Kjúklingaleggir í sweet chili marineringu með satay sósu


Kjúklingaleggir með satay sósuTveggja daga vetrarfríið mitt hefur verið annasamt. Í gær var bókamarkaðurinn opnaður fyrir skólabókasöfnin og ég fór því í bókainnkaup fyrir safnið mitt. Ég starfa enn við rannsóknarverkefnið á Landspítalanum sem ég tók að mér meðfram náminu mínu við Háskólann og í gær þurfti ég að hitta nokkrar sjúklinga í tengslum við það. Kvöldmaturinn í gær var bara samloka á hlaupum því að lokinni vinnu á sjúkrahúsinu brunuðum við hjónin í Borgarleikhúsið og þar sem yngstu börnin biðu með ömmu, afa og Ingu frænku. Við sáum þar seinni forsýningu á Mary Poppins. Það má með sanni segja að við öll höfum verið uppnumin enda stórkostleg sýning, hvert atriðið öðru glæsilegra. Ég held að þetta sé ein flottasta sýning sem ég hef séð hér á landi með tilliti til leikmyndar, búninga, tæknibrella auk söng- og dansatriða. Jóhanna Inga er harður gagnrýnandi og við förum á allar barnaleiksýningar sem sýndar eru hér í leikhúsunum. Fram að hléi sagði hún að þetta væri frábær sýning en að sér þætti Óliver enn besta sýningin. En að lokinni sýningu var hún með stjörnur í augum og sagði að þetta væri besta leiksýning sem hún hefði nokkurn tíma séð og vildi vita hvort hún mætti sjá sýninguna aftur! 🙂 Í dag hef ég verið á fullu við að þrífa og taka til. Á morgun er útskriftin mín og það verður dálítið boð hér heima í tilefni þess. Ég ákvað að gefa sjálfri mér frí í eldhúsinu og pantaði smárétti frá Marentzu Poulsen. Bestu smáréttir sem ég hef bragðað hafði hún útbúið fyrir brúðkaup vinkonu minnar fyrir nokkrum árum. Ég hef því miklar væntingar og er spennt að gæða mér á veitingunum á morgun! 🙂 En uppskrift dagsins er ljúffengur kjúklingur sem ég bjó til um daginn.

Kjúklingaleggir með sweet chilimarineringu:

 • 16 kjúklingaleggir
 • 1 dl sweet chili sósa
 • 1 dl olía
 • 1 dl sojasósa

Öllum hráefnunum er blandað saman. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót og marineringunni helt yfir, kjúklingnum er velt vel upp úr marineringunni. Gott er að láta kjúklinginn standa í klukkutíma í ísskáp í marineringunni. Ofninn er stilltur á 200 gráður og grill og kjúklingurinn eldaður í 20-30 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Það þarf að passa að hann brenni ekki.

Satay sósa

 • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
 • 1 rauður chili, fræhreinsað og saxað smátt
 • 100 g jarðhnetur
 • 1 dós kókosmjólk
 • salt & pipar
 • olía

Laukurinn, hvítlaukur og chili steikt á pönnu upp úr olíu. Helmingurinn af hnetunum er sett í matvinnsluvél, hinn helmingurinn saxað gróft með hníf. Hnetunum er bætt út á pönnuna. Því næst er kókosmjólkinni bætt út í, saltað og piprað. Látið malla á vægum hita í ca. 15 mínútur. Borið fram með kjúklingnum, hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_7996

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.