Jóhanna Inga dóttir mín er ekkert sérstaklega hrifin af súkkulaðikökum. Helst vill hún þá bara hafa kökuna án súkkulaðikrems. Það kom því ekki annað til greina á afmælinu hennar um daginn en að baka líka uppáhaldskökuna afmælisbarnsins, eplaköku. Við mæðgur deilum þessari ást á eplakökum. Reyndar þá finnst mér eplakökur og flestar aðrar kökur sem byggðar eru á einhverskonar sandkökugrunni ekkert henta sérstaklega vel á afmælishlaðborð. Slíkar kökur eru hins vegar himneskar einar og sér sem til dæmis sunnudagskaka eða til þess að bjóða í kaffiboði þar sem bara ein eða tvær kökur eru á borðum. Í afmælisboðum er ég hrifnari af því að vera með marengstertur, súkkulaðikökur, ostakökur og aðrar slíkar kökur sem eru meira svona gúmmelaði. Ég tek líka eftir því að þær kökur eru vinsælli í afmælum heldur en sandkökur. Þessari eplaköku var reyndar gerð afar góð skil í afmælinu. Að þessu sinni prófaði ég að gera hana rjómaosti og það gerði hana ákaflega safaríka og mjúka.
Uppskrift:
- 2 dl sykur
- 120 ml olía
- 1 tsk vanillusykur
- 200 g rjómaostur
- 2 stór egg
- 2 dl hveiti
- 1.5 tsk lyftiduft
- kanelsykur
- 3 epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í báta
Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og ca. 24 cm smelluform smurt að innan. Sykur, olía, vanillusykur og rjómaostur er hrært vel saman. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært vel. Því næst er hveiti og lyftidufti bætt út í og hrært við lágan hraða þar deigið hefur blandast vel saman. Deiginu er svo hellt í smurt formið. Eplabátunum er velt vel upp úr kanelsykri og því næst stungið hér og þar ofan í deigið. Að síðustu er dálítið af kanelsykrinu stráð yfir kökuna. Bakað í ofni í ca 50-60 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn í miðjunni og farin að losna frá forminu. Ef kakan fer að verða dökk í ofninum áður en hún er bökuð í gegn er gott að setja álpappír yfir hana. Best borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.