Við vorum svo ánægð með pastaréttinn sem ég eldaði um daginn að ég ákvað að endurtaka leikinn og prófa mig áfram með enn einfaldari pastarétt. Ég átti smá dreitil afgangs af rauðvíni sem mig langaði líka að koma út og það líka svona smellpassaði við þennan pastarétt. Kosturinn við pastarétti er að það er hægt að galdra fram ótrúlega góða slíka rétti úr fáum og einföldum hráefnum. Til dæmis lætur þessi hráefnalisti hér að neðan lítið yfir sér en úr honum varð þessi dýrindis pastaréttur. Ósk var meira að segja á því að þetta væri mögulega einn sá besti pastaréttur sem hún hefur smakkað! Það er reyndar ekki hægt að neita því að það er varla hægt að klúðra rétti sem í er hálft kíló af beikoni, sá réttur hlýtur alltaf að verða góður! 🙂
Uppskrift:
- 500 g pasta
- 500 g extra þykkt beikon (ég notaði frá Ali), skorið í bita
- 3 tsk ólífuolía
- 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
- 1-2 tsk chili krydd
- 3-4 hvítlauksrif
- 2 öskjur kokteiltómatar, skornir í tvennt (eða ca. 4-5 vel þroskaðir tómatar skornir í litla bita)
- 2/3 dl rauðvín
- fersk basilika (ég átti hana ekki til og notaði þurrkaða basiliku ásamt ferskri steinselju)
- 1,5 dl parmesan ostur, rifinn
- klettasalat
- salt & pipar
Pasta soðið eftir leiðbeiningum.
Beikon steikt þar til það er orðið dökkt og stökkt. Þá er það veitt upp úr pönnunni með gataspaða og lagt ofan á eldhúspappír til að láta mestu fituna renna af. Ca. 3/4 af fitunni af pönnunni hellt af og ólífuolíunni, lauk og chili bætt út á pönnuna. Laukurinn steiktur þar til hann er orðin mjúkur og glær. Þá er hvítlauknum bætt út í og hann steiktur í stutta stund. Því næst er tómötum ásamt basiliku bætt út í og sósan látin malla í ca. 5 mínútur. Að síðustu er rauðvíninu bætt út í, sósan látin ná suðu og er henni leyft að malla við meðalhita nokkrar mínútur. Sósan er smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef með þarf. Að lokum sósunni blandað saman við rifinn parmesan ost, klettasalat, beikon og sjóðandi heitt pasta. Öllu blandað vel saman og borið fram með góðu brauði. Svona lagði Jóhanna Inga skemmtilega á borðið! 🙂