinu. Deigið sett í smurt stórt bökunarform (mitt form er 25 x 35 cm). Eplabátunum er raðað ofan í deigið og kakan bökuð í ca. 20-25 mínútur í miðjum ofni við 200 gráður. Ég stráði dálítið af perlusykri yfir kökuna en því er vel hægt að sleppa.

IMG_7967

Sólskinskaka með eplum


Þegar við Elfar hófum búskap í janúar 1992 var ég 19 ára gömul. Það fyrsta sem ég keypti til heimilisins var bók til að skrifa uppskriftir í. Framalega í bókinni, sem er orðin ansi lúin í dag, er uppskrift af sólskinsköku með eplum. Samviskusamleg hef ég skráð að uppskriftin er skrifuð niður árið 1993 og kemur frá mömmu! 🙂 Þetta er einföld en góð eplaka. Ég hef breytt henni lítisháttar. Í uppskriftinni er eplunum velt upp úr sykri eingöngu. Ég velti þeim upp úr kanil og örlitlum sykri. Auk þess hef ég minnkað sykurmagnið dálítið í kökunni. Um daginn voru hér nokkuð mörg börn í húsinu eins og svo oft áður í sumarfríinu. Ég ákvað því að baka þessa köku fyrir kaffitímann og fékk með mér litla hjálparkokka í verkið!

Hráefni:

 • 150 gr. smjör
 • 3 egg
 • 1.5 dl. sykur
 • 2.5 dl. hveiti
 • 1 tsk. lyftiduft.
 • 3 græn epli, afhýdd og sneidd í báta, velt upp úr kanil og dálítlum sykri.

Aðferð:

Ofninn er stilltur á 180 gráður og kringlótt smelluform smurt. Smjör brætt og kælt dálítið. Sykur og egg þeytt létt og ljóst og smjöri hrært saman við. Hveiti og lyftidufti bætt út í og deiginu helt í kökuformið. Eplin eru afhýdd, kjarninn skorin úr og þau sneidd í báta. Þeim velt upp úr kanel og smá sykri og stungið ofan í deigið. Reyndar notuðum við aðferð sem hjálparkokkunum hugnaðist vel, settum bara allt í poka og hristum!

Kökuformið er frábærlega sniðugt, keypt í Duka fyrir nokkrum árum. Diskurinn þolir bæði ofn og frysti og formið hentar því vel fyrir kökur sem maður vill ekki þurfa að hvolfa til þess að ná þeim úr forminu, t.d. ostakökur. Smelluformið er bara losað og kakan borin beint fram á disknum sjálfum.

Kakan er bökuð í ca. 40 -50 mínútur og borin fram heit. Ekki er verra að bera fram með henni þeyttan rjóma eða ís á tyllidögum! Hluti af kökunni hjá okkur var eplalaus þar sem eitt barnanna vildi eplalausa eplaköku! 🙂