Beikonpasta


IMG_7892

Við vorum svo ánægð með pastaréttinn sem ég eldaði um daginn að ég ákvað að endurtaka leikinn og prófa mig áfram með enn einfaldari pastarétt. Ég átti smá dreitil afgangs af rauðvíni sem mig langaði líka að koma út og það líka svona smellpassaði við þennan pastarétt. Kosturinn við pastarétti er að það er hægt að galdra fram ótrúlega góða slíka rétti úr fáum og einföldum hráefnum. Til dæmis lætur þessi hráefnalisti hér að neðan lítið yfir sér en úr honum varð þessi dýrindis pastaréttur. Ósk var meira að segja á því að þetta væri mögulega einn sá besti pastaréttur sem hún hefur smakkað! Það er reyndar ekki hægt að neita því að það er varla hægt að klúðra rétti sem í er hálft kíló af beikoni, sá réttur hlýtur alltaf að verða góður! 🙂

Uppskrift:

  • 500 g pasta
  • 500 g extra þykkt beikon (ég notaði frá Ali), skorið í bita
  • 3 tsk ólífuolía
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 tsk chili krydd
  • 3-4 hvítlauksrif
  • 2 öskjur kokteiltómatar, skornir í tvennt (eða ca. 4-5 vel þroskaðir tómatar skornir í litla bita)
  • 2/3 dl rauðvín
  • fersk basilika (ég átti hana ekki til og notaði þurrkaða basiliku ásamt ferskri steinselju)
  • 1,5 dl parmesan ostur, rifinn
  • klettasalat
  • salt & pipar

IMG_7888

Pasta soðið eftir leiðbeiningum.
Beikon steikt þar til það er orðið dökkt og stökkt. Þá er það veitt upp úr pönnunni með gataspaða og lagt ofan á eldhúspappír til að láta mestu fituna renna af. Ca. 3/4 af fitunni af pönnunni hellt af og ólífuolíunni, lauk og chili bætt út á pönnuna. Laukurinn steiktur þar til hann er orðin mjúkur og glær. Þá er hvítlauknum bætt út í og hann steiktur í stutta stund. Því næst er tómötum ásamt basiliku bætt út í og sósan látin malla í ca. 5 mínútur. Að síðustu er rauðvíninu bætt út í, sósan látin ná suðu og er henni leyft að malla við meðalhita nokkrar mínútur. Sósan er smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef með þarf. Að lokum sósunni blandað saman við rifinn parmesan ost, klettasalat, beikon og sjóðandi heitt pasta. Öllu blandað vel saman og borið fram með góðu brauði. Svona lagði Jóhanna Inga skemmtilega á borðið! 🙂

IMG_7894

Nutella rúlluterta


IMG_7895Það var svo dásamlegt veður hér í höfuðborginni í dag. Þegar sólin skín líkt og í dag þá finn ég alltaf hversu niðurdrepandi myrkrið og skammdegið í raun og veru er. Það er því dásamlegt að daginn sé að lengja og sólin farin að skína! 🙂 Um helgina skellti ég í þessa einföldu rúllutertu. Það er gaman að baka köku sem tekur svona stuttan tíma í undirbúningi og bakstri. Ég held að það hafi liðið um það bil korter frá því að ég byrjaði að baka þar til að kakan var tilbúin. Fyrir þá sem eru hrifnir af Nutella þá er þessi kaka „must“! Ef einhver veit ekki hvað Nutella er, þá er það heslihnetusúkkulaðimauk, algjört nammi! Mér datt í hug að það væri gott að skera niður bananabita ofan á Nutella kremið! Ég held að það geti verið rosalega gott og ætla sannarlega að prófa það næst!

Nutella

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 1,5 dl sykur
  • 50 g smjör, brætt
  • 2 msk mjólk
  • 2 msk kakó
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 5 msk hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • ca. 1/2 dós Nutella
  • (bananar? ég held að það gæti verið gott að skera niður bananabita ofan á nutella kremið! 🙂 )

IMG_7834

Ofn hitaður í 250 gráður undir/yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Mjólkinni er hellt út í brædda smjörið. Kakói, kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti blandað saman. Því er svo bætt út í eggjablönduna á víxl við smjör/mjólkurblönduna. Þá er deiginu helt á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á sykurstráðan bökunarpappír. Gott er að bíða í nokkrar mínútur eftir því að kakan kólni svolítið áður en Nutella kremið er borið á kökuna, annars bráðnar það. Þegar Nutella kreminu hefur verið dreift jafnt yfir kökuna (mér finnst gott að hafa kremið fremur þunnt) er henni rúllað upp.

IMG_7838

Ítalskur parmesan kjúklingur


IMG_7887Þetta er færsla númer tvöhundruð á matarblogginu mínu! Það þýðir að ég er komin með alveg hreint ágætissafn af uppskriftum. Þó svo að ég hafi alltaf eldað og bakað töluvert mikið þá hafa síðastliðnir átta mánuðir frá því að ég stofnaði þetta blogg verið einstakir. Síðan þá hef ég sjaldan eldað sama réttinn tvisvar því ég er alltaf með hugann við að bæta við uppskriftasafnið hér á síðunni. Þessa kjúklingauppskrift prófaði ég í fyrsta sinn í kvöld og hún sló í gegn hér á heimilinu. Mjúkur kjúklingur í bragðgóðri sósu með stökkum hjúpi umvafinn dásamlegum ostum – getur varla orðið betra! Rétturinn er ekki bara einstaklega góður heldur barnslega einfaldur að útbúa! Þessa uppskrift verðið þið bara að prófa!

IMG_7881

Uppskrift:0007764490040_300X300

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • chili krydd eftir smekk
  • pipar & salt
  • 6 kjúklingabringur
  • 4-500 gr. tómatsósa með basiliku (ég notaði þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)chathamvillage_croutons_largecut_cheese_garlic_5oz
  • fersk basilka, söxuð gróft
  • 300 g rifinn mozzarella ostur
  • 150 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 poki brauðteningar með hvítlauk

IMG_7873IMG_7879

Ofn hitaður í 180 gráður. Olíunni dreift í botninn á stóru eldföstu móti. Hvítlauk, chilikryddi, pipar og salti dreift yfir. Þá eru kjúklingabringurnar lagðar þar ofan á. Því næst er tómatsósunni hellt yfir kjúklinginn. Því næst er basilikunni dreift yfir tómatsósuna. Svo er helmingnum af mozzarella ostinum dreift yfir ásamt helmingnum af parmesan ostinum. Svo er brauðteningunum dreift yfir og loks restinni af mozzarella ostinum og parmesan ostinum. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_7884

Tælensk gulrótarsúpa


IMG_7868Helgin hefur liðið í rólegheitum. Jóhanna Inga er búin að eyða allri helginni með Kötlu vinkonu sinni, þær gistu saman báðar næturnar. Í gær fóru þær í Krakkahöllina og deginum í dag eyddu þær í snjóhúsagerð ásamt Vilhjálmi. Ég fór hins vegar með skólasystrum mínum út að borða í gærkvöldi, svo sáum við Macbeth og enduðum á bar fram eftir nóttu þar sem mastersgráðunum okkar var fagnað! 🙂

En að uppskrift dagsins, aldrei þessu vant er komið að súpu-uppskrift! Þessi súpa er algjör snilld, hún er hollustusprengja sem hentar vel á flensutímum og er notaleg að gæða sér á í skammdeginu. Í súpunni eru einungis örfá hráefni sem eru fremur ódýr, hverju öðru hollara en síðast en ekki síst er súpan ofsalega bragðgóð. Þessa verðið þið bara að prófa!

Uppskrift f ca. 3-4:

  • 500 g gulrætur
  • 1 gulur laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 rautt chili
  • 2 cm ferskt engifer
  • 400 ml kókosmjólk (1 dós)
  • 6 dl vatn
  • salt & pipar
  • olía til steikingar
  • ferskt kóríander (má sleppa)

Gulrætur flysjaðar og skornar í ca. 1 cm sneiðar. Laukur og hvítlaukur saxaður fínt. Chili fræhreinsað og saxað smátt. Olía sett í pott og laukur, hvítlaukur og chili steikt þar til laukurinn verður mjúkur og glær. Þá er gulrótum bætt út í ásamt vatninu. Suðan látin koma upp og súpan látin malla þar til gulræturnar verða mjúkar. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súpan maukuð (auðveldast með töfrasprota beint í pottinn en líka hægt að nota matvinnsluvél). Þá er kókosmjólk bætt út í ásamt engifer sem er rifinn með rifjárni. Súpan látin ná suðu og malla í dálitla stund, kryddað vel með salti og pipar. Gott er að bera fram súpuna með grófsöxuðum kóríander.

Brauðið með súpunni er ósköp hversdagslegt en samt svo gott. Ég nota venjulegt heimilisbrauð og dreypi á það dálítilli ólífuolíu, þá set ég tómatsneiðar, því næst rifinn mozzarellaost og að lokum dreifi ég yfir brauðið ítölsku kryddi ásamt grófsöxuðu fersku kóríander og steinselju. Hita í ofni við 230 gráður þar til osturinn er farinn að dökkna.

IMG_7861

Pecanböku-ostakaka


IMG_7826Vinur okkar hjóna kom í mat til okkar í vikunni. Hann er mikill matgæðingur og góður kokkur, ég gat því ekki boðið honum upp á neitt slor! 😉 Ég hafði í aðalrétt ofnbakaða þorskinn með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu. Þetta er orðinn svona „my go to“ réttur þegar mig langar að bjóða upp á gómsætan aðalrétt í matarboðum. Ég er búin að skoða svo margar góðar uppskriftir af eftirréttum undanfarið að ég var í dálitlum vandræðum með hvað ég ætti að velja. Og þó – ég var langspenntust fyrir þessari köku! Þeir sem hafa smakkað pecanpæ og bakaða ostaköku þurfa ekki að spyrja hvers vegna! Það er greinilega eitthvað þema hjá mér að blanda saman ostakökum við aðrar kökur samanber brownie-ostakökuna sem ég er með uppskrift af hér. En að þessu sinni er  pekanböku blandað saman við ostaköku sem er þvílíka snilldin! Þetta er algjört sælgæti sem er skemmtilegt að baka og enn skemmtilegra að borða!

IMG_7771

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör
Pecanböku-fylling:
    • 200 g sykur
    • 200 g síróp
    • 80 g smjör, brætt
    • 2 egg
    • 150 g pecan-hnetur, saxaðar gróft
    • 1 tsk vanillusykur
Ostakaka:
  •  600 g rjómaostur
  • 130 g púðursykur
  • 2 msk hveiti
  • 4 egg
  • 150 ml rjómi
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn stilltur á 180 gráður undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna á meðan pecanböku-fyllingin er búin til.

Öllum hráefnunum fyrir pecanböku-fyllinguna blandað saman í pott og látið ná suðu. Látið blönduna malla á meðalhita þar til hún hefur þykknað. Hrært í stöðugt á meðan, þetta tekur 8-10 mínútur. Blöndunni er hellt yfir kexbotninn. Þá er ostaköku blandan útbúin.

IMG_7781

Rjómaostur hrærður í hrærivél eða með rafmagnsþeytara á meðalhraða þar til hann er orðin mjúkur. Þá er púðursykri og hveiti bætt út í þar til blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við einu og einu í senn og þeytt vel, en þó ekki of lengi. Að síðustu er rjómanum og vanillusykrunum bætt út í og hrært á meðan. Þá er ostakökublöndunni hellt yfir pecanbökuna. Bakað í miðjum ofni við 180 gráður í klukkustund. Þá er slökkt á ofninum og kökunni leyft að bíða í ofninum í klukkustund í viðbót. Þá er kakan kæld í minnst 4 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7815